Vanræksla

Vanræksla er tegund af ofbeldi sem birtist hjá fólki sem þarf aðstoð. Það getur til dæmis verið eldra fólk, fatlað fólk eða börn. Það er vanræksla þegar manneskja fær ekki þá aðstoð sem hún þarf til að líða vel.

Vanræksla getur verið af völdum aðstandanda eða umönnunaraðila. Hún getur gerst bæði inni á heimili eða á hjúkrunarheimilum eða öðrum stofnunum.

  • Eldra fólk þarf oft aukna aðstoð á efri árum, til dæmis með lyfjagjöf eða heimsókn á heilsugæslu. Það er vanræksla ef umönnunaraðili sinnir ekki þeim þörfum.
  • Fatlað fólk þarf oft sérhæfða aðstoð við dagleg verkefni. Það er vanræksla þegar fatlað fólk meiðist eða þarf aðstoð vegna veikinda og fær ekki hjálp. Sama á við þegar fatlað fólk þarf að komast á milli staða og fær ekki umsamda þjónustu.
  • Börn eru undir forsjá foreldra og það er vanræksla ef barn er illa klætt, fær ekki stuðning við nám, fær ekki lyf eða nóg að borða.

Fólk sem er vanrækt upplifir oft hjálparleysi, ótta, reiði, kvíða og þunglyndi. Það óttast að vera ekki við stjórn á eigin lífi og vilja því stundum ekki segja frá vanrækslunni. Það er samt mikilvægt að segja alltaf frá vanrækslu því við eigum öll rétt á að líða vel.

Það gæti verið vanræksla ef einhver:

  • Gerir lítið úr því að þú þurfir að drekka eða borða.
  • Hjálpar þér ekki við að komast á klósettið.
  • Svarar þér ekki þegar þú talar.
  • Gefur þér ekki lyfin þín á tilsettum tíma.
  • Er sama þótt þú sért í skítugum eða blautum fötum.
  • Fer ekki með þig til læknis ef þú þarft þess.
  • Sækir þig ekki eins og um var samið.

Fáðu hjálp

Það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður. Ef þú vilt fá aðstoð getur þú haft samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Bjarmahlíð á Akureyri sem sérhæfa sig í stuðningi við fullorðna við hvers konar ofbeldi. Engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.

Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Fjóla

Eftir að barnsfaðir Fjólu fór skyndilega frá henni og 3 ára stelpunni þeirra, Ásdísi, leitaði hún meira og meira í áfengi. Því meira sem Fjóla drekkur því oftar gerist það að hún reiðist við Ásdísi sem er mjög lík pabba sínum. Fjóla hefur oft hreytt í Ásdísi að það sé henni að kenna að pabbi hennar fór frá þeim eða segir henni að fara inn í herbergi því hún getur ekki horft upp á hana.

Nágrannakona Fjólu passar oft Ásdísi en þegar Fjóla sækir ekki dóttur sína eitt skiptið fyrr en morguninn eftir veit nágrannakonan ekki alveg hvað hún eigi að gera.

Er þetta ofbeldi?

Aðstoð í boði

Sjá alla aðstoð
Merki fyrir fatlaða á vegg fyrir ofan skábraut.

Réttindagæslu­maður

Réttindagæslumaður hjálpar fötluðu fólki að ná fram rétti sínum.

Barnavernd

Markmið barnaverndar er að styðja foreldra til að hugsa vel um börnin sín. Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita.

Mannréttinda­skrifstofa

Hjá Mannréttindaskrifstofu fá innflytjendur ókeypis lögfræðiráðgjöf.

Ofbeldi gegn börnum

Öll börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Ef þú veist eða hefur grun um að barn sé beitt ofbeldi áttu að tilkynna það. Alvarlegt einelti, vanrækslu og áhættuhegðun á líka að tilkynna. Lestu meira um ofbeldi gegn börnum.

Strákur les í bók, við hlið hans situr unglingstelpa með snjallsíma og heyrnatól

Ofbeldi gegn eldra fólki

Ofbeldi er það þegar einhver gerir eitthvað sem meiðir þig eða lætur þér líða illa. Eldra fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi en yngri kynslóðir.