Vanræksla
Vanræksla á barni er þegar það er ekki hugsað nógu vel um barnið þannig að skaði getur orðið á þroska þess. Vanræksla getur hafist strax í móðurkviði. Almennt telst það ekki vanræksla þegar þörfum barns er stundum ekki sinnt nógu vel.
Vanræksla skiptist í eftirfarandi fjóra flokka.
Líkamleg vanræksla
- Barn fær ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
- Barn fær ekki mat eða föt við hæfi.
- Hreinlæti barns er ekki fullnægjandi.
- Húsnæði er ekki íbúðarhæft.
Vanræksla við umsjón og eftirlit
- Barn er skilið eftir eitt og eftirlitslaust án þess að hafa til þess aldur eða þroska.
- Barn er skilið eftir hjá óhæfum einstaklingi.
- Barn er skilið eftir hjá einhverjum óeðlilega lengi.
- Barn er ekki verndað og jafnvel í hættu vegna annarlegs ástands foreldris vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu.
Vanræksla við nám
- Barn kemur endurtekið í skólann án nauðsynlegra áhalda eða fatnaðar, og ábendingar til foreldra bera engan árangur.
- Barn mætir illa í skóla og foreldrar láta það afskiptalaust.
- Barn er ekki skráð í skóla eða missir mikið úr skóla vegna ólögmætra ástæðna, til dæmis vegna pössunar á yngri systkini eða foreldri vaknar ekki.
- Foreldrar sinna ekki ábendingum skóla um sérfræðiaðstoð fyrir barnið.
Tilfinningaleg vanræksla
- Foreldri bregst seint eða ekki við, til dæmis þegar ungbarn grætur eða barn þarfnast stuðnings vegna áfalls.
- Foreldri örvar ekki andlegan þroska barns, til dæmis með því að láta sem það heyri hvorki í barninu né sjái það.
- Barn er ofverndað og fær litla hvatningu til að vera sjálfstætt, sem hefur áhrif á þroska þess.
- Foreldri setur barni ekki eðlileg mörk og beitir því ekki aga.