Hvað er andlegt ofbeldi?
Hótanir, niðurlæging, eftirlit og stjórnun með því að láta þér líða illa er allt andlegt ofbeldi.
Ef einhver sem þú ert í tengslum við gerir þér þessa hluti er líklegt að það sé heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi.
Fólk sem beitir ofbeldi afsakar sig oft með því að kenna þolandanum um eða öðrum hlutum, eins og áfengi og fyrri sögu, í stað þess að taka ábyrgð á eigin hegðun.
Afleiðingar andlegs ofbeldis sitja oft lengur í fólki en eftir líkamlegt ofbeldi. Andlegt ofbeldi skilur ekki eftir sig áverka sem sjást þannig að það er oft erfitt að átta sig á ofbeldinu.
Það gæti verið andlegt ofbeldi ef viðkomandi:
- Reynir að stjórna lífi þínu, sjá meira um nauðungarstjórnun.
- Tekur ekki tillit til hvernig þér líður.
- Veldur þrúgandi andrúmslofti á heimilinu.
- Öskrar á þig eða hótar þér eða öðrum á heimilinu.
- Lýgur til að rugla þig í ríminu, einnig kallað gaslýsing.
- Gagnrýnir oft þig, fjölskyldu þína eða vini.
- Notar fýlu eða þögn til að reyna að stjórna þér.
- Skipar þér fyrir.
- Reiðist snögglega og að ástæðulausu.
- Kallar þig ljótum nöfnum.
- Áreitir þig stanslaust með skilaboðum, símhringingum eða heimsóknum.
- Heldur þér á einhvern hátt frá vinum og fjölskyldu.