Réttargæslumaður

Réttargæslumaður er lögmaður sem passar upp á þína hagsmuni í kæruferlinu. Allir sem kæra kynferðisbrot eiga rétt á sínum réttargæslumanni.

Þess vegna þarft þú ekki að ráða lögmann ef þú kærir kynferðisbrot. Laun réttargæslumannsins eru greidd af ríkinu.

Réttargæslumenn eru:

  • Lögmenn
  • Út um allt land
  • Konur og karlar á öllum aldri
  • Mörg með mikla reynslu í málum eins og þínu

Hvað gerir réttargæslumaður?

Er með þér í skýrslutöku

Réttargæslumaðurinn hjálpar þér að undirbúa þig fyrir skýrslutöku hjá lögreglu. Þau fara líka með í skýrslutökuna og eru með þér allan tímann.

Í héraðsdómi

Ef málið þitt fer fyrir dóm undirbýr réttargæslumaðurinn þig fyrir að bera vitni í héraðsdómi. Réttargæslumenn eru viðstaddir öll réttarhöldin fyrir þína hönd.

Veitir upplýsingar um málið

Réttargæslumaður útskýrir málsmeðferðina fyrir þér. Hann eða hún getur aflað upplýsinga um stöðu málsins hjá lögreglu og héraðssaksóknara.

Bætur

Réttargæslumaður sækir um skaðabætur fyrir þína hönd.

Góð ráð

Réttargæslumaðurinn þinn getur gefið þér lagalegar leiðbeiningar og ráð.

Hvernig fæ ég réttargæslumann?

Þú mátt:

  • Láta úthluta þér réttargæslumanni á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis
  • Velja réttargæslumann af lista hjá lögreglu eða þolendamiðstöð
  • Leita til lögmanns sem þú vilt að taki verkið að sér

Og mjög mikilvægt:

Þú mátt alltaf skipta um réttargæslumann.

Þarf ég að fá réttargæslumann?

Þú átt rétt á að fá réttargæslumann en það er ekki skylda.

Ef þú ert yngri en 18 ára er réttargæslumaður alltaf tilnefndur.

Ef þú ert yngri en 18 ára

Ef þú ert yngri en 18 ára er alltaf tilnefndur réttargæslumaður.

Réttargæslumenn eru í samskiptum við foreldra eða forsjáraðila þína. Þau hafa ekki samband við þig beint.