Hvað er trúarofbeldi?
Ef þú verður fyrir ofbeldi í nafni trúar er það kallað trúarofbeldi. Oft er heilaþvotti og hræðsluáróðri beitt til að halda þér í þeim hugsunarhætti sem kenningar hópsins boða.
Trúarofbeldi er oft hegðunarmynstur sem endurtekur sig. Oft er andlegu ofbeldi beitt á sama tíma, stundum jafnvel líkamlegu ofbeldi eða kynferðisofbeldi.
Dæmi um trúarofbeldi er ef einhver:
- Nýtir andlega valdastöðu sína til að stjórna þér, kúga þig eða þvinga.
- Þrýstir á þig til að fylgja reglum hópsins þannig að þú sem einstaklingur hefur takmarkaða getu til að mótmæla.
- Notar trúarlega eða andlega vinnu til að afsaka ofbeldi eða kenna þér um ofbeldi.
- Neyðir þig að ala upp börnin þín samkvæmt trú sem þú ert ekki sammála.
- Neyðir þig að taka þátt í trúarlegum eða andlegum athöfnum sem þú vilt ekki taka þátt í.
- Niðurlægir þig eða lokar á þig fyrir að trúa ekki því sama og viðkomandi.
- Bannar þér að iðka þína trú eða andlega vinnu.
- Bannar þér eða börnunum þínum að fá læknisþjónustu í nafni trúar.
Að eiga sér trú getur uppfyllt ákveðna þörf fyrir tilgang, öryggi og samfélag við aðra. Því getur það verið mikið áfall þegar trú er beitt sem ofbeldistóli, til dæmis ef þér er útskúfað eða ættingjum þínum bannað að tala við þig. Ofbeldið getur valdið því að þú aftengist sjálfum þér, öðru fólki og umheiminum. Fólk sem hættir í söfnuðum eða andlegum hópum upplifir oft depurð, kvíða og áfallastreitu eftir dvölina. Því er mikilvægt að fá hjálp.
Hver beitir trúarofbeldi?
Trúarofbeldi getur átt sér stað í trúarsöfnuðum eða í andlegri vinnu. Ofbeldið getur einnig átt sér stað í hvaða sambandi sem er. Þau sem beita trúarofbeldi gætu verið:
- Andlegur eða trúarlegur leiðtogi.
- Trúarsystkini.
- Maki eða fyrrverandi maki.
- Foreldri eða annar fjölskyldumeðlimur.
- Uppkomið barn.
- Aðrir sem þú býrð með eða ert í miklum samskiptum við.
Ekkert af þessu fólki hefur rétt á því að stöðva þig í að fylgja þinni trú eða neyða þig til að fylgja þeirra trú.
Fáðu hjálp
Það getur verið erfitt að átta sig á þessum aðstæðum og stíga út. Það getur þýtt að yfirgefa fjölskyldu sína eða einu vini. Miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis sérhæfa sig í aðstoð við hvers kyns ofbeldi, ráðgjöfin er ókeypis.
Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.