Ákvarðanir varðandi börn
Við skilnað og sambúðarslit þarf að ákveða forsjá barna, hjá hvoru foreldra barn á að eiga lögheimili og hvernig umgengni er háttað. Oft er ákveðið að foreldrið sem barnið býr ekki hjá greiði með því meðlag en foreldrar geta líka komist sjálf að samkomulagi um framfærslu barns.
Ef foreldrar geta ekki komið sér saman um þessi mál er þeim vísað í sáttameðferð.
Forsjá
Forsjá þýðir að þú þarft að sjá fyrir þörfum barnsins og taka ákvarðanir eins og hvar barnið á að búa, í hvaða skóla það er eða hvort það sé í tómstundum svo eitthvað sé nefnt. Foreldrar hafa lagalega skyldu að setja hagsmuni barns í forgang og miða allar ákvarðanir út frá því sem er barninu fyrir bestu.
Hjón og sambúðarfólk (foreldrar) hafa sameiginlega forsjá en við skilnað eða sambúðarslit getur forsjá verið sameiginleg eða í höndum annars foreldris. Lesa meira um forsjá.
Lögheimili
Barn getur einungis átt eitt lögheimili. Þegar foreldrar búa ekki saman og eru með sameiginlega forsjá þarf að ákveða hjá hvoru foreldrinu barnið er með skráð lögheimili og gera samkomulag um framfærslu barnsins.
Talað er um:
- Lögheimilisforeldri: foreldrið sem lögheimili barns er skráð hjá.
- Umgengnisforeldri: foreldri sem er ekki með lögheimili barns skráð hjá sér.
Skipt búseta
Ef foreldrar semja um skipta búsetu telst barn eiga fasta búsetu hjá þeim báðum. Foreldrar taka þá sameiginlega allar ákvarðanir um barnið, óháð lögheimili, og sýslumaður hefur ekki afskipti af málinu. Lögheimilisforeldrið fær ekki meðlag og barnabætur skiptast á milli beggja.
Enginn getur þvingað þig til að samþykkja skipta búsetu til að forðast afskipti ríkisins. Sýslumaður samþykkir aðeins skipta búsetu ef góð samvinna er milli foreldra. Ef samvinnan gengur illa er hægt að afturkalla samninginn.
Lesa meira um skipta búsetu.
Föst búseta hjá öðru foreldri
Þegar foreldrar með sameiginlega forsjá hafa ekki samið um skipta búsetu telst barn hafa fasta búsetu hjá lögheimilisforeldri.
Lögheimilisforeldrið hefur meiri heimild til ákvarðanatöku um málefni barns en þarf að leitast við að hafa samráð við umgengnisforeldri þegar teknar eru afgerandi ákvarðanir. Lögheimilisforeldrið á rétt á meðlagi frá hinu foreldrinu og fær barnabætur og aðrar greiðslur frá hinu opinbera. Lesa meira um fasta búsetu.
Umgengni
Barn á rétt á umgengni við báða foreldra sína þó að þeir búi ekki saman. Best er fyrir barnið að foreldrar geri samkomulag um umgengni. Það þýðir að þau ákveða saman hve oft og hve lengi barnið dvelur hjá umgengnisforeldrinu. Lesa meira um umgengni.
Úrskurður um umgengni
Ef ekki næst samkomulag um umgengni eftir sáttameðferð er geturðu óskað eftir að sýslumaður úrskurði um umgengnina eftir því sem hann telur barninu fyrir bestu.
Algengt er að sýslumaður úrskurði að foreldrið sem barnið býr ekki hjá eða forsjárlausa foreldrið hafi umgengnisrétt við barn sitt aðra hvora helgi, hluta af sumarleyfi og að hluta yfir stórhátíðir og frídaga. Sýslumaður getur þó ákveðið að umgengnisrétturinn skuli vera meiri eða minni eftir aðstæðum í hverju tilfelli. Lesa meira um úrskurð um umgengni.
Sáttameðferð
Þegar foreldrar eru ósammála um forsjá, lögheimili eða umgengni barna fer málið í sáttameðferð hjá sáttamanni á vegum sýslumanns. Þú getur líka óskað eftir sjálfstætt starfandi sáttamanni. Markmið sáttameðferðar er að hjálpa foreldrum að gera samning um lausn á málum sem er barni fyrir bestu án þess að þurfa úrskurð sýslumanns eða dómstóla.
Það er hægt að mæta í sitt hvoru lagi á sáttafund og hitt foreldrið fær ekki upplýsingar um hvenær þú mætir. Lesa meira um sáttameðferð.
Forsjár- og lögheimilismál fyrir dómstólum
Ef samkomulag næst ekki um forsjá eða lögheimili barns að lokinni sáttameðferð verður að höfða dómsmál. Best er að fá lögmann til að reka málið og flytja það, þótt þú megir flytja málið á eigin spýtur.
Dómari ákveður út frá því sem er best fyrir barnið hvort foreldri skuli hafa forsjána eða hvort forsjáin skuli vera sameiginleg. Til dæmis skoðar dómarinn tengsl barnsins við bæði foreldri, hvort þeirra hafi séð meira um daglega umönnun barnsins, hvort sé líklegra til að virða rétt barnsins til umgengni við hitt foreldrið, hættu á að barnið, foreldrið eða aðrir á heimilinu hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og fleira. Þú getur líka farið fram á að dómari ákveði líka umgengni. Lesa meira um forsjá barns.