Hvað er andlegt ofbeldi?

Hótanir, niðurlæging, eftirlit og stjórnun með því að láta þér líða illa er allt andlegt ofbeldi. Ef einhver sem þú ert í tengslum við gerir þér þessa hluti er líklegt að það sé ofbeldi í nánu sambandi. Fólk sem beitir ofbeldi afsakar sig oft með því að kenna þolandanum um eða öðrum hlutum, eins og áfengi og fyrri sögu, í stað þess að taka ábyrgð á eigin hegðun.

Afleiðingar andlegs ofbeldis sitja oft lengur í fólki en eftir líkamlegt ofbeldi. Andlegt ofbeldi skilur ekki eftir sig áverka sem sjást þannig að það er oft erfitt að átta sig á ofbeldinu.

Ofbeldishringurinn

Ofbeldi í nánu sambandi fylgir oft mynstri sem er kallað ofbeldishringurinn.

  1. Spenna safnast upp.
  2. Á einhverjum tímapunkti losnar um spennuna í formi líkamlegrar eða andlegrar árásar.
  3. „Hveitibrauðsdagarnir” þar sem gerandinn er fullur eftirsjár.

Síðan heldur þessi vítahringur sífellt áfram.

Það gæti verið andlegt ofbeldi ef viðkomandi:

  • Tekur ekki tillit til hvernig þér líður.
  • Veldur þrúgandi andrúmslofti á heimilinu.
  • Öskrar á þig eða hótar þér eða öðrum á heimilinu.
  • Lýgur til að rugla þig í ríminu, einnig kallað gaslýsing.
  • Gagnrýnir oft þig, fjölskyldu þína eða vini.
  • Reynir að stjórna með fýlu eða þögn.
  • Skipar þér fyrir.
  • Reiðist snögglega og að ástæðulausu.
  • Kallar þig ljótum nöfnum.
  • Áreitir þig stanslaust með skilaboðum, símhringingum eða heimsóknum.
  • Heldur þér á einhvern hátt frá vinum og fjölskyldu.

Fáðu hjálp

Það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður. Þú getur haft samband við miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis sem sérhæfa sig í stuðningi við ofbeldi (18 ára og eldri). Ráðgjöfin er ókeypis og engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.

Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.

Reynslusaga Hans

Hans var í fjögur ár í andlegu ofbeldissambandi með eldri manni. Til að byrja með var sambandið gott en síðan fór kærastinn að setja út á Hans æ oftar. Kærastinn stjórnaði fjárhag þeirra, heimilishaldi og sambandi Hans við fjölskyldu og vini. Þannig var stöðug pressa á þúsund litlum punktum.

Reynslusaga Jennýjar

Jenný segir frá ofbeldisfullu sambandi sem stóð yfir í 13 ár. Maðurinn beitti hana og börnin stjórnun og ógnunum. Hún fór frá honum þegar hún þorði ekki að vera lengur. Í dag er hún frjáls.

Hefur þú sýnt ofbeldishegðun?

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Katrín

Katrín var búin að vera einhleyp í töluverðan tíma þegar hún kynnist Sigga. Hann er mjög heillandi og hress. Katrín hefur aldrei skemmt sér eins vel. Allt gerist mjög hratt og eftir nokkra mánuði flytur Siggi inn til hennar. Þau eru mikið saman og þegar þau eru í sundur hringjast þau mikið á og senda skilaboð.

Undanfarið er farið að bera á afbrýðisemi hjá Sigga. Hann ásakar Katrínu um að daðra við aðra karlmenn og finnst hún klæða sig í alltof flegin og þröng föt. Þótt hann segi það aldrei berum orðum þá er eins og hann vilji ekki að hún hitti vinkonur sínar. Katrín fer að passa hvernig hún hegðar sér og hvað hún segir svo að Siggi verði ekki reiður út í hana.

Er þetta ofbeldi?

Aðstoð í boði

Sjá alla aðstoð

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð í Reykjavík veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Heimilisfriður

Heimilisfriður býður upp á meðferð fyrir öll sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

Aðstandendur þeirra sem eru beitt ofbeldi

Það er í lagi að spyrja fólk hvort það sé að upplifa ofbeldi í nánu sambandi. Þú hjálpar með því að trúa og taka það alvarlega. Fáðu ráð um hvernig er best að spyrja.

Líkamlegt ofbeldi

Líkamlegt ofbeldi er það þegar einhver meiðir þig, til dæmis klípur, sparkar, hrindir eða lemur þig. Hótun eða ógnun um að meiða þig er einnig líkamlegt ofbeldi.