Leita aðstoðar vegna ofbeldis í nánu sambandi

Gott fyrsta skref er að leita aðstoðar hjá miðstöð fyrir þolendur ofbeldis eða á heilbrigðisstofnun. Þú getur líka haft samband við 112 hvenær sem er til að fá aðstoð vegna ofbeldis.

Tvær manneskju í blómakrónu. Önnur er leið. Hin er ánægð. Þær teygja sig í áttina að hvor annarri. Á myndinni lítur út eins og þær muni haldast í hendur mjög fljótlega.

Fáðu aðstoð

Þín heilsa skiptir mestu máli og afleiðingar áfalla geta verið margs konar. Gott er að leita sér hjálpar sem fyrst, til dæmis á þolendamiðstöð, til að skilja hvernig áhrifin gætu verið að birtast hjá þér og fá stuðning. Það skiptir ekki máli hvort þú sért enn í tengslum við gerandann eða ekki. Það er aldrei of seint að fá aðstoð.

Mynstur í ofbeldissambandi

Ofbeldi í nánu sambandi fylgir oft mynstri sem er kallað ofbeldishringurinn. Þetta mynstur er ein af ástæðum fyrir því að fólk er áfram í ofbeldissambandi og er ekki alltaf tilbúið til að kæra.

  1. Spenna safnast upp.
  2. Á einhverjum tímapunkti losnar um spennuna í formi líkamlegrar eða andlegrar árásar.
  3. „Hveitibrauðsdagar” þar sem gerandinn er fullur eftirsjár og allt er rólegt og gott.

Síðan fer spennan að aukast að nýju og nýr ofbeldishringur byrjar. Loforð um betri tíma og iðrun þess sem beitir ofbeldinu verður oft til þess að vekja von hjá þolandanum um breytingar. Þetta ástand einkennist af miklum andstæðum og getur verið mjög ruglingslegt fyrir þolandann.

Ýmislegt annað getur líka hamlað því að fólk slíti óheilbrigðum samböndum, til dæmis þegar nauðungarstjórnun ríkir í sambandinu. Sjá 9 ástæður fyrir því að fólk hættir ekki í ofbeldissambandi.

Barn á heimilinu

Sumir þolendur ílengjast í ofbeldissambandi í þeirri trú að það sé betra fyrir barnið. Hafðu í huga að barn sem verður vitni að heimilisofbeldi hlýtur svipaðan skaða og ef það hefur sjálft verið beitt ofbeldi. Mikilvægt er að börn fái líka viðeigandi stuðning og aðstoð.

Leiðir til að auka öryggi þitt

Það er ekki á þína ábyrgð að stöðva þann sem beitir þig ofbeldi – aðeins viðkomandi getur gert það. Hins vegar getur þú gert ýmislegt til að auka öryggi þitt og barnanna þinna (ef þú átt börn), hvort sem þú leitar til lögreglu eða ekki.

Ofbeldið versnar oft í kringum sambandsslit eða þegar samskiptum er hætt við gerandann. Þá er sérstaklega mikilvægt að huga vel að andlegu og líkamlegu öryggi þínu.

Kvennaathvarfið er neyðarathvarf sem tekur á móti konum og börnum þeirra sem þurfa að flýja heimili sitt vegna ofbeldis. Það er staðsett á Akureyri og í Reykjavík. Dvölin þar er ókeypis. Þú getur líka fengið ráðgjöf hjá þeim allan sólarhringinn í síma 561 1205.

Öryggisáætlun

Að útbúa öryggisáætlun er leið til að vernda öryggi þitt og barnanna þinna, hvort sem það er innan sambandsins eða ef þú ákveður að fara.

Öryggi þitt á netinu

Passaðu upp á öryggi þitt með því að tryggja að tækin þín séu ekki viljandi eða óviljandi að deila persónulegum upplýsingum sem þú vilt ekki að fari lengra.

Þolendamiðstöðvar

Þolendamiðstöðvar veita áfallamiðaða ráðgjöf, stuðning og upplýsingar um bataferlið og réttarkerfið. Þú getur talað við lögreglu, lögfræðing og önnur hjálparsamtök á staðnum. Þjónustan er fyrir þolendur ofbeldis af öllum kynjum og er ókeypis.

Heilbrigðisstofnanir

Þú getur fengið aðstoð vegna heimilisofbeldis á bráðamóttökum, sjúkrahúsum og á heilsugæslum um land allt, hvort sem brotið er nýafstaðið eða einhver tími er liðinn. Hjúkrunarfræðingar geta aðstoðað þig allan sólarhringinn í síma 1700.

