Skilnaður, sambúðarslit og forsjá

Sambandsslit eftir ofbeldissamband geta verið erfið og oft heldur andlegt ofbeldi áfram í því ferli.

Fáðu stuðning

Gott er að leita sér aðstoðar hjá þolendamiðstöðvum, félagsþjónustu, Kvennaráðgjöfinni eða Mannréttindaskrifstofu til að útskýra og hjálpa þér í gegnum ferlið.

Þegar þú hefur samband við sýslumann vegna skilnaðs eða sambúðarslita er best að taka fram að makinn hafi beitt ofbeldi, þá færðu sérhæfða aðstoð og tekið verður tillit til þess í ferlinu. Fólk sem kemur úr ofbeldissambandi er oft í áfalli og því er gott að hafa einhvern með þér sem getur stutt við þig þegar þú talar við sýslumann.

Sækja um skilnað

Þú getur fengið skilnað hvort sem maki þinn vill það eða ekki. Oft er fyrst sótt um skilnað að borði og sæng og svo lögskilnað eftir 6 mánuði, en það má sækja um beinan lögskilnað ef þið eruð sammála um skilnaðinn, ef maki þinn hefur haldið fram hjá þér eða maki þinn hefur beitt þig eða börn sem búa á heimilinu ofbeldi.

Fyrsta skrefið er að leggja fram beiðni um skilnað á skrifstofu sýslumanns. Hægt er að senda inn umsókn á netinu eða panta viðtalstíma hjá sýslumanni til að fá aðstoð.

Sambúðarslit fólks sem eiga barn saman

Ef þú ert í skráðri sambúð og þið eigið saman barn undir 18 ára þarf að gera samning um forsjá, lögheimili og framfærslu barns hjá sýslumanni. Þú getur óskað eftir að samningur um umgengni verði tekinn til meðferðar samhliða.

Þú getur fyllt út beiðni um samning á Ísland.is og hitt foreldrið verður boðað í viðtal hjá sýslumanni. Einnig getur þú bókað viðtalstíma hjá sýslumanni.

Viðtal hjá sýslumanni

Viðtalið fer vanalega fram á skrifstofu sýslumanns en getur líka verið í síma eða myndsímtali. Hægt er að mæta í viðtalið í sitt hvoru lagi. Lögfræðingur er viðstaddur sem veitir þér allar upplýsingar um réttaráhrif skilnaðar og samninga sem gerðir eru um forsjá, lögheimili, meðlag eða framfærslu auk þess hvaða úrræði eru til staðar ef ágreiningur kemur upp, til dæmis sáttameðferð varðandi umgengni og forsjá.

Túlkur

Það er hægt að biðja um að viðtalið sé á ensku en ef þú þarft á túlki að halda þarftu að útvega hann sjálfur.

Þú getur leitað til Mannréttindaskrifstofu eða Kvennaráðgjafarinnar til að fá ráðgjöf vegna ofbeldis og skilnaðarferlis, þar færðu túlk þér að kostnaðarlausu.

Eignir og skuldir

Skilnaður

Við skilnað skiptast eignir hjóna jafnt, nema um séreignir sé að ræða, til dæmis vegna kaupmála. Kaupmáli getur verið dæmdur ógildur vegna svika eða nauðungar í hjónabandinu.

Hvort um sig ber ábyrgð á sínum skuldum. Það þýðir að þú berð bara ábyrgð á skuldum sem eru á þínu nafni og helming skulda á sameiginlegum reikningum. Undantekningar eru meðal annars skattaskuldir, skuldir vegna framfærslu heimilis, þarfa barna eða húsaleigu.

Sambúðarslit

Ef annar aðilinn er skráður eigandi allra eða meirihluta eigna getur hinn krafist hlutdeildar í eignamyndun á sambúðartímanum. Þá er metið hversu mikið hvor um sig lagði til við myndun eigna sem eru til staðar við sambúðarlok. Ef framlag beggja var sambærilegt er líklegt að dómari úrskurði að eignir skiptist jafnt.

