Hvernig á að búa til öryggisáætlun

Þú getur ekki stöðvað maka þinn í að beita ofbeldi – aðeins hann getur gert það. En þú getur gert ýmislegt til að auka öryggi þitt og barnanna þinna – ef þú átt börn.

Mikilvægir hlutir til að hafa alltaf á þér

  • Símanúmer fyrir ólíkar aðstæður. Til dæmis númer Neyðarlínunnar 112, Kvennaathvarfsins (561 1205) eða annarra samtaka eða úrræða í nágrenninu og símanúmer skóla barnanna þinna.
  • Smá upphæð í peningum. Það getur komið sér vel, til dæmis fyrir leigubíl eða kaup á einhverju sem vantar. Það er ekki hægt að rekja slóð peninga en kort er auðvelt að rekja.
  • Síma. Ef þig grunar að maki þinn reki ferðir þínar í gegnum símann gætir þú verið með frelsiskort og gamlan síma til að nota í neyðartilvikum.

Undirbúningur til að geta yfirgefið heimili þitt fyrirvaralaust

  • Kynntu þér hvaða aðstoð er í boði og hvert þú getur leitað skjóls jafnt á nóttu sem degi.
  • Gerðu flóttaáætlun og æfðu hana svo þú getir komist út úr hættulegum aðstæðum (ásamt börnum þínum). Hugsaðu út í hvernig þú kemst öruggast og fljótlegast út.
  • Láttu vini eða fjölskyldu vita ef þú óttast um öryggi þitt eða ef þú ert hjálparþurfi. Til dæmis er hægt að semja um neyðarorð sem þú getur notað ef þú vilt láta sækja þig.
  • Ef þú átt nágranna sem þú treystir geturðu sagt þeim hvað er í gangi og fengið að fara inn hjá þeim í neyðartilvikum.
  • Pakkaðu niður helstu nauðsynjum fyrir þig og börnin í neyðartösku sem þú geymir til dæmis hjá traustum vini eða nágranna.

Skapaðu eins öruggar aðstæður og hægt er

  • Reyndu að átta þig á hvenær meiri líkur eru á að ofbeldið eigi sér stað.
  • Lærðu að þekkja þegar spenna hleðst upp sem er líkleg til að leiða til ofbeldis.
  • Ef þú óttast að maki þinn sé að fara að ráðast á þig haltu þig á þeim stöðum á heimilinu þar sem áhætta er lítil og auðvelt að komast út. Forðastu til dæmis eldhús og bílskúr þar sem hnífar og verkfæri eru og baðherbergi þar sem sjaldnast er undankomuleið.
  • Farðu út með hóp af vinum eða öðrum pörum frekar en tvö ein.
  • Biddu nágranna um að hringja í 112 ef þeir verða varir við ofbeldi eða hávaða sem gæti verið ofbeldi.
  • Kenndu börnunum þínum að hringja í 112 í neyðartilvikum og hvað þau eiga að segja, til dæmis fullt nafn og heimilisfang.
  • Passaðu upp á öryggi þitt á tækjum og netinu.

Næstu skref

Hvaða leiðir sem þú hefur notað til að takast á við ofbeldið getur komið að því að þér finnst eina leiðin vera að fara af heimilinu og ef til vill slíta sambandinu. Að taka ákvörðun um að fara að heiman þýðir ekki að þú þurfir að gera það strax. Taktu þann tíma sem þarf til að undirbúa þig vel. Að hugleiða sambandsslit og taka ákvörðunum það getur verið langt ferli.

Að undirbúa brottför af heimilinu

Stundum versnar ofbeldið ef gerandi telur að þolandinn ætli að ljúka sambandinu. Þetta getur því orðið hættulegur tími fyrir þig. Það er mikilvægt að muna að það að slíta sambandinu mun ekki endilega stöðva ofbeldið strax.

