Aðstoð á heilbrigðisstofnunum
Þú getur fengið aðstoð vegna ofbeldis í nánu sambandi á bráðamóttökum, sjúkrahúsum og á heilbrigðisstofnunum um land allt. Á Landspítalanum starfar heimilisofbeldisteymi sem hefur sérþekkingu á eðli og afleiðingum ofbeldis í nánu sambandi. Þjónusta þeirra er veitt á heilbrigðisstofnunum, eins og á heilsugæslum, um allt land og er ókeypis.
Læknisskoðun
Læknir og hjúkrunarfræðingur skoða þig saman og meta þörf fyrir ljósmyndir af áverkum og mögulegum rannsóknum. Ef málið fer áfram í réttarkerfinu getur það styrkt málið að hafa áverkavottorð.
Hjúkrunarfræðingur:
- Veitir þér stuðning og útskýrir hvernig skoðun fer fram.
- Framkvæmir rannsóknir og veitir meðferð eftir þörfum.
Læknir:
- Spyr þig um áverka- og heilsufarsögu.
- Framkvæmir skoðun á líkamlegum áverkum.
- Pantar viðeigandi rannsóknir. Læknir sem er ábyrgur fyrir rannsóknum fylgir eftir niðurstöðum og upplýsir þig þegar við á.
Heimilisofbeldisteymi
Í teyminu starfa sálfræðingar og félagsráðgjafar sem bjóða upp á aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við úrvinnslu áfallsins. Metin er þörf á frekari meðferð og unnið er að styrkingu bjargráða og stuðningskerfa. Teymið er opið fyrir alla þolendur, óháð búsetu, efnahag eða kyni.
Starfsfólk teymisins ræðir við þig í einrúmi og metur með þér hvaða þjónustu þú þarft og vilt. Allur stuðningur er veittur á staðnum eða á fjarfundi eða í síma. Þú getur fengið túlk ef þú þarft. Þú átt alltaf rétt á stuðningi, óháð aðstæðum – sama hvort þú hyggst kæra eða ekki, ert í neyslu eða að glíma við heimilisleysi.
- Félagsráðgjafi getur aðstoðað þig við praktísk málefni eins og fjárhagsaðstoð og húsnæði, hvar sem þú býrð á landinu. Félagsráðgjafinn verður málastjóri þinn í ferlinu.
- Áfallateymi býður upp á aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við úrvinnslu áfallsins. Lesa meira um áfallahjálpina.
- Réttargæslumaður er lögmaður sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna þinna og veita þér aðstoð í málinu gegnum réttarkerfið. Þú þarft ekki að borga fyrir þjónustuna heldur greiðir ríkið kostnaðinn.
- Lögregla. Þú getur fengið að tala við lögregluþjón hvort sem þú ert að hugsa um að kæra eða ekki. Það getur verið gott að fá upplýsingar um ferlið, rétt þinn og jafnvel tilkynna brotið þótt það sé ekki kært.
- Aðstoð við að komast í Kvennaathvarf ef þig vantar öruggt skjól.
- Eftirfylgni. Málastjórinn þinn styður þig í gegnum allt ferlið og inn í önnur úrræði.
Hverjir sjá að ég hef komið?
- Allt starfsfólk heilbrigðisstofnana er bundið þagnarskyldu, þannig að heimsókn þín og meðferð eru trúnaðarmál.
- Ef líf þitt eða barns er talið vera í hættu, til dæmis ef um hálstak er að ræða eða þú ert barnshafandi, er starfsfólki skylt að tilkynna það til lögreglu.
- Upplýsingar eru skráðar í sjúkraskrána þína og enginn utan heilbrigðisstofnana fær aðgang að þeim nema með þínu leyfi. Þú getur alltaf fengið yfirlit yfir hverjir hafa skoðað sjúkraskrána þína.