Um Tetra
Tetra talstöðvarkerfið er öflugt, miðstýrt hópfjarskiptakerfi, sérsniðið að þörfum viðbragðsaðila en kerfið er mikilvirkt stjórntæki fyrir hröð og örugg samskipti milli einstaklinga og hópa ásamt flotastjórnun með hjálp ferilvöktunar. Kerfið er samtengt, stafrænt landsþekjandi talstöðvakerfi og getur þannig tengt saman aðila alls staðar á landinu. Margir aðilar geta notað Tetra samtímis án truflana og hægt er að tengja aðila saman eftir þörfum.
Tetra þjónusta hófst hér á landi árið 2000 þegar tvö félög hófu rekstur tveggja Tetra kerfa og náði þjónustan aðeins til hluta landsins. Árið 2005 tók Neyðarlínan við rekstri Tetra þjónustunnar og í framhaldinu var ákveðið að útvíkka þjónustuna þannig að hún næði til meginhluta landsins ásamt því að kerfin voru endurnýjuð.
Frá þeim tíma hefur kerfið verið stækkað smám saman og nær nú til meginhluta landsins. Áfram er unnið að stækkun kerfisins eftir því sem aðstæður krefjast. Fyrir liggur að Tetra þjónustan verður í boði a.m.k. næsta áratuginn, enda hefur hún reynst afar vel fyrir notendur og stuðlað að auknu öryggi.
Fjöldi sendastaða í Tetra kerfinu eru um 200 á landinu öllu þar af eru 17 sendastaðir á höfuðborgarsvæðinu. Tetra stöðvar má einnig nota utan þjónustusvæðisins í beinu sambandi (Direct Mode) við aðrar Tetra stöðvar í nágrenninu.