Forsjá og umgengnisréttur

Forsjá þýðir að þú þarft að sjá fyrir öllum þörfum barnsins og taka ákvarðanir eins og hvar barnið á að búa, í hvaða skóla það er eða hvort það sé í tómstundum svo eitthvað sé nefnt. Hjón og sambúðarfólk (foreldrar) hafa sameiginlega forsjá og er það einnig meginreglan við skilnað eða sambúðarslit. Foreldrar hafa lagalega skyldu að setja hagsmuni barns í forgang og miða allar ákvarðanir út frá því sem er barninu fyrir bestu.

Lögheimili

Ef foreldrar búa ekki saman og eru með sameiginlega forsjá þarf að ákveða hjá hvoru foreldrinu barnið er með skráð lögheimili. Börn geta ekki haft tvö lögheimili.

Talað er um:

  • Lögheimilisforeldri: foreldrið sem lögheimili barns er skráð hjá.
  • Umgengnisforeldri: foreldri sem er ekki með lögheimili barns skráð hjá sér.

Skipt búseta

Ef foreldrar semja um skipta búsetu telst barn eiga fasta búsetu hjá þeim báðum. Foreldrar taka þá sameiginlega allar ákvarðanir um barnið, óháð lögheimili, og sýslumaður hefur ekki afskipti af málinu. Lögheimilisforeldrið fær ekki meðlag og barnabætur skiptast á milli beggja.

Enginn getur þvingað þig til að samþykkja skipta búsetu til að forðast afskipti ríkisins. Sýslumaður samþykkir aðeins skipta búsetu ef góð samvinna er milli foreldra. Ef samvinnan gengur illa er hægt að afturkalla samninginn.

Lesa meira um skipta búsetu.

Föst búseta hjá öðru foreldri

Þegar foreldrar með sameiginlega forsjá hafa ekki samið um skipta búsetu telst barn hafa fasta búsetu hjá lögheimilisforeldri.

Lögheimilisforeldrið hefur meiri heimild til ákvarðanatöku um málefni barns en þarf að leitast við að hafa samráð við umgengnisforeldri þegar teknar eru afgerandi ákvarðanir. Lögheimilisforeldrið hefur rétt á meðlagi frá hinu foreldrinu og fær barnabætur og aðrar greiðslur frá hinu opinbera. Lesa meira um fasta búsetu.

Umgengni

Barn á rétt á umgengni við báða foreldra sína þó að þeir búi ekki saman. Best er fyrir barnið að foreldrar geri samkomulag um umgengni. Það þýðir að þau ákveða saman hve oft og hve lengi barnið dvelur hjá umgengnisforeldrinu.

Sáttameðferð

Þegar foreldrar eru ósammála um forsjá, lögheimili eða umgengni barna fer málið í sáttameðferð hjá sáttamanni á vegum sýslumanns. Einnig er hægt að óska eftir sjálfstætt starfandi sáttamanni.

Það er hægt að mæta í sitt hvoru lagi á sáttafund og hitt foreldrið fær ekki upplýsingar um hvenær þú mætir. Lesa meira um sáttameðferð.

Umgengnisréttur

Ef ekki næst samkomulag um umgengnisrétt eftir sáttameðferð er hægt að óska eftir að sýslumaður úrskurði um umgengnina eftir því sem hann telur barninu fyrir bestu.

Algengt er að sýslumaður úrskurði að foreldrið sem barnið býr ekki hjá eða forsjárlausa foreldrið hafi umgengnisrétt við barn sitt aðra hvora helgi, hluta af sumarleyfi og að hluta yfir stórhátíðir og frídaga. Sýslumaður getur þó ákveðið að umgengnisrétturinn skuli vera meiri eða minni eftir aðstæðum í hverju tilfelli. Lesa meira um úrskurð um umgengni.

Forsjár- og lögheimilismál fyrir dómstólum

Ef samkomulag næst ekki um forsjá eða lögheimili barns að lokinni sáttameðferð verður að höfða dómsmál. Best er að fá lögmann til að reka málið og flytja það, þótt þú megir flytja málið á eigin spýtur.