Hugaðu að fjármálunum. Kannski getur þú lagt fyrir svolitla upphæð í hverri viku. Þú þarft ef til vill að stofna nýjan bankareikning sem aðeins þú hefur aðgang að.

Ákveddu stund þar sem þú veist að maki þinn verður ekki heima. Reyndu að taka með þér allt sem þú þarfnast, þar með talin mikilvæg persónuleg skjöl og gögn varðandi þig og börnin. Það er ekki víst að þú getir komið aftur til að sækja þessa hluti.

Ef þú átt börn á heimilinu, taktu þau með þér. Það gæti orðið erfitt að fá þau til þín síðar ef þú ferð án þeirra. Ef þau eru í leikskóla eða skóla gerðu ráðstafanir þannig að allir kennarar þeirra viti hver staðan er. Láttu vita hverjir muni sækja börnin í skólann.

Hvað þarf að taka með að heiman?

Eftirfarandi hlutir gætu verið nauðsynlegir eftir því sem við á. Sumt getur þú borið á þér en öðru gætir þú komið fyrir í neyðartöskunni.

  • Persónuskilríki fyrir þig og börnin, vegabréf og ökuskírteini.
  • Peninga og greiðslukort.
  • Nauðsynleg lyf.
  • Skjöl sem varða fasteignalán, húsaleigu eða bílinn.
  • Föt og snyrtivörur fyrir þig og börnin.
  • Myndir, persónulega muni, dagbók, skartgripi og annað sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir þig.
  • Uppáhaldsleikföng barnanna.
  • Ef þú átt skjöl eins og áverkavottorð, lögregluskýrslur eða annað sem tengist ofbeldinu, hafðu það þá með þér líka.

Öryggi þitt eftir sambandsslit

Ef þú ferð frá maka þínum vegna heimilisofbeldis getur verið að þú viljir ekki segja öðrum frá þeirri ástæðu.

Það er algjörlega þín ákvörðun hvort þú segir fólki frá því að þú hafir búið við ofbeldi. En ef þú heldur að þú gætir ennþá verið í hættu gæti það aukið öryggi þitt að segja fjölskyldu þinni, vinum, kennurum barna þinna og vinnuveitanda þínum hvernig staðan er. Þá er ólíklegra að þau gefi fyrrverandi maka þínum óvart upplýsingar sem ekki eiga erindi til viðkomandi. Þau verða líka betur undir það búin að aðstoða þig ef á þarf að halda.

Hafir þú farið að heiman en býrð ennþá í sama bæjarfélagi eða landshluta eru nokkur atriði sem þú ættir að huga að til að auka öryggi þitt.

  • Reyndu að einangra þig ekki eða koma þér í aðstæður þar sem þú ert varnarlaus.
  • Forðastu staði sem þú fórst venjulega á þegar þið voruð saman, eins og verslanir, banka eða kaffihús.
  • Reyndu að breyta venjum þínum eins og þú getur.
  • Endurskoðaðu listann yfir þá sem mega sækja börnin þín í skóla og leikskóla og láttu þessa aðila vita um mikilvægi þess að eftir listanum sé farið.

Ef ofbeldið heldur áfram

Í sumum tilvikum heldur ofbeldið áfram eftir að sambandinu er slitið. Þá eru ýmsir hlutir til að huga að.

  • Haltu dagbók yfir það áreiti sem þú verður fyrir.
  • Ef þú þarft að leita til læknis vegna áverka af hendi fyrrverandi maka biddu þá um áverkavottorð.
  • Gerðu ráðstafanir til að tryggja öryggi heimilisins eins og að hafa virka reykskynjara, tryggar gluggakræjur, hreyfiskynjara á útiljós og skipta um skrár ef óvissa er með hver hefur lykil.

Öryggi á netinu

Það er alltaf gott að passa upp á að óviðkomandi sjái ekki hvað þú ert að gera á netinu, hvar þú ert eða komist í gögnin þín.