Ofbeldið tilkynnt til lögreglu

Ofbeldi í nánu sambandi er tekið mjög alvarlega hjá lögreglunni. Ef lögregla metur að brot sé að ræða rannsakar hún málið, hvort sem þú ákveður að kæra eða ekki.

Hver tilkynnir til lögreglu?

Þolendur eiga oft erfitt með tilkynna ofbeldið til lögreglu og kæra gerandann þegar tengslin eru náin. Barnavernd eða félagsráðgjafar geta líka tilkynnt þessi mál. Ef lögregla fær tilkynningu eða mætir á vettvang og sér skýrar vísbendingar um ofbeldi, rannsakar hún málið. Ef ákæruvaldið metur að hægt sé að sanna brotið, fer málið áfram til dómstóla.

Það skiptir máli að gerandinn beri ábyrgð á gjörðum sínum og hætti að beita ofbeldi. Ef þú ert í bráðri hættu er best að hringja í 112.

Lögregla kemur á vettvang

Það er algengt að lögreglan sé kölluð á vettvang þegar ofbeldi í nánu sambandi á sér stað. Ef lögregla metur að um brot sé að ræða er hefst ákveðið verklag vegna heimilisofbeldis, hvort sem þú vilt kæra eða ekki. Rannsóknarlögreglumaður er kallaður á staðinn og rannsókn á málinu fer af stað.

Yfirleitt er gerandinn handtekinn og fjarlægður af vettvangi, en það fer eftir brotaflokkum og aðstæðum. Ef hann er ekki handtekinn er metið hvort það sé æskilegt að fjarlægja hann af heimilinu.

Stuðningur á vettvangi

  • Þér er boðið að fá félagsráðgjafa á staðinn sem býður þér upp á úrræði og ráðgjöf. Það getur verið mikilvægur stuðningur að þiggja boðið.
  • Ef barn er á vettvangi kemur alltaf félagsráðgjafi til að styðja þig og starfsmaður frá barnavernd sem talar við barnið og passar upp á hagsmuni þess.
  • Ef barn er tengt heimilinu eða aðilar eiga börn er bakvakt barnaverndar látin vita.
  • Gerandi er upplýstur um möguleg úrræði, eins og Heimilisfrið.
  • Túlkur er kallaður til ef þörf er á. Reynt er að fá túlk á staðinn en stundum er notuð símatúlkun. Nákomnir aðilar mega ekki túlka fyrir þolanda né geranda.
  • Akstur á heilbrigðisstofnun ef þú vilt.

Skýrslutaka hjá lögreglu

Rannsakandi hjá lögreglunni tekur viðtal við þig um upplifun þína af brotinu. Hlutverk lögreglunnar er að komast að því sanna í málinu og þín lýsing er lykilatriði.

Skýrsla er tekin af ykkur á staðnum í sitt hvoru lagi. Stundum er bankað upp á hjá nágrönnum til að taka skýrslu. Þér gæti fundist spurningar lögreglu vera skringilegar en þær eru settar fram í samhengi við rannsókn málsins.

Ef gerandi er handtekinn er oftast tekin skýrsla af honum aftur daginn eftir. Vanalega er líka tekin önnur skýrsla af þér eins fljótt og hægt er.

Eftirfylgni

Lögreglan fylgir málinu eftir í samvinnu við félagsþjónustu og barnavernd, ef þau voru á vettvangi, með símtali eða heimsókn.

Lögregla metur á vettvangi hvort hætta sé á áframhaldandi ofbeldi, til dæmis vegna nýrra áverka eða morðhótana, og hvort þörf sé á eftirfylgni með símtali eða heimsókn. Félagsráðgjafi gerir það sama með símtali. Ef annar hvor aðili telur hættu enn til staðar koma þau í óvænta heimsókn til að kanna aðstæður, oftast innan 10 daga.

Ef félagsráðgjafi var á vettvangi færðu símtal frá félagsþjónustu eins fljótt og hægt er eftir atvikið til að veita þér stuðning og ráðgjöf og kanna hvort ástandið hafi breyst. Ef þú ert þegar með mál hjá félagsþjónustu er þinn félagsráðgjafi upplýstur og fylgir því eftir. Annars er málið sett í farveg hjá félagsþjónustu í þínu sveitarfélagi.

Útkall lögreglu vegna heimilisofbeldis

Tilkynna ofbeldi á heilbrigðisstofnun

Þegar þú ferð á heilbrigðisstofnun hvar sem er á landinu geturðu nefnt heimilisofbeldi við starfsmann og þér verður sinnt eins fljótt og hægt er. Á Landspítalanum starfar heimilisofbeldisteymi sem veitir áfallastuðning og aðstoð við að leggja fram kæru. Þjónusta þeirra er veitt á heilbrigðisstofnunum um allt land.

Þú getur fengið að tala við lögreglumann á staðnum og fengið réttargæslumann, hvort sem þú hefur ákveðið að kæra eða ekki. Ef lögreglan metur að um refsivert brot sé að ræða getur hún hafið rannsókn og kært. Sjá nánar um aðstoð á heilbrigðisstofnunum í 1. skrefi.

