Kynferðisleg þvingun eða áreiti
Ef einhver þvingar þig til að gera eitthvað kynferðislegt er það kynferðisofbeldi. Það getur til dæmis verið kynmök, innsetning eða snerting á líkamshluta.
Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun.
Ef einhver áreitir þig kynferðislega með orðum, í persónu eða stafrænt, er það líka kynferðisofbeldi.
Það skiptir engu þótt sá sem beitir ofbeldinu sé maki þinn. Flestir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi þekkja þann sem beitti því.
Kynferðisofbeldi getur leitt til áfallastreituröskunar, kvíða og þunglyndis. Fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi er líklegra til að finna fyrir skömm, sektarkennd, reiði, ótta, einangrun og lélegri sjálfsmynd. Stundum koma afleiðingar fram strax en stundum ekki fyrr en síðar.
Dæmi um kynferðisofbeldi er:
- Kossar eða snerting gegn vilja þínum.
- Kynferðisleg orð eða látbragð gegn vilja þínum.
- Kynlíf þegar þú getur ekki sagt nei. Til dæmis af því að þú ert undir áhrifum, þér hefur verið byrlað eða þú ert sofandi.
- Að hæðast að þér eða ógna ef þú vilt ekki gera eitthvað tengt kynlífi. Til dæmis að horfa á klám eða bjóða öðrum með.
- Að hóta að sýna öðrum nektar- eða kynlífsmyndir af þér.
- Að þrýsta á þig að senda sér nektarmyndir af þér.
- Að senda nektarmyndir til þín þótt þú viljir það ekki.
- Kynlífsmansal.
- Nauðgun eða tilraun til nauðgunar.