Hvað er ofbeldi?

Ofbeldi getur verið allskonar.

  • Andlegt ofbeldi. Þegar einhver hótar þér, gerir lítið úr þér eða lætur þér líða illa.
  • Líkamlegt ofbeldi. Þegar einhver meiðir þig, til dæmis klípur, sparkar, hrindir eða lemur þig.
  • Kynferðislegt ofbeldi. Þegar einhver káfar á þér eða fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera.
  • Fjárhagslegt ofbeldi. Þegar einhver svíkur af þér peninga, tekur peninga þína af þér eða neitar að láta þig fá peningana þína.
  • Stafrænt ofbeldi. Þegar einhver notar tæki eða tækni til að fylgjast með þér, ógna þér, áreita þig eða niðurlægja þig.

Fatlað fólk er í meiri áhættu fyrir því að verða fyrir ofbeldi en ófatlað fólk. Fatlaðar konur og fötluð börn eru í enn meiri áhættu. Því miður er fatlað fólk oft svo vant fordómum, niðurlægjandi viðhorfum eða lélegri þjónustu að það áttar sig ekki á því að það er að verða fyrir ofbeldi.

Þú getur haft samband við réttindagæslumann ef þér finnst að einhver hafi brotið á rétti þínum eða beitt þig ofbeldi. Þú getur hringt í síma 554 8100 eða sent tölvupóst á postur@rettindagaesla.is.

Þú getur talað við 112 gegnum netspjall ef þú heldur að þú sért að verða fyrir ofbeldi.

Reynslusaga Jóhönnu

Hér er myndband um Jóhönnu. Hún er fötluð kona sem fór í Bjarkarhlíð og Stígamót til að vinna úr ofbeldi sem hún varð fyrir. Í dag líður henni miklu betur.

Stuttmynd um ofbeldi gegn konu með þroskahömlun

Ungar fatlaðar konur verða oftar fyrir ofbeldi en aðrir. Hér er stuttmynd um Afsoon sem er með þroskahömlun. Afsoon er beitt ofbeldi af manni sem keyrir hana til og frá vinnu.

Ungur maður með NPA segir frá

Ungur maður segir að þótt hann notar NPA og þurfi aðstoð við að tjá sig eiga bráðaliðar að tala beint við hann. Þannig geta þeir verið vissir að hann skilji hvað er að gerast.

Lögreglan bætir þjónustuna við fatlað fólk sem er beitt ofbeldi

Undanfarin ár hefur orðið mikil breyting á því hvernig lögreglan nálgast ofbeldismál. Núna fá þolendurnir athyglina en áður fyrr fengu gerendur meiri athygli.

Það eru ýmis verkefni í gangi hjá yfirvöldum til að berjast gegn ofbeldi. Eitt af því er að rannsaka ofbeldi gegn fötluðu fólki. Markmiðið er að vernda fatlað fólk betur fyrir ofbeldi og að gera þeim auðveldara að fá hjálp.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

María

María er fötluð kona sem þarf aðstoð við ýmsar athafnir í daglegu lífi. María býr í íbúðarkjarna þar sem henni líður oftast vel. Henni finnst samt stundum að sumir starfsmenn taki ekki tillit til hennar þarfa.

Hún átti erfiðan morgun og starfsmaðurinn sem var að hjálpa henni, Björn, var ekki sáttur við hvernig hún talaði til hans. Núna segir Björn ekkert þegar María talar við hann heldur hunsar hana. Þögnin er svo þrúgandi að hún þorir ekki að biðja um hádegismat þótt hún sé mjög svöng.

Er þetta ofbeldi?

Nauðung

Þegar sjálfsákvörðunarréttur einstaklings er skertur gegn vilja hans er það kallað nauðung.

Manneskja situr í hjólastól. Hún snýr frá okkur og horfir upp í vindinn. Mikið og liðað hár sveiflast í vindinum.

Vanræksla

Vanræksla er þegar einhver sinnir ekki þörfum hjálparvana einstaklings, til dæmis barni, fatlaðri manneskju eða eldri einstaklingi.

Merki fyrir fatlaða á vegg fyrir ofan skábraut.

Réttindagæslu­maður

Réttindagæslumaður hjálpar fötluðu fólki að ná fram rétti sínum.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Stígamót

Stígamót hjálpa öllum (konum, körlum og kynsegin fólki) sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð í Reykjavík veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Kvennaathvarf

Kvennaathvarfið býður upp á ráðgjöf og húsnæði fyrir allar konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi