Málið rannsakað

Þegar lögregla er komin með vitneskju um að brot hafi verið framið hefst rannsókn á því.

Hendur halda á tveimur stórum pússluspilum og eru að setja þau saman.

Hvernig fer rannsóknin fram?

Í lögreglurannsókn er gagna aflað svo hægt sé að fara með málið fyrir héraðsdóm. Á meðan á rannsókn stendur fylgir lögreglan málinu eftir, annað hvort með símtali eða heimsókn. Því opnari sem þú ert við lögregluna, því auðveldara er að rannsaka málið.

Staðsetning brots

Lögreglan á því svæði (líka kallað umdæmi) þar sem brotið átti sér stað rannsakar málið.

  • Þegar lögregla er kölluð á vettvang og metur að um heimilisofbeldi sé að ræða hefst rannsókn strax.
  • Ef brotið gerðist erlendis er það vanalega lögreglan í því umdæmi sem þú átt lögheimili í sem rannsakar málið.

Brotið flokkað

Fyrst er brotið fært undir viðeigandi lagaákvæði. Flokkar brota eru skilgreindir í lögum og réttargæslumaðurinn þinn getur frætt þig um þau ákvæði sem koma til greina. Dæmi um brotaflokka eru: Brot gegn valdstjórninni, líkamsmeiðingar, brot gegn frjálsræði og brot umsjáraðila gagnvart barni.

Flokkunin byggir á lýsingunni þinni á brotinu í skýrslutökunni og gögnum sem er aflað. Lögreglan reynir að láta brotið passa við rétt ákvæði laganna. Það gæti komið á óvart hvernig brotið er flokkað. Það hvernig fólk talar um brot í daglegu tali og hvernig lögin skilgreina brot er oft ólíkt.

Söfnun gagna

Lögreglan hefur það hlutverk að leiða sannleikann í ljós og skrásetja sönnunargögn. Til dæmis:

  • Ljósmyndir teknar af vettvangi og áverkum þolanda og geranda.
  • Notast við upptökur af búkmyndavélum lögreglu á vettvangi.
  • Tekin skýrsla af geranda.
  • Tekin skýrsla af vitnum og nákomnum.
  • Vitnisburður þinn borinn saman við framburð geranda og vitna.

Gögnum er safnað, til dæmis:

  • Símagögn eða símar eru afritaðir, með þinni heimild.
  • Samskipti á samfélagsmiðlum, með þinni heimild.
  • Vottorðum frá læknum, sálfræðingum og slíkum fagaðilum, með þinni heimild.

Aftur í skýrslutöku

Lögreglan gæti kallað þig inn aftur í skýrslutöku til að varpa ljósi á eitthvað sem komið hefur upp í rannsókninni eða beðið þig um frekari gögn. Þá hefur lögreglan samband við þinn réttargæslumann.

Að rannsókn lokinni

Fullrannsakað mál

Lögreglan rannsakar öll brot á sama hátt, hvort sem það sé líklegt að gerandinn verði dæmdur eða ekki. Þegar rannsókn er lokið er málið sent til ákæruvalds. Það er þó ekki víst að ákæra verði gefin út í málinu, fyrir því geta verið nokkrar ástæður sem er fjallað um í næsta skrefi.

Rannsókn hætt hjá lögreglu

Lögregla getur hætt rannsókn ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram. Ákvörðun um að hætta rannsókn er tekin af löglærðum fulltrúa á ákærusviði lögreglu. Þetta er gert þegar ekki eru talin vera næg gögn til að fara lengra með málið og að frekari rannsókn verði ekki til þess að upplýsa málið frekar. Málið telst þá fullrannsakað.

Þetta þýðir ekki að reynsla þín sé ekki sönn eða að ofbeldið hafi ekki átt sér stað. Þú getur kært þessa ákvörðun til ríkissaksóknara. Réttargæslumaðurinn þinn aðstoðar þig við það ferli.

Beiðni um að rannsókn verði hafin á ný

Það er erfitt að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið þegar mál er fullrannsakað. Ný gögn þurfa að koma fram sem voru ekki til staðar þegar rannsóknin hætti. Þú getur beðið um að rannsóknin verði tekin upp aftur en lögregla metur út frá gögnunum hvort það sé hægt.

