Þegar skýrslutakan er búin
Aðstoð sálfræðings fyrir þolendur
Ef þú vilt getur þú fengið sálfræðiþjónustu. Sálfræðingur sem Áfallateymi Landspítalans útvegar hringir þá í þig. Sálfræðingurinn hefur sérhæft sig í úrvinnslu kynferðisofbeldis. Þú þarft ekki að borga fyrir viðtöl hjá sálfræðingi Áfallateymis.
Símtal
Lögreglan sendir tilvísun til Landspítalans eftir skýrslutökuna. Áður en vika er liðin frá skýrslutökunni færð þú símtal frá sálfræðingnum. Sálfræðingurinn spyr þig um hvernig þér gangi að takast á við atburðinn og afleiðingar hans. Svo býður hann þér að koma í viðtal ef þú vilt.
Viðtal
Í fyrsta viðtalinu veitir sálfræðingurinn fræðslu um eðlileg viðbrögð við áföllum. Þið ræðið hjálplegar leiðir til að takast á við afleiðingar áfallsins sem þú hefur orðið fyrir. Til þess að geta metið líðan þína enn betur biður sálfræðingurinn þig um að fylla út spurningalista.
Hversu löng er meðferðin?
Að vinna úr afleiðingum kynferðisofbeldis tekur mislangan tíma. Fyrir suma er nóg að fá fræðslu og sálrænan stuðning fyrst eftir atburðinn. Aðrir þurfa formlega meðferð við afleiðingum ofbeldisins sem tekur þá lengri tíma. Þjónustan er ávallt miðuð að þörfum hvers og eins. Vinsamlega athugið að hjá Áfallateyminu er bara unnið með ofbeldið en ekki annan vanda sem þú ert að takast á við.
Þagnarskylda
Samkvæmt lögum og siðareglum eru sálfræðingar bundnir trúnaði og þagnarskyldu. Það þýðir að hann má ekki veita öðrum aðila upplýsingar um þig nema með skriflegu leyfi þínu.
Ef þú afþakkaðir en vilt núna þiggja þjónustu
Hafir þú afþakkað tilvísun til Áfallateymis að skýrslutöku lokinni en snýst svo hugur á næstunni er þér velkomið að hafa samband í netfangið neydarmottaka@landspitali.is og óska eftir þjónustu.
Aðstoð sálfræðings fyrir gerendur
Þeir sem hafa verið sakaðir um að hafa framið kynferðisbrot og verið kallaðir í skýrslutöku hjá lögreglu geta líka fengið aðstoð. Það eru sálfræðingar hjá Taktu skrefið sem sjá um þá aðstoð. Það þarf ekki að greiða fyrir fyrsta viðtal. Ef þörf er á fleiri viðtölum kostar hvert þeirra 3.000 kr.
Ef þú afþakkaðir en vilt núna þiggja þjónustu
Ef tilvísun til Taktu skrefið var afþökkuð eftir skýrslutökuna er samt velkomið að hafa samband með tölvupósti á taktuskrefid@taktuskrefid.is og óska eftir þjónustu.
Þagnarskylda
Samkvæmt lögum og siðareglum eru sálfræðingar bundnir trúnaði og þagnarskyldu.
Aftur í skýrslutöku
Á meðan á rannsókn stendur gæti lögregla kallað þig inn í aðra skýrslutöku til að varpa ljósi á eitthvað sem komið hefur upp í rannsókninni eða biðja þig um einhver gögn. Þá hefur lögreglan samband við þinn réttargæslumann sem aðstoðar þig að svara.
Nokkurra mánaða bið
Nú rannsakar lögreglan málið. Rannsókn lögreglu getur tekið um hálft ár. Það er lítið sem þú getur gert annað en að huga vel að þinni uppbyggingu eftir áfallið.