Nálgunarbann og brottvísun af heimili
Til að vernda þig gegn endurtekinni áreitni, hótunum og ofbeldi getur lögreglan vísað gerandanum af heimili ykkar eða bannað honum að nálgast þig.
Skriflegt samkomulag
Fyrst gerir lögreglan oftast skriflegt samkomulag við gerandann um að hann haldi sig frá þér. Þetta er gert þegar:
- gerandi hefur ekki sýnt fyrri sögu ofbeldis eða áreitni og talið er að hann muni hlýða fyrirmælum
- gerandi hefur ekki áður fengið á sig nálgunarbann eða brottvísun af heimili
Ef hann brýtur samkomulagið er mikilvægt að þú tilkynnir það til lögreglu svo að hún geti brugðist við og beitt strangari úrræðum. Það er gert þegar ekki þykir líklegt að vægari aðgerðir dugi til að vernda öryggi þitt.
Brottvísun af heimili
Einstaklingi er vísað af heimilinu og honum bannað að koma þangað aftur í ákveðinn tíma. Hámarkslengd brottvísunar er 4 vikur.
Félagsþjónustan í þínu sveitarfélagi fær upplýsingar um brottvísun svo hægt sé að veita aðstoð ef þörf er á. Ef barn er á heimilinu er barnavernd líka tilkynnt um brottvísunina.
Nálgunarbann
Einstaklingi er bannað að koma á tiltekin svæði, reyna að hafa samband við þig og veita þér eftirför. Hámarkslengd nálgunarbanns er 1 ár en er þó oftast styttri.
Refsing fyrir brot á nálgunarbanni eða brottvísun
Brot á nálgunarbanni getur leitt til sektar eða fangelsisvistar allt að einu ári. Ef brotin eru endurtekin eða stórfelld getur refsingin að hámarki verið tveggja ára fangelsi en oftast er dómurinn styttri og jafnvel skilorðsbundinn. Til að fangelsisrefsingu sé beitt þurfa brotin yfirleitt að vera ítrekuð og hægt að sanna þau.
Hver getur óskað eftir nálgunarbanni eða brottvísun?
- Þú, fjölskylda þín eða nákomnir aðilar.
- Félagsþjónusta eða barnavernd.
- Lögreglan getur einnig ákveðið að beita þessum úrræðum af eigin frumkvæði.
Hver tekur ákvörðun?
Lögreglustjóri ákveður hvort nálgunarbann eða brottvísun sé beitt. Hann tekur ákvörðun innan sólarhrings fyrir brottvísun og innan þriggja daga fyrir nálgunarbann.
- Nálgunarbann. Gerandi getur farið fram á að að dómstólar staðfesti ákvörðunina. Hann hefur 2 vikur til þess.
- Brottvísun. Lögreglustjóri þarf að fá dómstóla til að staðfesta ákvörðunina innan 3 daga.
Beiðni hafnað
Ef beiðninni er hafnað getur þú kært ákvörðunina til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því þér var tilkynnt um hana.