Heimilisofbeldisteymi

Á Landspítalanum starfar teymi sem hefur sérþekkingu á eðli og afleiðingum heimilisofbeldis. Í teyminu starfa sálfræðingar og félagsráðgjafar sem bjóða upp á aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við úrvinnslu áfallsins. Starfsfólk teymisins ræðir við þig í einrúmi og metur með þér hvaða þjónustu þú þarft og vilt. Allur stuðningur er veittur á staðnum eða á fjarfundi eða í síma. Þú getur fengið túlk ef þú þarft.

Þjónustan er veitt á heilbrigðisstofnunum á öllu landinu, er ókeypis og opin fyrir alla þolendur, óháð búsetu, efnahag eða kyni. Þú átt alltaf rétt á stuðningi, óháð aðstæðum – sama hvort þú hyggst kæra eða ekki, ert í neyslu eða ert að glíma við heimilisleysi.

  • Félagsráðgjafi getur aðstoðað þig við praktísk málefni eins og fjárhagsaðstoð og húsnæði, hvar sem þú býrð á landinu. Félagsráðgjafinn verður málastjóri þinn í ferlinu.
  • Áfallateymi býður upp á aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við úrvinnslu áfallsins.
  • Réttargæslumaður er lögmaður sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna þinna og veita þér aðstoð í málinu gegnum réttarkerfið. Þú þarft ekki að borga fyrir þjónustuna heldur greiðir ríkið kostnaðinn.
  • Lögregla. Þú getur fengið að tala við lögreglu hvort sem þú ert að hugsa um að kæra eða ekki. Það getur verið gott að fá upplýsingar um ferlið, rétt þinn og jafnvel tilkynna brotið þótt það sé ekki kært.
  • Aðstoð við að komast í Kvennaathvarf ef þig vantar öruggt skjól.
  • Eftirfylgni. Málastjórinn þinn styður þig í gegnum allt ferlið og inn í önnur úrræði.

Læknisskoðun

Læknir og hjúkrunarfræðingur skoða þig saman og meta þörf fyrir ljósmyndir af áverkum og mögulegum rannsóknum. Ef málið fer áfram í réttarkerfinu getur það styrkt málið að hafa áverkavottorð.

Hjúkrunarfræðingur:

  • Veitir þér stuðning og útskýrir hvernig skoðun fer fram.
  • Framkvæmir rannsóknir og veitir meðferð eftir þörfum.

Læknir:

  • Spyr þig um áverka- og heilsufarsögu.
  • Framkvæmir skoðun á líkamlegum áverkum.
  • Pantar viðeigandi rannsóknir. Læknir sem er ábyrgur fyrir rannsóknum fylgir eftir niðurstöðum og upplýsir þig þegar við á.

Hverjir sjá að ég hef komið?

  • Allt starfsfólk heilbrigðisstofnana er bundið þagnarskyldu, þannig að heimsókn þín og meðferð eru trúnaðarmál.
  • Ef líf þitt eða barns er talið vera í hættu, til dæmis ef um hálstak er að ræða eða þú ert barnshafandi, er starfsfólki skylt að tilkynna það til lögreglu.
  • Upplýsingar eru skráðar í sjúkraskrána þína og enginn utan heilbrigðisstofnana fær aðgang að þeim nema með þínu leyfi. Þú getur alltaf fengið yfirlit yfir hverjir hafa skoðað sjúkraskrána þína.

Meiri aðstoð

Manneskja leiðir aðra manneskju í gegnum stóra gátt inn í bjartan himinn.

Félagsþjónusta sveitar­félaga

Félags- og velferðarþjónustur sveitarfélaganna veita fjölbreyttan stuðning við einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Þar er hægt að fá stuðning vegna ofbeldis.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Skrifaðu niður allt sem þú manst sem tengist ofbeldinu í símann eða í dagbók. Einstaklingar sem verða fyrir alvarlegu áfalli muna ekki endilega allt strax en svo geta ýmis atriði rifjast upp smám saman.

Skilnaður eða sambúðarslit með börn

Sambandsslit eftir ofbeldissamband geta verið erfið og oft heldur andlegt ofbeldi áfram í því ferli. Hér eru upplýsingar um ferlið hjá sýslumanni.

Aðstoð fyrir fólk sem beitir ofbeldi

Þau sem beita ofbeldi í nánu sambandi geta leitað sér aðstoðar hjá Heimilisfriði. Viðtalið kostar 3000 kr. Ef vilji er til að halda sambandinu áfram er einnig boðið upp á makaviðtöl og parameðferð eftir að einstaklingsmeðferð lýkur. Fjarviðtöl eru í boði ef þess þarf.

Þau sem hafa beitt kynferðisofbeldi eða hafa áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni geta fengið aðstoð hjá Taktu skrefið.

Blóm.

Heimilisfriður

Heimilisfriður býður upp á meðferð fyrir öll sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

Taktu skrefið

Taktu skrefið er hópur sálfræðinga sem aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi.