Vanræksla
Vanræksla er tegund af ofbeldi sem birtist hjá fólki sem þarf aðstoð. Það getur til dæmis verið eldra fólk, fatlað fólk eða börn. Það er vanræksla þegar manneskja fær ekki þá aðstoð sem hún þarf til að líða vel.
Vanræksla getur verið af völdum aðstandanda eða umönnunaraðila. Hún getur gerst bæði inni á heimili eða á hjúkrunarheimilum eða öðrum stofnunum.
- Eldra fólk þarf oft aukna aðstoð á efri árum, til dæmis með lyfjagjöf eða heimsókn á heilsugæslu. Það er vanræksla ef umönnunaraðili sinnir ekki þeim þörfum.
- Fatlað fólk þarf oft sérhæfða aðstoð við dagleg verkefni. Það er vanræksla þegar fatlað fólk meiðist eða þarf aðstoð vegna veikinda og fær ekki hjálp. Sama á við þegar fatlað fólk þarf að komast á milli staða og fær ekki umsamda þjónustu.
- Börn eru undir forsjá foreldra og það er vanræksla ef barn er illa klætt, fær ekki stuðning við nám, fær ekki lyf eða nóg að borða.
Fólk sem er vanrækt upplifir oft hjálparleysi, ótta, reiði, kvíða og þunglyndi. Það óttast að vera ekki við stjórn á eigin lífi og vilja því stundum ekki segja frá vanrækslunni. Það er samt mikilvægt að segja alltaf frá vanrækslu því við eigum öll rétt á að líða vel.