Hvernig fer rannsóknin fram?
Í lögreglurannsókn er gagna aflað svo hægt sé að fara með málið fyrir héraðsdóm. Á meðan á rannsókn stendur fylgir lögreglan málinu eftir, annað hvort með símtali eða heimsókn. Því opnari sem þú ert við lögregluna, því auðveldara er að rannsaka málið.
Staðsetning brots
Lögreglan á því svæði (líka kallað umdæmi) þar sem brotið átti sér stað rannsakar málið.
- Þegar lögregla er kölluð á vettvang og metur að um heimilisofbeldi sé að ræða hefst rannsókn strax.
- Ef brotið gerðist erlendis er það vanalega lögreglan í því umdæmi sem þú átt lögheimili í sem rannsakar málið.
Brotið flokkað
Fyrst er brotið fært undir viðeigandi lagaákvæði. Flokkar brota eru skilgreindir í lögum og réttargæslumaðurinn þinn getur frætt þig um þau ákvæði sem koma til greina. Dæmi um brotaflokka eru: Brot gegn valdstjórninni, líkamsmeiðingar, brot gegn frjálsræði og brot umsjáraðila gagnvart barni.
Flokkunin byggir á lýsingunni þinni á brotinu í skýrslutökunni og gögnum sem er aflað. Lögreglan reynir að láta brotið passa við rétt ákvæði laganna. Það gæti komið á óvart hvernig brotið er flokkað. Það hvernig fólk talar um brot í daglegu tali og hvernig lögin skilgreina brot er oft ólíkt.
Söfnun gagna
Lögreglan hefur það hlutverk að leiða sannleikann í ljós og skrásetja sönnunargögn. Til dæmis:
- Ljósmyndir teknar af vettvangi og áverkum þolanda og geranda.
- Notast við upptökur af búkmyndavélum lögreglu á vettvangi.
- Tekin skýrsla af geranda.
- Tekin skýrsla af vitnum og nákomnum.
- Vitnisburður þinn borinn saman við framburð geranda og vitna.
Gögnum er safnað, til dæmis:
- Símagögn eða símar eru afritaðir, með þinni heimild.
- Samskipti á samfélagsmiðlum, með þinni heimild.
- Vottorðum frá læknum, sálfræðingum og slíkum fagaðilum, með þinni heimild.
Aftur í skýrslutöku
Lögreglan gæti kallað þig inn aftur í skýrslutöku til að varpa ljósi á eitthvað sem komið hefur upp í rannsókninni eða beðið þig um frekari gögn. Þá hefur lögreglan samband við þinn réttargæslumann.