Skýrslutakan
Barnið getur farið í skýrslutöku í Reykjavík eða á Akureyri, eftir því hvort er nær heimili þess. Í viðtalinu eru bara barnið og sérfræðingur frá Barnahúsi.
Hvernig er spurt?
Spurningarnar í viðtalinu eru einfaldar og skýrar. Það er passað upp á að þær fái ekki börn til að hugsa um eitthvað sem gerðist ekki. Sérfræðingar Barnahúss hafa fengið þjálfun í viðurkenndri viðtalstækni til að nota í svona rannsóknarviðtölum.
Það er talað svipað við öll börn, en alltaf miðað við aldur. Til dæmis eru stundum notaðar teikningar fyrir yngri börn. Barnavernd lætur Barnahús vita ef barn er með einhverjar greiningar til að því líði sem best í viðtalinu.
Viðtalið er tekið upp
Barnið þarf ekki að mæta í dómsal og segja frá þar. Í staðinn er viðtalið tekið upp og síðan spilað í dómsalnum.
Hverjir fylgjast með?
Af því að viðtalið er tekið upp og notað sem vitnisburður barns þurfa ákveðnir aðilar að vera á staðnum líka. Þetta fólk er í öðru herbergi á meðan barnið er í viðtalinu og fylgist með.
Dómari
Dómari þarf að vera á staðnum. Hann getur beðið sérfræðing Barnahúss um að spyrja barnið að vissum spurningum í gegnum heyrnartól. Hann gerir það bara ef það er eitthvað meira sem hann vill vita um brotið.
Aðrir
Svo eru aðrir líka í sama herbergi og dómarinn en þau horfa bara á viðtalið.
- Réttargæslumaðurinn þinn.
- Rannsakandi frá lögreglunni.
- Fulltrúi frá Barnavernd.
- Verjandi gerandans.
Aðstandendur
Foreldrar og forsjáraðilar barnsins eru í biðherbergi á meðan barnið er í viðtalinu. Þau horfa ekki á það né hlusta.