Skýrslutaka í Barnahúsi

Þegar það þarf að fá vitnisburð barna yngri en 15 ára í heimilisofbeldismálum er tekin skýrsla af þeim í Barnahúsi.

Um Barnahús

Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir ofbeldi. Þegar það þarf að fá vitnisburð barna sem eru tengd heimilisofbeldismálum, hvort sem þau hafa orðið beint fyrir ofbeldinu eða eru tengd þolanda og geranda, er tekin skýrsla af þeim í Barnahúsi.

Barnahús lítur út eins og venjulegt hús og er bæði í Reykjavík og á Akureyri. 15 ára og eldri fara á lögreglustöð í skýrslutöku.

Eftir skýrslutökuna getur barnavernd óskað eftir greiningu og meðferð fyrir barnið. Það er líka í boði fyrir 15 til 18 ára ungmenni.

Undirbúningur fyrir skýrslutöku

Það er mikilvægt að kynna fyrir barninu hvert það sé að fara og hvað muni fara fram. Reyndu að forðast að yfirheyra barnið eða ræða ítarlega um málið áður en skýrslutakan fer fram svo það hafi ekki áhrif á framburð barnsins.

Gott að segja við barnið

  • Skýrslutaka er viðtal við sérfræðing sem vinnur við það að tala við börn og unglinga sem hafa orðið fyrir einhverju eða vilja segja frá einhverju sem hefur gerst.
  • Skýrslutakan fer fram í húsi sem er sérstaklega hannað fyrir börn og unglinga. Húsið er staðsett í íbúðarhverfi og lítur út eins og hvert annað heimili. Engar merkingar eru utan á húsinu sem gefa til kynna hvað þar fer fram.
  • Það er mikilvægt að tala bara um það sem er satt og rétt í viðtalinu.
  • Barnið og sérfræðingurinn eru tvö að ræða saman í sérútbúnu herbergi, svo barnið þarf ekki að tala við marga fullorðna í einu eða segja oft frá því sama.

Gott að hafa í huga

  • Mikilvægt er að barnið sé úthvílt og búið að borða.
  • Ef barnið tekur lyf þarf að taka tillit til þess varðandi tímasetningu viðtals.
  • Láttu vita ef tímasetningin skarist á við eitthvað sem barnið hefur ánægju af, til dæmis æfingar, afmæli eða skemmtidagskrá, til að athuga hvort hægt sé að breyta tímanum. Barn sem er að missa af einhverju skemmtilegu getur verið órólegt í viðtalinu og vill ljúka því af sem fyrst.

Skýrslutakan

Barnið getur farið í skýrslutöku í Reykjavík eða á Akureyri, eftir því hvort er nær heimili þess. Í viðtalinu eru bara barnið og sérfræðingur frá Barnahúsi.

Hvernig er spurt?

Spurningarnar í viðtalinu eru einfaldar og skýrar. Það er passað upp á að þær fái ekki börn til að hugsa um eitthvað sem gerðist ekki. Sérfræðingar Barnahúss hafa fengið þjálfun í viðurkenndri viðtalstækni til að nota í svona rannsóknarviðtölum.

Það er talað svipað við öll börn, en alltaf miðað við aldur. Til dæmis eru stundum notaðar teikningar fyrir yngri börn. Barnavernd lætur Barnahús vita ef barn er með einhverjar greiningar til að því líði sem best í viðtalinu.

Viðtalið er tekið upp

Barnið þarf ekki að mæta í dómsal og segja frá þar. Í staðinn er viðtalið tekið upp og síðan spilað í dómsalnum.

Hverjir fylgjast með?

Af því að viðtalið er tekið upp og notað sem vitnisburður barns þurfa ákveðnir aðilar að vera á staðnum líka. Þetta fólk er í öðru herbergi á meðan barnið er í viðtalinu og fylgist með.

Dómari

Dómari þarf að vera á staðnum. Hann getur beðið sérfræðing Barnahúss um að spyrja barnið að vissum spurningum í gegnum heyrnartól. Hann gerir það bara ef það er eitthvað meira sem hann vill vita um brotið.

Aðrir

Svo eru aðrir líka í sama herbergi og dómarinn en þau horfa bara á viðtalið.

Aðstandendur

Foreldrar og forsjáraðilar barnsins eru í biðherbergi á meðan barnið er í viðtalinu. Þau horfa ekki á það né hlusta.

Tímalengd

Það er mjög misjafnt hversu lengi börn eru í skýrslutöku. Viðtalið getur tekið 10 mínútur eða 2 klukkustundir. Stundum þarf 2 skýrslutökur.

Læknisskoðun

Barnavernd og lögregla geta óskað eftir læknisskoðun til að leita að vísbendingum um ofbeldi eða vanrækslu. Í Barnahúsi er mjög góð aðstaða til læknisskoðunar. Barnalæknir, hjúkrunarfræðingur eða kvensjúkdómalæknir sjá um skoðunina.

Læknisskoðun er einnig hægt að gera í meðferðartilgangi. Til dæmis upplifa stundum börn og unglingar sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi að eitthvað sé að líkama þeirra. Gott getur verið að heyra frá lækni að það sé allt í lagi með þau.

Læknisskoðunin er ekki réttarmeinafræðileg. Það þýðir að það er ekki leitað að sönnunargögnum til að nota fyrir dómi. Læknarnir hafa samt stundum sagt frá ákveðnum niðurstöðum úr skoðuninni fyrir dómi þegar það hefur þótt mikilvægt.

Meðferð

Eftir skýrslutökuna býður Barnahús upp á ýmsar meðferðir sem hafa verið þróaðar til að aðstoða börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi og fjölskyldur þeirra. Ungmenni sem fóru í skýrslutöku hjá lögreglu geta líka fengið meðferð hjá Barnahúsi upp að 18 ára aldri.

Í byrjun meðferðar er skoðað hver vandi barnsins er og aðstæður fjölskyldunnar. Fyrstu viðtöl eru greiningarviðtöl þar sem líðan barnsins er metin í tengslum við áfallið sem það varð fyrir.

Ef ekki er metin þörf á áfallameðferð er boðið upp á fræðsluviðtöl og ráðgjöf. Það gæti verið hjálplegt að fara samt með barnið til sálfræðings að ykkar vali.

Hvar er boðið upp á meðferð?

Meðferð fer fram í Barnahúsi í Reykjavík eða á Akureyri. Ef barnið býr á landsbyggðinni er hægt að fá sérfræðing frá Barnahúsi heim til þess til að taka viðtalið.

Þegar barn verður 15 ára

Ef barnið nær 15 ára aldri áður en málið fer fyrir dóm þarf það mögulega að mæta í dómsal og bera vitni. Ef það gerist fáið þið aðstoð frá réttargæslumanninum þínum og fulltrúa frá barnavernd.