Lagalegar afleiðingar
Ef þú beitir ofbeldi í sambandi getur það endað með því að lögreglan er kölluð til. Það sem fellur undir heimilisofbeldi hjá lögreglu eru meðal annars líkamsárásir, kynferðisbrot, hótanir, skemmdir á eignum, brot á barnaverndarlögum og fjársvik. Það skiptir engu máli hvar ofbeldið á sér stað heldur er það hvernig gerandi og þolandi tengist. Þess vegna er heimilisofbeldi einnig kallað ofbeldi í nánu sambandi.
Fyrstu afskipti yfirvalda
Lögreglan bankar upp á og kallar út rannsóknarlögreglumann sem heldur áfram rannsókninni. Ef þú eða maki þinn skilja ekki íslensku er túlkur kallaður til.
Barnavernd og félagsþjónusta
- Ef börn eru á heimilinu koma starfsmenn barnaverndar og félagsþjónustu á staðinn.
- Ef börn tengjast heimilisfólki kemur starfsmaður félagsþjónustunnar og tilkynning er send til barnaverndar.
- Ef engin börn eru skráð á heimilinu er boðið upp á að fá aðstoð félagsþjónustu.
Vettvangsrannsókn
Lögreglan annað hvort vísar þér af vettvangi eða handtekur þig. Ljósmyndir eru teknar af áverkum og skemmdum á eignum ef þau eru fyrir hendi. Talað er við þolanda og vitni. Lögreglan getur haldið áfram að rannsaka málið eða beðið um nálgunarbann á þig þrátt fyrir að þolandi dragi kæru til baka eða vilji ekki aðstoða.
Þú átt rétt á verjanda sem má vera viðstaddur skýrslutöku hjá lögreglu. Ef farið var fram á nálgunarbann eða brottvísun af heimili færðu upplýsingar um hvað það felur í sér. Í sumum tilvikum er gerð skrifleg yfirlýsing þar sem þú samþykkir sömu reglur og felast í nálgunarbanni eða brottvísun. Yfirlýsingin hefur ekki réttaráhrif en ef þú virðir ekki reglurnar gæti verið beðið um nálgunarbann gegn þér eða brottvísun af heimili.
Eftirfylgni
Lögreglan
Þú mátt búast við að lögreglan muni hringja í þig og hvetja þig til að leita þér aðstoðar hjá úrræðum eins og Heimilisfrið eða Taktu skrefið. Ef þú vilt leita þér aðstoðar hefurðu möguleika á að fá fjárhagsaðstoð.
Félagsþjónusta
Ef þörf þykir á mun félagsþjónustan koma í heimsókn í fylgd lögreglu til að kanna heimilisaðstæður og ástand fólks á heimilinu. Rætt er við þolanda og athugað hvort það séu nýir áverkar. Ef þú býrð enn á heimilinu er einnig rætt við þig. Ef þú fékkst nálgunarbann eða þér var vísað á brott er kannað hvort það hafi verið virt.
Barnavernd
Ef börn eru á heimilinu kemur barnavernd að málinu til að tryggja öryggi barna og veita þeim stuðning. Barnavernd ber að kanna aðstæður og líðan barna í heimilisofbeldismálum og er það meðal annars gert með því að ræða við alla fjölskyldumeðlimi. Barnavernd mun boða þig í viðtal þar sem farið verður yfir heimilisofbeldið og stöðu fjölskyldunnar til þess að meta viðbragðsaðgerðir og stuðningsúrræði.
Algengustu stuðningsúrræði barnaverndar í heimilisofbeldismálum eru:
- Stuðningur við geranda við að sækja sérhæfða sálfræðimeðferð þar sem unnið er með ofbeldishegðun, eins og hjá Heimilisfriði.
- Stuðningur við þolanda við að sækja sálfræðiviðtöl.
- Sálfræðiviðtöl fyrir börn þar sem þau fá fræðslu og stuðning vegna heimilisofbeldis.
- Fjölskyldu- eða paraviðtöl hjá fjölskyldufræðingi.
Málalok
Þegar lögregla fær mál til rannsóknar þá getur máli lokið á tvo vegu:
1. Mál fellt niður
Lögregla gæti hætt rannsókn ef ekki er grundvöllur til að halda henni áfram. Ef lögregla klárar rannsóknina og sendir málið áfram getur ákærandi fellt málið niður telji hann gögn ekki nægjanleg eða málið ólíklegt til sakfellingar.
2. Ákæra
Ef málið þitt er talið líklegt til sakfellingar þá er gefin út formleg ákæra. Þá ber þér skylda að koma fyrir héraðsdóm og svara þar til saka. Eftir málsmeðferð fyrir dómstólum fellur dómur málsins. Það getur þýtt sýkna eða sakfelling. Sakfelling fyrir heimilisofbeldi getur verið skilorðsbundinn eða óskilorðsbundinn dómur og bótagreiðsla.