
Lögreglan
Lögreglan hjálpar fólki sem verður fyrir ofbeldi. Ofbeldi í nánum samböndum er litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni.

Ofbeldismál í forgangi
Þú getur talað við lögregluna ef einhver hefur ráðist á þig, meitt þig eða gert eitthvað við þig sem þú vildir ekki. Ofbeldi í nánum samböndum er í forgangi hjá lögreglu. Hægt er að hringja eða senda sms í 112, nota netspjall 112 eða fara á næstu lögreglustöð.
Það er einnig hægt að tala við lögregluþjón í Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Bjarmahlíð á Akureyri. Það getur oft verið þægilegra. Þar er engin pressa á ákæru. Allt er tekið á þínum forsendum.
Símanúmer
Neyðarverðir koma þér í samband við lögreglu ef þig vantar aðstoð vegna ofbeldis.



Ættirðu að kæra eða ekki?
Þetta er stór spurning sem aðeins þú getur svarað. Það er mikilvægt að gerandinn beri ábyrgð á broti sínu. Það tekur þó tíma og krefst vinnu að sjá til þess að réttvísin nái fram að ganga.

Kynferðisofbeldi
Ef einhver þvingar þig til að gera eitthvað kynferðislegt er það kynferðisofbeldi. Það getur til dæmis verið kynmök, innsetning eða snerting á líkamshluta.