Rannsókn hætt að ósk þolanda

Þú getur beðið um að rannsókninni sé hætt. Þá þarftu að fara til lögreglunnar með réttargæslumanni og útskýra ástæðuna. Lögreglan getur samt ákveðið að halda rannsókninni áfram ef hún telur ástæðu til. Ef rannsókn er stöðvuð er hægt að halda henni áfram síðar ef ný gögn koma fram.

Aðgangur að gögnum

Á meðan málið er í rannsókn átt þú rétt á að fá upplýsingar um stöðu þess og aðgang að gögnum, svo lengi sem það skaðar ekki rannsóknina. Réttargæslumaðurinn þinn óskar eftir þessum upplýsingum fyrir þína hönd. Gerandi á líka sama rétt og verjandi hans gerir það fyrir hans hönd.

Þegar rannsókn lýkur geturðu líka fengið aðgang að gögnum málsins, nema sérstök sjónarmið til verndar annarra í málinu mæli gegn því. Sama gildir um gerandann.

Það er ekki hægt að sjá gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum annarra nema viðkomandi sýni fram á að hafa lögvarinna hagsmuna að gæta. Ef þér er synjað um aðgang geturðu kært ákvörðunina til ríkissaksóknara innan 14 daga.

Aðgangur annarra

Lögregla, ákæruvald, dómstólar og fangelsisyfirvöld hafa aðgang að gögnum málsins til notkunar í starfi sínu.

Upplýsingagjöf

Tilkynningar um stöðu málsins, eins og hvort málið hafi verið sent áfram, sent aftur til rannsóknar eða rannsókn hafi verið felld niður, berst þér og réttargæslumanninum þínum með bréfi á Ísland.is.

Tímalengd

Rannsóknin og ákvörðun um ákæru getur tekið 2–4 mánuði. Oft eru málin flókin, það þarf að ræða við mörg vitni og afla gagna. Lengd rannsóknar getur verið mjög mismunandi en það segir ekkert til um gæði hennar heldur fremur um hversu flókið málið er.

Að bíða eftir að rannsókn ljúki getur verið erfiður tími fyrir marga þolendur. Það er mælt með því að reyna að byggja sig upp eftir áfallið óháð framgangi rannsóknar málsins.

Gott að hafa í huga

  • Á leið þinni í gegnum réttarkerfið nýtur þú aðstoðar réttargæslumanns.
  • Fatlað fólk á rétt á að fá aðstoð hjá réttindagæslu fatlaðs fólks.
  • Lögreglan tekur viðtal við þig sem er kallað skýrslutaka. Ef lögreglan kemur á vettvang er þetta gert strax á staðnum. Stundum þarf að mæta oftar en einu sinni í skýrslutöku. Þá rifjar þú upp brotið og atburði tengdu því.
  • Rannsókn getur verið hætt eða málið þitt fellt niður. Það þýðir ekki að verið sé að gera lítið úr þinni upplifun eða þér sé ekki trúað. Það þýðir bara að ekki eru nægar upplýsingar til að taka málið áfram.
  • Þú mátt gera ráð fyrir því að það taki um eitt ár frá því að brot er kært og þar til réttað er í málinu í héraðsdómi, jafnvel lengur. Þegar meðferð er lokið í héraðsdómi gæti verið að gerandi áfrýjar til Landsréttar þannig að afgreiðsla málsins lengist þá enn frekar.
  • Þú þarft að bera vitni í héraðsdómi og segja aftur frá reynslu þinni fyrir framan aðra, jafnvel gerandann.

Hlutlaust kerfi

Hlutverk réttarkerfisins (lögreglu, ákæruvalds og dómstóla) er að rannsaka mál, meðal annars með því að safna gögnum, meta þau og dæma út frá þeim á hlutlausan hátt. Ferlið getur því virkað ópersónulegt – en þannig lýsa þolendur stundum upplifun sinni af málsmeðferð í réttarkerfinu.