Samþykki

  • Samþykki þýðir að gefa samþykki fyrir kynlífi eða kynferðislegum hlutum af frjálsum vilja.
  • Ef einhver gerir eitthvað kynferðislegt við þig án þíns samþykkis er það kynferðisofbeldi.
  • Þótt þú sért í sambandi þarf samt að gefa samþykki.

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.

Almenn hegningarlög 194. gr.

Hvað felst í samþykki?

  • Ef þú gefur samþykki þýðir það að þú vilt stunda kynlíf á þeim tíma með þeirri manneskju.
  • Samþykki þýðir ekki endilega „já“ eða „nei“. Samþykki getur líka verið veitt með öðrum orðum eða líkamlegri tjáningu. Þögn, óvissa eða að segja „kannski“ er ekki samþykki.
  • Samþykkið þarf að vera með frjálsum vilja. Ef einhver neyðir þig til að gera eitthvað kynferðislegt hefur þú ekki veitt samþykki.

Það er ekki hægt að gefa samþykki af frjálsum vilja ef:

  • Þú ert sofandi.
  • Þú ert ekki með meðvitund vegna drykkju, vímuefna eða líkamsárásar.
  • Þú ert með meðvitund en undir miklum áhrifum áfengis, vímuefna eða annarra lyfja þannig að þú getur ekki sagt hvað þú vilt.
  • Þú ert andlega fatlaður eða með geðræn vandamál sem valda því að þú skilur ekki hvað er verið að biðja um.
  • Hin manneskjan hefur logið til um hver hún sé eða beitt blekkingum.
  • Hin manneskjan beitir ofbeldi, innilokun eða hótunum þannig að þú óttast að segja nei.
  • Hin manneskjan borgar eða gefur eitthvað, t.d. greiða eða leyfi fyrir einhverju.

Að veita samþykki

Það þarf að veita samþykki í hvert einasta skipti. Þótt þú veittir samþykki einu sinni þýðir það ekki að þú hafir veitt samþykki fyrir öðru skipti.

Samþykki þarf alltaf að vera til staðar. Þú mátt alltaf breyta um skoðun og draga samþykki til baka. Það þarf líka samþykki þótt þú sért í sambandi.

Að sýna einhverjum áhuga er ekki sama og samþykki. Að fara á deit með einhverjum, daðra eða sýna athygli er ekki samþykki.

Fáðu samþykki

Samþykki fyrir kossum, kynlífi og kynferðislegum hlutum er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt til að öllum líði vel. Það er því aldrei í lagi að suða um eða þvinga fram kynlíf, hvort sem við erum í sambandi eða ekki. Til að vera viss um að samþykki sé til staðar er mikilvægt að:

  • Tala opinskátt um hlutina og finna í sameiningu út úr því hvernig athöfnum þið viljið taka þátt í.
  • Spyrja leyfis í staðinn fyrir að gera ráð fyrir að mega gera eitthvað.
  • Halda áfram að spyrja hvað sé gott og hvað hinn aðilinn vill gera, þrátt fyrir að þið hafið sofið saman áður. Fólk langar ekki alltaf að gera það sama.
  • Ef hin manneskjan vill ekki láta snerta sig eða tala við sig á vissan hátt, er óviss, hljóð eða dauf í dálkinn þarf að virða að þá er ekki um samþykki að ræða.

Þegar samþykki er ekki nóg

Í sumum aðstæðum er ekki í lagi fyrir einhvern að stunda kynlíf með þér þótt þú veitir samþykki. Það gerist þegar hin manneskjan er með vald yfir þér og þú þarft að treysta henni. Dæmi um þannig aðstæður eru:

  • Einhver og barn. Það er ólöglegt fyrir fullorðna manneskju að stunda kynlíf með barni undir 15 ára.
  • Heilbrigðisstarfsmaður og sjúklingur.
  • Umönnunaraðili og fötluð manneskja.

Samþykki er eins og tebolli

Hugsaðu um að fá samþykki fyrir kynlífi eins og að bjóða einhverjum tebolla. Myndirðu einhvern tímann neyða aðra manneskju til að drekka tebolla?

Hvað segja krakkar um samþykki?

Hefur þú mögulega farið yfir kynferðisleg mörk einhvers?

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Stígamót

Stígamót hjálpa öllum (konum, körlum og kynsegin fólki) sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Sjúkt spjall

Nafnlaust netspjall fyrir ungmenni til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.

Kynferðislegt ofbeldi og áreitni

Kynferðisofbeldi er það þegar einhver gerir eitthvað eða fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera. Kynferðisleg áreitni er þegar einhver fer yfir mörkin þín kynferðislega og er líka ofbeldi.

Manneskja heldur fyrir augun. Hún snýr að okkur og mikið liðað hár sveiflast til hægri í vindinum.