Af hverju að kæra?
- Að fara með mál í gegnum lögregluna og dómstóla er eina leiðin til að ná fram réttlæti og láta gerandann bera ábyrgð. Saman mynda lögreglan og dómstólar réttarkerfið.
- Það á að kæra kynferðisbrot eins og öll önnur brot. Það er búið að brjóta á réttindum þínum og það má aldrei.
- Kæra getur komið í veg fyrir að gerandinn beiti aðra ofbeldi.
- Einstaklingurinn sem braut á þér þarf að vita að þetta var ekki í lagi.
Ég veit ekki hvað er best að gera
Það getur virkað ógnvænlegt að kæra geranda.
- Kannski er þetta einhver sem er eldri en þú.
- Kannski er þetta einhver í fjölskyldunni.
- Kannski er þetta einhver sem þú ert skotin/nn/ð í.
- Kannski er þetta einhver sem er að kenna þér eða þjálfa þig og þú vilt ekki hleypa öllu í uppnám.
- Kannski ertu ekki viss hvort brotið hafi verið nógu alvarlegt.
Þetta eru allt skiljanlegar hugsanir. En það er sama hver braut á þér, þetta var ekki þér að kenna og þú þarft ekki að skammast þín fyrir neitt. Það má enginn brjóta á þér.
Fáðu ráð
Talaðu við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Sá einstaklingur getur aðstoðað við að hringja í 112 til að fá hjálp og leiðbeiningar. Þú getur líka talað við barnavernd.