Lögregla kemur á vettvang
Það er algengt að lögreglan sé kölluð á vettvang þegar ofbeldi í nánu sambandi á sér stað. Ef lögregla metur að um brot sé að ræða er hefst ákveðið verklag vegna heimilisofbeldis, hvort sem þú vilt kæra eða ekki. Rannsóknarlögreglumaður er kallaður á staðinn og rannsókn á málinu fer af stað.
Yfirleitt er gerandinn handtekinn og fjarlægður af vettvangi, en það fer eftir brotaflokkum og aðstæðum. Ef hann er ekki handtekinn er metið hvort það sé æskilegt að fjarlægja hann af heimilinu.
Stuðningur á vettvangi
- Þér er boðið að fá félagsráðgjafa á staðinn sem býður þér upp á úrræði og ráðgjöf. Það getur verið mikilvægur stuðningur að þiggja boðið.
- Ef barn er á vettvangi kemur alltaf félagsráðgjafi til að styðja þig og starfsmaður frá barnavernd sem talar við barnið og passar upp á hagsmuni þess.
- Ef barn er tengt heimilinu eða aðilar eiga börn er bakvakt barnaverndar látin vita.
- Gerandi er upplýstur um möguleg úrræði, eins og Heimilisfrið.
- Túlkur er kallaður til ef þörf er á. Reynt er að fá túlk á staðinn en stundum er notuð símatúlkun. Nákomnir aðilar mega ekki túlka fyrir þolanda né geranda.
- Akstur á heilbrigðisstofnun ef þú vilt.
Skýrslutaka hjá lögreglu
Rannsakandi hjá lögreglunni tekur viðtal við þig um upplifun þína af brotinu. Hlutverk lögreglunnar er að komast að því sanna í málinu og þín lýsing er lykilatriði.
Skýrsla er tekin af ykkur á staðnum í sitt hvoru lagi. Stundum er bankað upp á hjá nágrönnum til að taka skýrslu. Þér gæti fundist spurningar lögreglu vera skringilegar en þær eru settar fram í samhengi við rannsókn málsins.
Ef gerandi er handtekinn er oftast tekin skýrsla af honum aftur daginn eftir. Vanalega er líka tekin önnur skýrsla af þér eins fljótt og hægt er.
Eftirfylgni
Lögreglan fylgir málinu eftir í samvinnu við félagsþjónustu og barnavernd, ef þau voru á vettvangi, með símtali eða heimsókn.
Lögregla metur á vettvangi hvort hætta sé á áframhaldandi ofbeldi, til dæmis vegna nýrra áverka eða morðhótana, og hvort þörf sé á eftirfylgni með símtali eða heimsókn. Félagsráðgjafi gerir það sama með símtali. Ef annar hvor aðili telur hættu enn til staðar koma þau í óvænta heimsókn til að kanna aðstæður, oftast innan 10 daga.
Ef félagsráðgjafi var á vettvangi færðu símtal frá félagsþjónustu eins fljótt og hægt er eftir atvikið til að veita þér stuðning og ráðgjöf og kanna hvort ástandið hafi breyst. Ef þú ert þegar með mál hjá félagsþjónustu er þinn félagsráðgjafi upplýstur og fylgir því eftir. Annars er málið sett í farveg hjá félagsþjónustu í þínu sveitarfélagi.