Öryggisráðstafanir

Lögreglan getur bannað geranda að hafa samband við þig, nálgast þig eða vísað honum af heimili ykkar. Einnig er hægt að fá flöggun á símanúmer eða neyðarhnapp til að tryggja skjót viðbrögð lögreglu ef hætta steðjar að.

Það er best að aðskilja meðferð málsins í réttarkerfinu og batann þinn, þó það geti verið erfitt. Það geta liðið um tvö ár frá því brotið er rannsakað og þangað til málið fer fyrir dóm. Á þeim tíma er mikilvægt fyrir þig að hugsa um þinn bata.

Tala við lögreglu þegar hætta er ekki aðkallandi

Hvort sem ofbeldið er yfirstandandi eða ekki geturðu talað við lögregluna til að fá ráðgjöf eða leggja fram kæru. Það skiptir ekki máli hvort brotið átti sér stað á Íslandi eða erlendis.

Það er lögbrot að beita annað fólk ofbeldi. Ef þú nefnir ákveðið brot rannsakar lögreglan málið. Ef ekki eru næg gögn til að taka málið áfram getur tilkynning samt styrkt það síðar.

Ráðgjöf hjá lögreglu

Þú mátt alltaf leita til lögreglunnar til að fá ráðgjöf. Þú getur fengið að tala við lögreglumann á miðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis og á bráðamóttökum eða heilbrigðisstofnunum á landinu. Einnig geturðu fengið samband við lögregluna í gegnum netspjall 112 eða haft beint samband við ákveðið lögregluumdæmi.

  • Þú þarft ekki að nefna ákveðið brot.
  • Þú getur nefnt ákveðið brot sem þú eða einhver sem þú þekkir hefur orðið fyrir.
  • Það skiptir ekki máli hversu langt er liðið frá broti.
  • Það er sama hvort brot hafi verið kært eða ekki.
  • Það skiptir heldur ekki máli hvort það standi til að kæra brotið eða ekki.

Á þolendamiðstöð

Á þolendamiðstöðvum getur þú fengið að tala við lögreglumann, hvort sem þú vilt fá ráðgjöf eða vilt kæra.

Í kærumóttöku

Ef þú vilt kæra brotið getur þú pantað tíma í kærumóttöku á vefsíðu lögreglunnar. Þú getur kært brotið til lögreglu hvar sem er á landinu, það þarf ekki að vera þar sem brotið átti sér stað. Meðferð ofbeldis í nánu sambandi er eins alls staðar á landinu og er alltaf í forgangi hjá lögreglu.

Þú auðkennir þig með rafrænum skilríkjum, síðan fyllir þú út rafrænt eyðublaðið og sendir hér: Ósk um tíma í kærumóttöku.
Lesa meira um kærumóttöku.

Kæra brot sem gerðist fyrir löngu

Þú getur alltaf haft samband við lögreglu og kært brot. Ef málið er ekki fyrnt fer það til rannsakanda sem skoðar það vel.

Því lengra sem liðið er frá brotinu því erfiðara getur þó reynst að nálgast mikilvæg gögn í málinu. Það getur verið að gögn vanti og þá er erfitt að rannsaka málið.

Stundum er mál fyrnt sem þýðir að samkvæmt lögum er of langt síðan brotið átti sér stað til að hægt sé að kæra það. Brot gegn börnum fyrnast ekki. Þú getur samt alltaf tilkynnt brotið til lögreglu og gefið skýrslu. Sumum þolendum finnst það frelsandi og það auðveldar þeim að komast yfir áfallið.

Skýrslutaka á lögreglustöð

Manneska situr við skrifborð með tölvuskjá fyrir framan sig og slær inn á lyklaborð. Fyrir framan skrifborðið situr önnur manneskja á stól. Sú manneskja er með áhyggjusvip og heldur vinstri hendi að hjartastað.
Stundum þarftu að fara á lögreglustöð til að gefa skýrslu, annað hvort eftir að lögregla hefur komið á vettvang eða þegar þú ert að kæra eldra brot.

Ábyrgð gegnum réttarkerfið

Að láta málið fara í gegnum réttarkerfið er besta leiðin til að láta gerandann svara til saka. Gott er að vita að rannsókn og málsmeðferð taka tíma og vegferðin getur verið erfið.

  • Þótt málið sé rannsakað er ekki víst að málið fari fyrir dóm, það fer eftir gögnum sem liggja fyrir og hversu líklegt ákæruvaldið telur að hægt sé að sanna málið.
  • Ef málið fer fyrir dóm er ekki heldur hægt að ábyrgjast að gerandinn verði dæmdur sekur. Það er samt ekki staðfesting á sakleysi hans eða að dómstólar taki ekki framburð þinn trúanlegan heldur að það séu ekki næg gögn til að sanna brotið samkvæmt lögum.

Lesa meira um feril sakamála gegnum réttarkerfið.

Refsing

Gerandinn er mögulega sakfelldur fyrir ofbeldi í nánu sambandi og þá fer dómurinn varanlega á sakaskrána hans. Gerandinn þarf yfirleitt líka að greiða þér bætur og sakarkostnað. Þú getur átt rétt á bótum þó málið sé látið niður falla.

Refsing geranda er að hljóta þennan dóm. Markmiðið með afplánun, til dæmis fangelsisvist, er svo að koma í veg fyrir að viðkomandi brjóti aftur af sér.