Kynferðisleg þvingun eða áreiti

Ef einhver þvingar þig til að gera eitthvað kynferðislegt er það kynferðisofbeldi. Það getur til dæmis verið kynmök, innsetning eða snerting á líkamshluta. Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun. Ef einhver áreitir þig kynferðislega með orðum, í persónu eða stafrænt, er það líka kynferðisofbeldi. Það skiptir engu þótt sá sem beitir ofbeldinu sé maki þinn. Flestir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi þekkja þann sem beitti því.

Kynferðisofbeldi getur leitt til áfallastreituröskunar, kvíða og þunglyndis. Fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi er líklegra til að finna fyrir skömm, sektarkennd, reiði, ótta, einangrun og lélegri sjálfsmynd. Stundum koma afleiðingar fram strax en stundum ekki fyrr en síðar.

Dæmi um kynferðisofbeldi er:

  • Kossar eða snerting gegn vilja þínum.
  • Kynferðisleg orð eða látbragð gegn vilja þínum.
  • Kynlíf þegar þú getur ekki sagt nei. Til dæmis af því að þú ert undir áhrifum, þér hefur verið byrlað eða þú ert sofandi.
  • Að hæðast að þér eða ógna ef þú vilt ekki gera eitthvað tengt kynlífi. Til dæmis að horfa á klám eða bjóða öðrum með.
  • Að hóta að sýna öðrum nektar- eða kynlífsmyndir af þér.
  • Að þrýsta á þig að senda sér nektarmyndir af þér.
  • Að senda nektarmyndir til þín þótt þú viljir það ekki.
  • Kynlífsmansal.
  • Nauðgun eða tilraun til nauðgunar.

Fáðu hjálp

Ef þú verður fyrir kynferðisofbeldi er gott að fara sem fyrst á Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis eða á Heilsugæslu til að fá aðstoð. Þar geturðu fengið áverkavottorð sem hægt er nýta ef þú ákveður að kæra.

Þú getur alltaf haft samband við Stígamót sem sérhæfa sig í að hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.

Hjúkrunarfræðingar hjá 1700 geta veitt góða ráðgjöf vegna kynferðisofbeldis. Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) og svo er hægt að hafa samband við 112 gegnum síma eða netspjall.

Leiðarvísir um réttarvörslukerfið fyrir þolendur kynferðisbrota

Ef það hefur verið brotið á þér kynferðislega gætirðu viljað draga gerandann til ábyrgðar. Hér eru upplýsingar um ferlið, frá því að brotið er tilkynnt til lögreglu og þar til það fer fyrir dóm.

Hvað felst í samþykki?

Að gefa samþykki af frjálsum vilja er nauðsynlegt í kynlífi og kynferðislegum athöfnum. Annað er kynferðislegt ofbeldi.

Heilbrigð sambönd og kynlíf

Sambönd fólks eru ólík en gott að muna að ekkert samband er fullkomið. Mestu máli skiptir að tala saman af heiðarleika og virðingu. Hér má finna góð ráð til að eiga skýr og heilbrigð samskipti.

Hefur þú mögulega beitt kynferðisofbeldi?

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Lára

Á fyrstu mánuðum sambandsins fannst Láru aðdáunarvert og sexý hversu auðvelt var að tala við Þránd um kynlíf. En með tímanum virtist þörf hans fyrir að ræða og stunda kynlíf bara aukast og henni fór að finnast það óþægilegt. Sérstaklega þegar hann sagði henni frá nauðgunarfantasíu sem hann var með.

Eina nóttina vaknar Lára upp við að Þrándur er að stunda mök með henni. Hún veit ekki hvað hún á að gera svo hún gerir ekki neitt. Eftir á þakkar Þrándur henni, snýr sér á hina hliðina og sofnar.

Er þetta ofbeldi?

Aðstoð í boði

Sjá alla aðstoð

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð í Reykjavík veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Sjúkt spjall

Nafnlaust netspjall fyrir ungmenni til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.

Aðstandendur þolenda kynferðisofbeldis

Það getur verið erfitt að vita hvernig eigi að hjálpa ástvini sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þú getur verið þeim mikilvægur stuðningur, þótt það virðist yfirþyrmandi í fyrstu.

Stafrænt ofbeldi

Stafrænt ofbeldi, eða netofbeldi, er það þegar einhver notar tæki eða tækni til að fylgjast með þér, ógna þér, áreita þig eða niðurlægja þig. Kynferðisofbeldi getur líka verið stafrænt.

Manneskja horfir á símann sinn sem sýnir ólæsileg skilaboð. Hún snýr baki í okkur svo við sjáum á símann í höndunum á henni. Mikið liðað hár sveiflast í vindinum.