Hvernig á að búa til öryggisáætlun
Þú getur ekki stöðvað maka þinn í að beita ofbeldi – aðeins hann getur gert það. En þú getur gert ýmislegt til að auka öryggi þitt og barnanna þinna – ef þú átt börn.
Mikilvægir hlutir til að hafa alltaf á þér
- Símanúmer fyrir ólíkar aðstæður. Til dæmis númer Neyðarlínunnar 112, Kvennaathvarfsins (561 1205) eða annarra samtaka eða úrræða í nágrenninu og símanúmer skóla barnanna þinna.
- Smá upphæð í peningum. Það getur komið sér vel, til dæmis fyrir leigubíl eða kaup á einhverju sem vantar. Það er ekki hægt að rekja slóð peninga en kort er auðvelt að rekja.
- Síma. Ef þig grunar að maki þinn reki ferðir þínar í gegnum símann gætir þú verið með frelsiskort og gamlan síma til að nota í neyðartilvikum.
Undirbúningur til að geta yfirgefið heimili þitt fyrirvaralaust
- Kynntu þér hvaða aðstoð er í boði og hvert þú getur leitað skjóls jafnt á nóttu sem degi.
- Gerðu flóttaáætlun og æfðu hana svo þú getir komist út úr hættulegum aðstæðum (ásamt börnum þínum). Hugsaðu út í hvernig þú kemst öruggast og fljótlegast út.
- Láttu vini eða fjölskyldu vita ef þú óttast um öryggi þitt eða ef þú ert hjálparþurfi. Til dæmis er hægt að semja um neyðarorð sem þú getur notað ef þú vilt láta sækja þig.
- Ef þú átt nágranna sem þú treystir geturðu sagt þeim hvað er í gangi og fengið að fara inn hjá þeim í neyðartilvikum.
- Pakkaðu niður helstu nauðsynjum fyrir þig og börnin í neyðartösku sem þú geymir til dæmis hjá traustum vini eða nágranna.
Skapaðu eins öruggar aðstæður og hægt er
- Reyndu að átta þig á hvenær meiri líkur eru á að ofbeldið eigi sér stað.
- Lærðu að þekkja þegar spenna hleðst upp sem er líkleg til að leiða til ofbeldis.
- Ef þú óttast að maki þinn sé að fara að ráðast á þig haltu þig á þeim stöðum á heimilinu þar sem áhætta er lítil og auðvelt að komast út. Forðastu til dæmis eldhús og bílskúr þar sem hnífar og verkfæri eru og baðherbergi þar sem sjaldnast er undankomuleið.
- Farðu út með hóp af vinum eða öðrum pörum frekar en tvö ein.
- Biddu nágranna um að hringja í 112 ef þeir verða varir við ofbeldi eða hávaða sem gæti verið ofbeldi.
- Kenndu börnunum þínum að hringja í 112 í neyðartilvikum og hvað þau eiga að segja, til dæmis fullt nafn og heimilisfang.
- Passaðu upp á öryggi þitt á tækjum og netinu.