Hvað er nauðungarstjórnun?

Nauðungarstjórnun er þegar manneskja í nánu sambandi tekur stjórn á lífi annarrar manneskju. Þetta er gert með því að stýra aðgengi að samskiptum við vini og fjölskyldu, fjármálum, samfélagsmiðlum eða öðru sem eðlilegt er að frjáls manneskja hafi forræði yfir. Það þarf ekki að vera að líkamlegu ofbeldi sé beitt heldur felst stjórnunin oft í andlegu ofbeldi.

Algengar aðferðir eru:

  • einangrun
  • smánun
  • gaslýsing
  • ofurstjórnun á daglegum hlutum (eins og símtölum, netnotkun, klæðnaði og mat)
  • ofsóknir og eftirför

Sá sem beitir ofbeldinu getur til dæmis verið maki eða fyrrverandi maki, fjölskyldumeðlimur eða umönnunaraðili.

Birtingarmyndir nauðungarstjórnunar

Nauðungarstjórnun (e. coercive control) er regnhlífarhugtak yfir margar birtingarmyndir ofbeldishegðunar. Sá sem beitir ofbeldinu býr til heim þar sem þolandinn er stöðugt undir smásjá. Öll hegðun er gagnrýnd og metin á grundvelli „reglna“ sem breytast stöðugt. Þetta býr til ójafna valdaskiptingu í sambandinu og festir fólk í því.

Dæmi:

  • Veldur þrúgandi andrúmslofti á heimilinu.
  • Öskrar á þig eða hótar þér eða öðrum á heimilinu.
  • Lýgur til að rugla þig í ríminu, einnig kallað gaslýsing.
  • Gagnrýnir oft þig, fjölskyldu þína eða vini og heldur þér jafnvel frá þeim.
  • Reynir að stjórna með fýlu, þögn eða reiðist snögglega.
  • Stýrir fjármálum þínum eða gerir lítið úr getu þinni til að fara með peninga.
  • Áreitir þig stanslaust með skilaboðum, símhringingum eða heimsóknum.
  • Lætur þér líða eins og þú getir ekki hætt í þessu sambandi.

Birtingarmyndirnar geta líka verið óeðlileg hegðun á netinu, til dæmis ef manneskja hefur sterkar skoðanir og vill stýra:

  • hvað þú birtir á samfélagsmiðlum.
  • hvað þú skoðar á samfélagsmiðlum og hve lengi.
  • hvaða öpp þú notar í símanum þínum.
  • skráningu á tíðarhring í appi og öðrum heilsufarsupplýsingum.
  • setur staðsetningarapp í símann þinn (með eða án þinnar vitundar).
  • aðgengi þínu að peningunum þínum.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi
Manneskja með áhyggjusvip horfir út í buskann. Tvö stór spurningamerki svífa í kringum hana.

Jónína

Jónína hefur verið í sambandi við Pálma í átta mánuði. Sambandið þróaðist hratt en smátt og smátt hefur hún misst sambandið við fjölskylduna sína og vini. Henni finnst það leitt en en það skipti meira máli að sjá Pálma taka börnunum hennar vel. Pálmi sér um öll fjármál fyrir þau, enda er hann pottþéttur og alltaf með stjórn á hlutunum. Reyndar skammar Pálmi hana fyrir að eyða of miklum tíma og peningum í innkaup fyrir fjölskylduna og vill alltaf vita hvar hún er. Allt í einu tekur hún eftir að elsta barnið hennar forðast Pálma og vill ekki segja henni af hverju. Pálmi hafði hótað að drepa gæludýrið þeirra ef barnið gerði ekki eins og hann sagði.

Er þetta ofbeldi?

Hvað er til ráða?

Þú átt rétt á að ákveða hvað þú vilt og vilt ekki í lífi þínu. Það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður þótt þú vitir ekki hvað þú getir gert í málunum. Ef þú vilt fá aðstoð getur þú haft samband við þjónustumiðstöðvar ofbeldis: Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri eða Sigurhæðir á Selfossi. Þær sérhæfa sig í stuðningi fyrir fullorðna við hvers konar ofbeldi. Engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.

Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.

Fyrir aðstandendur

Nauðungarstjórnun getur verið ósýnileg fyrir aðstandendum. Mikilvægt er að álasa sér ekki, heldur gera eitthvað í því sem allra fyrst.

Gott er að stíga út fyrir og skoða heildarmyndina.

  • Hefur manneskjan breyst mikið á stuttum tíma?
  • Hefur hún tekið stórar ákvarðanir sem eru ólíkar henni eða fjarlægst fjölskyldu og vini?
  • Afþakkar hún aðstoð eða afsakar hún skrýtna hegðun geranda?
  • Það er eðlilegt að vera hrædd við afleiðingar ef sagt er frá ofbeldi og því ólíklegt að manneskjan vilji segja frá í fyrstu.

Við getum alltaf hjálpað til á einhvern hátt

Við getum látið ástvin okkar vita að við séum til staðar. Það er gríðarlega mikilvægt að vera áfram til staðar, bæði fyrir þolandann og börn. Ef nálgunarbann er brotið, þarf að bregðast við því strax. Ef við gerum ekkert í málinu, þá heldur ástandið áfram að vera eins.

Aðstoð í boði

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð í Reykjavík veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Myndin sýnir bjarta setustofu þar sem er blár sófi hægra megin upp við vegg.  Sófinn er með tveimur gulum púðum fyrir framan lágt viðar sófaborð. Hinu megin við borðið eru tveir hvítir stólar, yfir annan þeirra hefur verið lagt samanbrotið teppi.  Fyrir aftan stólana má sjá bókahillu með ýmsum munum í. Á veggnum gagnstætt hurðinni er hægra megin gluggi með bláum gluggatjöldum. Vinstra megin eru hvítir upphengdir eldhússkápar.

Suðurhlíð

Suðurhlíð er miðstöð í Reykjanesbæ fyrir þolendur ofbeldis og býður upp á ráðgjöf og upplýsingar fyrir fólk sem hefur verið beitt ofbeldi.

Sigurhæðir á Selfossi

Sigurhæðir eru þjónusta á Suðurlandi fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Þar færðu ókeypis ráðgjöf, stuðning og meðferð á þínum forsendum.

Hús Kvennaráðgjafarinnar á Hallveigarstöðum

Kvennaráðgjöfin

Kvennaráðgjöfin er ókeypis lögfræði- og félagsráðgjöf fyrir konur.

Manneskja leiðir aðra manneskju í gegnum stóra gátt inn í bjartan himinn.

Félagsþjónusta sveitar­félaga

Félags- og velferðarþjónustur sveitarfélaganna veita fjölbreyttan stuðning við einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Þar er hægt að fá stuðning vegna ofbeldis.

8 stiga tímalína ofbeldis í nánu sambandi

Nauðungarstjórnun er aðferð til að ná stjórn á manneskju í nánu sambandi. Sá sem býr við nauðungarstjórnun er eins konar gísl í sínu eigin lífi. Alvarlegasta afleiðing nauðungarstjórnunar er manndráp.

Lögreglustjarnan og nafn lögreglu vélritað með hvítum stöfum

Stafrænt ofbeldi

Stafrænt ofbeldi, eða netofbeldi, er það þegar einhver notar tæki eða tækni til að fylgjast með þér, ógna þér, áreita þig eða niðurlægja þig

Manneskja horfir á farsímann sinn sem er opinn og virðist sýna skilaboð

9 ástæður fyrir því að fólk hættir ekki í ofbeldissambandi

Fólk þekkir oft ekki birtingarmyndir ofbeldis og fattar hreinlega ekki að það sé beitt ofbeldi í sambandinu og leitar því ekki eftir hjálp. Hér eru 9 ástæður.

Manneskja styður höndum á gagnaugun. Henni líður greinilega illa. Eldingar eru teiknaðar hjá höfðinu.