Dómari ákveður út frá því sem er best fyrir barnið hvort foreldri skuli hafa forsjána eða hvort forsjáin skuli vera sameiginleg. Til dæmis skoðar dómarinn tengsl barnsins við hvort foreldri fyrir sig, hvort þeirra hafi séð meira um daglega umönnun barnsins, hvort sé líklegra til að virða rétt barnsins til umgengni við hitt foreldrið, hættu á að barnið, foreldrið eða aðrir á heimilinu hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og fleira. Lesa meira um forsjá barns.

Dvalarleyfi

Ótímabundið dvalarleyfi

Ef þú ert með ótímabundið dvalarleyfi gildir það áfram eftir skilnað og sambúðarslit. Þú þarft ekki að sækja aftur um þegar gildistíminn rennur út heldur aðeins panta tíma í myndatöku og greiða 8.000 krónur fyrir nýtt kort þegar þú mætir.

Sækja um ótímabundið dvalarleyfi

Þú getur sótt um ótímabundið dvalarleyfi ef þú ert með tímabundið dvalarleyfi og hefur búið á Íslandi í 4 ár eða lengur.

Skilyrði
  • Hefur ekki dvalið erlendis lengur en 90 daga samanlagt á hverju ári sem þú hefur haft dvalarleyfi á Íslandi.
  • Hafa sótt íslenskunámskeið.
  • Hafa trygga framfærslu

Hvernig sæki ég um?

Þú sækir um á Ísland.is og sendir með fylgigögn um að þú uppfyllir skilyrðin. Afgreiðslugjald er 22.000 krónur.

Lesa um ótímabundið dvalarleyfi.

Tímabundið dvalarleyfi

Ef þú ert með tímabundið dvalarleyfi sem maki íslensks ríkisborgara þarftu að sækja um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland hjá Útlendingastofnun. Það þarf að senda umsóknina með bréfpósti og afgreiðslugjald er 16.000 krónur. Lesa meira um dvalarleyfið.

Dvalarleyfi vegna ofbeldis eða misnotkunar

Ef þú getur sýnt fram á að þú hefur orðið fyrir ofbeldi eða misnotkun í sambandinu er dvalarleyfið yfirleitt alltaf veitt. Tilkynning til lögreglu, barnaverndar eða gögn frá fagaðilum styrkja umsóknina. Best er að senda inn eins ítarleg gögn og mögulegt er.

Möguleg fylgigögn
  • Læknaskýrslur
  • Sálfræðiskýrslur
  • Lögregluskýrslur
  • Yfirlýsing frá Kvennaathvarfi, þolendamiðstöðvum eða öðrum fagaðilum sem þú hefur leitað til

Hvar fæ ég nánari upplýsingar?

Þú getur leitað ráða hjá:

Ríkisborgararéttur

Þú getur sótt um íslenskt ríkisfang þegar þú hefur átt lögheimili og samfellda búsetu á Íslandi í 7 ár og uppfylla ákveðin skilyrði, eins og að hafa staðist íslenskupróf.

Undantekningar – styttri búsetutími

Þú getur sótt um fyrr ef eitt af eftirfarandi á við:

  • Maki íslensks ríkisborgara: Þú hefur búið á Íslandi í 4 ár frá giftingu. Fyrrverandi maki þarf að hafa verið íslenskur ríkisborgari í 5 ár.
  • Skráð sambúð með íslenskum ríkisborgara: Þú hefur búið á Íslandi í 5 ár frá skráningu sambúðar. Sambúðarmaki þinn þarf að hafa verið íslenskur ríkisborgari í 5 ár.
  • Ríkisborgari Norðurlanda: Þú hefur búið á Íslandi í 4 ár.
  • 18–20 ára: Þú hefur búið á Íslandi frá 13 ára aldri.

Lesa meira um hvenær má sækja um.

Hvernig sæki ég um?

Þú sækir um á Ísland.is og getur einnig sótt um fyrir börnin þín í sömu umsókn.