Ofbeldi með stafrænni tækni
Það er stafrænt ofbeldi þegar ofbeldi er beitt gegnum síma, tölvu eða samfélagsmiðla (eins og TikTok, Facebook, Twitter, Instagram eða Snapchat). Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum, tölvupósti eða gegnum samfélagsmiðil. Það er líka stafrænt ofbeldi ef einhver er að fylgjast með hvað þú gerir í símanum þínum og hvað þú gerir á netinu.
Þú átt rétt á þínu einkalífi.
Stafrænt ofbeldi getur verið lúmskt. Það eru ýmis hættumerki sem benda til þess að það gæti verið að beita þig stafrænu ofbeldi:
- Maki þinn (eða fyrrverandi) er sífellt að hafa samband og athuga hvar þú ert.
- Viðkomandi heimtar að fá að skoða símann þinn, vita lykilorð þín eða að þú deilir staðsetningu þinni með sér.
- Viðkomandi er alltaf að birtast óvænt á stöðum þar sem þú ert.
- Skilaboðin þín eða myndir hverfa.
- Vinafólk þitt fær skilaboð frá þér sem þú sendir ekki.
- Þú færð tilkynningu um AirTag sé virkt nálægt þér.
Fólk sem verður fyrir stafrænu ofbeldi upplifir oft ótta, reiði, kvíða, þunglyndi og að vera ekki við stjórn á eigin lífi. Fólki finnst það ekki eiga neitt einkalíf, er líklegt til að einangra sig og upplifir hjálparleysi.