Heiður notaður sem ofbeldi
Heiðursofbeldi er oft dulið, því sá sem beitir ofbeldinu er yfirleitt náinn ættingi sem telur að þolandinn muni eða hafi vegið að heiðri sínum eða fjölskyldunnar.
Ungar konur eða hinsegin fólk eiga helst á hættu að verða fyrir heiðursofbeldi. Þetta gerist oft þegar sterkt ósamræmi verður milli samfélagsins sem þau búa í og menningarheims fjölskyldu þeirra. Þá er orðspor og heiður fjölskyldu er settur ofar velferð og sjálfsákvörðunarrétti þeirra. Það er mannréttindabrot þegar heiður fjölskyldu er settur hærra en frelsi einstaklingsins.
Heiðursofbeldi er til dæmis þegar:
- Þér er meinað að velja þér kærasta eða maka.
- Fjölskyldan lætur þér líða illa þegar þú aðlagast nýrri menningu „um of“.
- Fjölskyldan stýrir hvern þú mátt umgangast.
- Fjölskyldumeðlimur skoðar símann þinn eða tölvupóst til að sjá við hvern þú ert í samskiptum við.
- Þú þarft að koma beint heim úr skólanum og mátt ekki taka þátt í íþróttum eða félagsstarfi.
- Þér er bannað að velja þér vini og þú mátt bara eiga vini af sama uppruna.
- Þú mátt ekki ráðstafa eigin peningum.
- Fjölskyldan þín lætur eins og þú hafir smánað þau ef þú ferð ekki nákvæmlega eftir þeirra reglum.
- Fjölskyldumeðlimur neyðir þig til að giftast einstaklingi gegn þínum vilja.
- Þér er hótað ofbeldi ef þú slítur ekki sambandi við vini þína eða maka sem eru þeim ekki þóknanleg.
- Fjölskyldan talar illa um aðra menningarheima en ykkar til að stjórna þér.
- Þér er meinað að koma til baka til Íslands eftir sumarfrí.
Fáðu hjálp
Það getur verið erfitt að átta sig á þessum aðstæðum og stíga út. Það getur þýtt að yfirgefa fjölskyldu sína, sem er oft það eina sem maður á í nýju landi en það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður.
Þú getur haft samband við miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis sem sérhæfa sig í stuðningi við ofbeldi (18 ára og eldri). Ráðgjöfin er ókeypis og engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.
Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.