Af hverju fer fólk ekki strax úr ofbeldissambandi?

Þegar fólk fréttir að manneskja sé í ofbeldissambandi er algengt að fyrsta spurningin sem kemur upp sé: „Af hverju fer hún ekki bara?“ Ef þú hefur aldrei orðið fyrir ofbeldi í sambandi gæti verið að þessi viðbrögð virðist rökrétt. En málið er að það er ekki auðvelt að „fara bara“ úr ofbeldissambandi.

Hér eru 9 algengar ástæður:

1. Normalísering á óheilbrigðri hegðun.

Óheilbrigð eða ofbeldisfull hegðun hefur verið normalíseruð af samfélaginu, til dæmis að vera í „stormasömu sambandi“ eða eiga „stjórnsaman“ maka. Fólk þekkir oft ekki birtingarmyndir ofbeldis og fattar hreinlega ekki að það sé beitt ofbeldi í sambandinu og leitar því ekki eftir hjálp.

2. Lítið sjálfstraust.

Andlegt ofbeldi brýtur niður sjálfstraust fólks þannig að tilhugsunin um að fara og byrja lífið upp á nýtt getur virst yfirþyrmandi. Það getur verið mjög erfitt að yfirgefa maka sinn eftir að hafa verið sagt lengi að maður sé einskis virði og að það séu engir betri möguleikar í boði. Fólk sem verður fyrir andlegu ofbeldi gerir sér oft ekki grein fyrir því eða finnst það ekki eins alvarlegt og líkamlegt ofbeldi.

3. Ofbeldishringurinn.

Heimilisofbeldi fylgir oft mynstur í 3 stigum. Fyrst safnast upp spenna, síðan kemur andleg eða líkamleg árás og að lokum koma „hveitibrauðsdagar“ þar sem gerandinn er fullur eftirsjár, sýnir sínar bestu hliðar og lofar að gera þetta aldrei aftur. Þetta þriðja stig er talið vera helsta ástæða þess að fólk fari ekki frá maka sem beitir ofbeldi.

4. Erfitt að komast undan stjórnun.

Nauðungarstjórnun er algeng aðferð þeirra sem beita ofbeldi í sambandi til að ná stjórn í sambandinu og gera þolandanum erfitt um vik að fara. Það er algengt að fólk í ofbeldissambandi reyni að hætta nokkrum sinnum í sambandinu áður en því tekst að gera það fyrir fullt og allt.

5. Gaslýsing.

Eftir átök snýr sá sem beitti ofbeldinu öllu sem gerðist á haus og lætur maka sinn fá samviskubit eða finnast að það sem gerðist sé makanum að kenna. Með því að afneita staðreyndum og tilfinningum manneskju er grafið undan veruleika hennar til þess að ná stjórn. Þetta er kallað gaslýsing.

6. Trú á að makinn muni breytast.

Margt fólk sem lifir við ofbeldi í sambandi heldur áfram af því að það elskar maka sinn og trúir að ástandið muni batna. Það gæti kennt erfiðum aðstæðum um hegðun makans eða að það geti breytt makanum með því að bæta sjálft sig. Aldrei vera í sambandi þar sem þú treystir á að hinn aðilinn muni breytast til hins betra.

7. Ótti við álit annarra.

Fólk sem er beitt ofbeldi í sambandi þorir oft ekki að viðurkenna að maki þess beiti það ofbeldi af hræðslu við að vera ekki trúað, því sé kennt um ofbeldið, vorkennt eða litið niður á það.

8. Sameiginleg tengsl.

Hjónaband, börn og sameiginleg fjármál eru oft ástæður þess að fólk hættir ekki í ofbeldissamböndum. Þessi tengsl verður enn erfiðari að rjúfa þegar það er valdaójafnvægi í sambandinu. Sameiginlegir vini og húsnæði er líka algeng ástæða, sérstaklega hjá yngra fólki.

9. Það er hættulegt að fara.

Að hætta í ofbeldissambandi er ekki bara andlega erfitt heldur getur það líka verið hættulegt. Ofbeldið getur magnast upp í kringum skilnað og sambandsslit. Til að undirbúa sig fyrir að slíta ofbeldissambandi er mikilvægt að passa upp á öryggi sitt á netinu og útbúa öryggisáætlun.

Fólk sem er beitt ofbeldi í sambandi þarf oft hjálp við að komast úr því. Það ætti aldrei að kenna einhverjum um sem verður fyrir ofbeldi. Þótt það sé ekki skynsamlegt að dvelja í óheilbrigðum eða hættulegum aðstæðum þýðir það ekki að manneskjan sé ábyrg fyrir því eða gefi leyfi fyrir ofbeldinu. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Áslaug

Áslaug er í stormasömu sambandi og er sífellt að segja manninum sínum hvað henni finnst ekki í lagi í samskiptum þeirra en hann fer sífellt yfir mörkin hennar. Eftir að hún varð ólétt hefur ástandið bara versnað. Hún er farin að forðast að tala um vissa hluti því þá verður hann bara reiður.

Áslaug veit vel að hún er enginn engill sjálf og hún gerir oft eitthvað sem hún veit að gerir hann reiðan. Áslaug hefur öskrað og ýtt við honum til baka til að komast úr ofbeldisaðstæðum. Hann hefur aldrei lamið hana en heldur henni stundum fastri og kastar hlutum.

Er þetta ofbeldi?

Öryggisáætlun

Að útbúa öryggisáætlun er leið til að vernda öryggi þitt og barnanna þinna, hvort sem það er innan sambandsins eða ef þú ákveður að fara.

Kona dregur frá gluggatjöldum