Öryggisráðstafanir

Lögreglan getur boðið upp á ýmis úrræði til að vernda þig. Það eru líka skref sem þú getur tekið til að auka öryggi þitt á heimilinu og netinu.

Nálgunarbann og brottvísun af heimili

Til að vernda þig gegn endurtekinni áreitni, hótunum og ofbeldi getur lögreglan vísað gerandanum af heimili ykkar eða bannað honum að nálgast þig.

Skriflegt samkomulag

Fyrst gerir lögreglan oftast skriflegt samkomulag við gerandann um að hann haldi sig frá þér. Þetta er gert þegar:

  • gerandi hefur ekki sýnt fyrri sögu ofbeldis eða áreitni og talið er að hann muni hlýða fyrirmælum
  • gerandi hefur ekki áður fengið á sig nálgunarbann eða brottvísun af heimili

Ef hann brýtur samkomulagið er mikilvægt að þú tilkynnir það til lögreglu svo að hún geti brugðist við og beitt strangari úrræðum. Það er gert þegar ekki þykir líklegt að vægari aðgerðir dugi til að vernda öryggi þitt.

Brottvísun af heimili

Einstaklingi er vísað af heimilinu og honum bannað að koma þangað aftur í ákveðinn tíma. Hámarkslengd brottvísunar er 4 vikur.

Félagsþjónustan í þínu sveitarfélagi fær upplýsingar um brottvísun svo hægt sé að veita aðstoð ef þörf er á. Ef barn er á heimilinu er barnavernd líka tilkynnt um brottvísunina.

Nálgunarbann

Einstaklingi er bannað að koma á tiltekin svæði, reyna að hafa samband við þig og veita þér eftirför. Hámarkslengd nálgunarbanns er 1 ár en er þó oftast styttri.

Refsing fyrir brot á nálgunarbanni eða brottvísun

Brot á nálgunarbanni getur leitt til sektar eða fangelsisvistar allt að einu ári. Ef brotin eru endurtekin eða stórfelld getur refsingin að hámarki verið tveggja ára fangelsi en oftast er dómurinn styttri og jafnvel skilorðsbundinn. Til að fangelsisrefsingu sé beitt þurfa brotin yfirleitt að vera ítrekuð og hægt að sanna þau.

Hver getur óskað eftir nálgunarbanni eða brottvísun?

  • Þú, fjölskylda þín eða nákomnir aðilar.
  • Félagsþjónusta eða barnavernd.
  • Lögreglan getur einnig ákveðið að beita þessum úrræðum af eigin frumkvæði.

Hver tekur ákvörðun?

Lögreglustjóri ákveður hvort nálgunarbann eða brottvísun sé beitt. Hann tekur ákvörðun innan sólarhrings fyrir brottvísun og innan þriggja daga fyrir nálgunarbann.

  • Nálgunarbann. Gerandi getur farið fram á að að dómstólar staðfesti ákvörðunina. Hann hefur 2 vikur til þess.
  • Brottvísun. Lögreglustjóri þarf að fá dómstóla til að staðfesta ákvörðunina innan 3 daga.

Beiðni hafnað

Ef beiðninni er hafnað getur þú kært ákvörðunina til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því þér var tilkynnt um hana.

Sjá lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Fleiri öryggisúrræði

Ef þú telur þig vera í hættu vegna heimilisofbeldis eða umsáturseineltis getur þú talað við lögreglu til að gera öryggisráðstafanir. Þessi úrræði kosta ekki neitt og geta verið notuð samhliða nálgunarbanni.

Vöktun á símanúmeri

Með krækju í síma er símanúmer og heimilisfang þitt merkt þegar þú hringir í 112 og lögreglan í þínu umdæmi fær símtalið beint. Úrræðið er eingöngu ætlað þér þannig að gerandinn veit ekki af því.

Þetta þýðir að:

  • Lögreglan sér strax að um hættu er að ræða og sendir lögreglubíl á heimili þitt tafarlaust.
  • Þú þarf ekki að gefa neinar upplýsingar í símann, heldur nægir að hringja.

Þetta er oft notað samhliða nálgunarbanni eða sem stuðningur þegar um er að ræða umsáturseinelti eða heimilisofbeldi.

Neyðarhnappur

Með neyðarhnappi getur þú kallað á aðstoð með einfaldri aðgerð. Þegar þú virkjar hnappinn:

  • Fer boð til öryggisfyrirtækis sem lögreglan er í samstarfi við.
  • Öryggisfyrirtækið lætur Neyðarlínuna og Fjarskiptamiðstöð lögreglu vita og lögregla er send á staðinn eins fljótt og hægt er.
  • Þú getur talað beint við viðbragðsaðila í gegnum hnappinn og óskað eftir aðstoð.

Ráð til að auka öryggi þitt

Öryggisáætlun

Öryggisáætlun er leið til að vernda öryggi þitt og barnanna þinna, hvort sem þú ert í sambandinu eða hefur ákveðið að fara.

Tryggðu öryggi þitt á netinu

Passaðu upp á öryggi þitt með því að tryggja að tækin þín séu ekki viljandi eða óviljandi að deila persónulegum upplýsingum sem þú vilt ekki að fari lengra.

Þolendamiðstöðvar

Enginn hefur rétt á því að ógna þér og stjórna með óvelkominni athygli eða áreitni. Þú getur leitað þér hjálpar hjá þolendamiðstöðvum.
Manneskja sem situr inni í búri, eltihrellir

Umsáturseinelti

Ef einhver situr um þig endurtekið, eltir þig, hótar eða fylgist með þér er sá eltihrellir (e. stalker) og kallast þessi hegðun umsáturseinelti.