Mörk og samþykki
Kynlíf byggir á jafnræði og góðum samskiptum þar sem langanir og þarfir beggja aðila eru virtar. Það er aldrei í lagi að suða um eða þvinga fram kynlíf, hvort sem við erum í sambandi eða ekki. Báðum aðilum á að líða vel með að tala um sín mörk. Ef við gerum lítið úr þörfum annarra, segjum þær kjánalegar eða bregðumst á einhvern hátt illa við, erum við ekki að sýna þeim virðingu.
Samþykki fyrir kynlífi og kynferðislegum athöfnum er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt til að öllum líði vel.
Hvað felst í samþykki?
- Að tala saman um það sem við viljum og hlusta á hinn aðilann: fyrir, á meðan og eftir á.
- Að spyrja leyfis í staðinn fyrir að gera ráð fyrir að mega gera eitthvað.
- Að halda áfram að spyrja manneskjuna hvað henni finnist gott og hvað hún vilji gera, þrátt fyrir að þið hafið sofið saman áður. Fólki langar ekki alltaf að gera það sama.
- Samþykki getur verið með orðum eða líkamlegri tjáningu. Ef hinn aðilinn er hljóður, óviss eða segir „kannski“, er það ekki samþykki.
- Samþykki felur í sér að hinn aðilinn sé meðvitaður. Sofandi, mjög drukkið eða meðvitundarlaust fólk getur ekki veitt samþykki.
Þú ert ekki að virða mörk ef þú:
- Setur pressu á hina manneskjuna um að gera hluti sem hana langar ekki til að gera. Til dæmis með hótunum eða með því að koma inn samviskubiti.
- Lætur hinni manneskjunni líða eins og hún skuldi þér kynlíf eða einhverja kynferðislega hegðun, til dæmis af því þú gafst henni gjöf, gerðir henni greiða eða bauðst henni út á stefnumót.
- Hunsar mörk sem hafa verið tjáð með orðum eða líkamlega, til dæmis ef manneskjan færir sig undan eða ýtir þér frá sér.
Það skiptir engu þótt manneskjan hafi sagt eitthvað annað áður, það má alltaf breyta um skoðun. Í lögum er nauðgun skilgreind út frá samþykki, sem þýðir að ef samræði eða önnur kynferðismök eru höfð við manneskju án samþykkis er um nauðgun að ræða. Samþykki er því lykilatriði.