Hvernig á að kæra?
Það eru fleiri en ein leið til að kæra kynferðisbrot. Aðstæður þolenda eru mismunandi og mislangt er síðan brotið var framið.
Þegar brotið er nýafstaðið
Þú getur:
- Hringt í 112.
- Farið á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í Reykjavík eða á Akureyri.
- Mætt beint á lögreglustöð. Á lögreglustöðinni aðstoða lögregluþjónar þig við að kæra brotið. Yfirleitt er það lögregluþjónn á vakt á hverjum stað sem tekur á móti þér. Þér er vísað inn í herbergi á lögreglustöðinni þar sem tekið er upp viðtal við þig.
Að panta tíma í kærumóttöku
Ef aðeins lengra er liðið frá brotinu getur þú pantað tíma í kærumóttöku í gegnum vefsíðu lögreglunnar. Þú þarft að auðkenna þig með rafrænum skilríkjum, síðan fyllir þú út eyðublaðið rafrænt og sendir: Ósk um tíma í kærumóttöku.
Lesa meira um kærumóttöku á vef lögreglunnar.
Sérstök kærumóttaka á höfuðborgarsvæðinu
Á lögreglustöðinni við Hlemm í Reykjavík er sérstök kærumóttaka vegna kynferðisbrota. Þú getur kært brotið þar, sama hvar brotið átti sér stað. Þegar þú mætir ferð þú inn um vestur-inngang lögreglustöðvarinnar (inngangurinn til vinstri ef þú stendur fyrir framan stöðina).
Mælt er með að þú bókir tíma í kærumóttökuna þar svo að hægt sé að ganga úr skugga um að þú komist að.
Að kæra á neyðarmóttökunni
Á neyðarmóttökum vegna kynferðisofbeldis er boðin aðstoð við að leggja fram kæru. Þar er miðað við að brotið hafi átt sér stað innan þriggja vikna. Ef lengra er liðið frá brotinu þarftu leita til þolendamiðstöðvar eða kæra málið hjá lögreglu.
Að kæra á þolendamiðstöð
Ef þú leitar til þolendamiðstöðvar er hægt að kalla til lögregluþjón sem tekur á móti kærunni og kemur í farveg.
Þú getur kært á hvaða lögreglustöð sem er
Þú þarft ekki að kæra brotið þar sem það átti sér stað, heldur getur þú kært brotið til lögreglu hvar sem er á landinu. Meðferð kynferðisbrota er einnig sú sama hvar sem er á landinu. Lögregluumdæmin eru alls níu á landinu.