Þessi leiðarvísir er fyrir einstaklinga eldri en 18 ára.

Bataferlið

Andleg og líkamleg heilsa

Það er mjög mikilvægt að vinna úr áfallinu sem þú hefur orðið fyrir. Andleg og líkamlega heilsa þín á alltaf að vera í fyrsta sæti. Það er gott að byrja bataferlið sem fyrst. Þegar þolendur kæra hefur það reynst mörgum þeirra vel að skilja í sundur gang málsins í réttarvörslukerfinu og bataferlið.

Að láta gerandann taka ábyrgð

Eina leiðin

Að kæra brotið og láta málið fara gegnum réttarvörslukerfið er eina leiðin fyrir þig til að láta gerandann taka ábyrgð. En þó þú kærir er ekki víst að málið fari fyrir dóm. Það er ekki hægt að ábyrgjast að gerandinn verði dæmdur sekur. Rannsókn og málsmeðferð taka tíma og vegferðin getur verið erfið.

Refsing

Gerandinn er mögulega sakfelldur fyrir kynferðisbrot og þá fer dómurinn varanlega á sakaskrána hans. Hann þarf yfirleitt líka að greiða bætur og sakarkostnað.

Fyrir gerendur er refsingin að hljóta þennan dóm. Markmiðið með afplánun, til dæmis fangelsisvist, er svo að koma í veg fyrir að þeir brjóti aftur af sér.

Er hægt að kæra brot sem gerðist fyrir löngu síðan?

Já, þú getur kært síðar. Það er samt mikilvægt að hafa í huga að því lengra sem liðið er frá brotinu því erfiðara getur reynst að nálgast mikilvæg gögn í málinu.

Hlutlaus ráðgjöf hjá lögreglu

Ef þú vilt vita meira um kæruferlið má alltaf leita til lögreglunnar til að fá ráðgjöf.

  • Þú þarft ekki að nefna ákveðið brot.
  • Það er sama hvort brot hafi verið kært eða ekki.
  • Það skiptir heldur ekki máli hvort það standi til að kæra brotið eða ekki.
  • Lögreglan veitir líka ráðgjöf um ákveðið brot sem þú hefur orðið fyrir eða einhver sem þú þekkir.

112 gefur þér samband við lögregluna eða þú getur haft beint samband við ákveðið umdæmi. Þú getur líka fengið að tala við lögregluþjón á miðstöðvum fyrir þolendum ofbeldis.

Hlutlaust kerfi

Hlutverk réttarvörslukerfisins, lögreglu og dómstóla, er að safna gögnum, meta þau og dæma út frá þeim á hlutlausan hátt. Ferlið getur því virkað ópersónulegt - en það er orð sem þolendur nota stundum til að lýsa upplifun sinni af málsmeðferð í réttarvörslukerfinu.

Það líða rúmlega tvö ár frá því brotið er kært og þangað til málið fer fyrir dóm. Á þeim tíma er mikilvægt fyrir þig að hugsa um þinn bata.

Fleiri góð ráð?

Skoða

Gott að hafa í huga:

  • Á leið þinni í gegnum réttarvörslukerfið nýtur þú aðstoðar réttargæslumanns. Réttargæslumaður er lögmaður og þjónusta hans er greidd af ríkinu.
  • Þú mátt gera ráð fyrir því að það taki um tvö ár frá því að brot er kært og þar til réttað er í málinu í héraðsdómi, jafnvel lengur. Þegar meðferð er lokið í héraðsdómi gæti verið áfrýjað þannig að afgreiðsla málsins lengist þá enn frekar.
  • Þú þarft að mæta í viðtal hjá lögreglunni sem er kallað skýrslutaka. Þá rifjar þú upp brotið og atburði því tengdu. Stundum þarf að mæta oftar en einu sinni í skýrslutöku.
  • Þú þarft að bera vitni í héraðsdómi og segja aftur frá reynslu þinni fyrir framan aðra, jafnvel gerandann.
  • Rannsókn getur verið hætt eða málið þitt fellt niður. Það þýðir ekki að verið sé að gera lítið úr þinni upplifun eða þér sé ekki trúað. Það þýðir bara að ekki eru nægar upplýsingar sem hægt er að sanna til að taka málið áfram.
  • Á meðan málið er í rannsókn átt þú rétt á að fá upplýsingar um stöðu þess og aðgang að gögnunum. Það skilyrði er þó sett að það skaði ekki rannsókn málsins. Gerandinn hefur sama rétt.

Réttargæslumaður

Réttargæslumaður er lögmaður sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna þinna og veita þér aðstoð í málinu. Þú þarft ekki að borga fyrir þjónustu réttargæslumannsins heldur greiðir ríkið kostnaðinn.

Réttargæslumaður á að útskýra málsmeðferðina fyrir þér og getur aflað upplýsinga um stöðu og meðferð málsins hjá lögreglu og héraðssaksóknara.

Þú færð aðstoð við að velja réttargæslumann snemma í ferlinu, í gegnum lögregluna, þolendamiðstöðvar eða neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota.

Þú hefur fullan rétt á að skipta um réttargæslumann hvenær sem er í ferlinu.

Þolendamiðstöðvar

Þolendamiðstöðvar veita ráðgjöf og upplýsingar um bæði bataferlið og réttargæslukerfið. Þar eru starfandi ráðgjafar og sálfræðingar og hægt að fá að tala við lögregluþjón og lögfræðing á staðnum.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð í Reykjavík veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Sigurhæðir á Selfossi

Sigurhæðir eru þjónusta á Suðurlandi fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Þar færðu ókeypis ráðgjöf, stuðning og meðferð á þínum forsendum.

Myndin sýnir bjarta setustofu þar sem er blár sófi hægra megin upp við vegg.  Sófinn er með tveimur gulum púðum fyrir framan lágt viðar sófaborð. Hinu megin við borðið eru tveir hvítir stólar, yfir annan þeirra hefur verið lagt samanbrotið teppi.  Fyrir aftan stólana má sjá bókahillu með ýmsum munum í. Á veggnum gagnstætt hurðinni er hægra megin gluggi með bláum gluggatjöldum. Vinstra megin eru hvítir upphengdir eldhússkápar.

Suðurhlíð

Suðurhlíð er miðstöð í Reykjanesbæ fyrir þolendur ofbeldis og býður upp á ráðgjöf og upplýsingar fyrir fólk sem hefur verið beitt ofbeldi.