Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir 15-17 ára þolendur kynferðisbrota.
- Ég hef orðið fyrir kynferðisofbeldi
- Af hverju að kæra?
Af hverju að kæra?
Að kæra er eina leiðin til að láta gerandann bera ábyrgð á því sem hann gerði.
Staðreynd: Sá sem braut á þér veit ekki strax að lögreglunni hefur verið tilkynnt um brotið.
Af hverju að kæra?
- Að fara með mál í gegnum lögregluna og dómstóla er eina leiðin til að ná fram réttlæti og láta gerandann bera ábyrgð. Saman mynda lögreglan og dómstólar réttarvörslukerfið.
- Það á að kæra kynferðisbrot eins og öll önnur brot. Það er búið að brjóta á réttindum þínum og það má aldrei.
- Kæra getur komið í veg fyrir að gerandinn beiti aðra ofbeldi.
- Einstaklingurinn sem braut á þér þarf að vita að þetta var ekki í lagi.
Ég veit ekki hvað er best að gera
Það getur virkað ógnvænlegt að kæra geranda.
- Kannski er þetta einhver sem er eldri en þú.
- Kannski er þetta einhver í fjölskyldunni.
- Kannski er þetta einhver sem þú ert skotin/nn/ð í.
- Kannski er þetta einhver sem er að kenna þér eða þjálfa þig og þú vilt ekki hleypa öllu í uppnám.
- Kannski ertu ekki viss hvort brotið hafi verið nógu alvarlegt.
Þetta eru allt skiljanlegar hugsanir. En það er sama hver braut á þér, þetta var ekki þér að kenna og þú þarft ekki að skammast þín fyrir neitt. Það má enginn brjóta á þér.
Fáðu ráð
Talaðu við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Sá einstaklingur getur aðstoðað við að hringja í 112 til að fá hjálp og leiðbeiningar. Þú getur líka talað við barnavernd.
Hvað er ofbeldi?
Nektarmyndir og stafrænt kynferðisofbeldi gegn unglingum
Það er ekkert að því að taka og senda kynferðislega mynd af sér eða öðrum ef allir aðilar eru til í það. En þegar það er gert með þrýstingi eða án leyfis er það ólöglegt.
Kynferðisleg áreitni
Þegar farið er yfir mörk á kynferðislegan hátt er það kynferðisleg áreitni.
Þín heilsa
Kæruferlið
Þegar brotið er kært tekur réttarvörslukerfið við því. Hlutverk réttarvörslukerfisins, lögreglu og dómstóla, er að safna gögnum, meta þau og dæma út frá þeim á hlutlausan hátt.
Tekur tíma
Það geta liðið meira en tvö ár þangað til dómur er kveðinn upp. Svo gæti málið líka verið fellt niður.
Sálfræðimeðferð
Kynferðislegt ofbeldi er áfall fyrir þig og fjölskylduna þína. Þið þurfið hjálp til að takast á við það. Barnavernd skipuleggur meðferð með sálfræðingum sem hjálpar unglingum eins og þér að vinna úr áföllum. Þegar þú ert 18 ára geturðu leitað til þolendamiðstöðva og Stígamóta.
Gott að vita
- Frá því að brotið er kært og þangað til dómur er kveðinn upp í málinu þínu geta liðið tvö ár eða meira.
- Það er best að láta lögregluna vita sem fyrst. Það þýðir ekki endilega að þú viljir kæra.
- Það fara ekki öll mál fyrir dóm. Ef málið þitt fer alla leið fyrir dóm getur verið að gerandinn verði ekki dæmdur sekur. Þetta þýðir ekki að þér sé ekki trúað. Það þýðir að það var ekki hægt að sanna sekt gerandans nógu vel.
- Þú og fjölskyldan þín þurfið ekki að borga fyrir lögfræðing ef þið kærið. Þið fáið lögfræðing sem er kallaður réttargæslumaður. Það er ríkið sem borgar laun hans.
- Gerandinn veit ekki strax að brotið hafi verið kært. Hann fær fyrst að vita um það þegar lögreglan boðar hann í viðtal sem heitir skýrslutaka.
- Samskipti við lögregluna, barnavernd og réttargæslumanninn eru leyndarmál. Það eru bara foreldrar þínir eða forráðamenn sem eru í samskiptum við þessa aðila.
- Þú gætir þurft að láta einhvern vita í skólanum ef þú þarft að fá sveigjanleika í námi. Oft er nóg að segja námsráðgjafa frá því sem er að gerast.
Staðreynd: Það er fullt af fólki hjá lögreglunni sem vinnur við mál alveg eins og þitt á hverjum einasta degi.
Er það ég sem kæri brotið?
Þú ert barn samkvæmt lögunum og þess vegna getur þú ekki kært. Það eru foreldrar þínir eða forráðamenn sem kæra málið fyrir þína hönd. Oft kærir barnavernd brotið.
Hvað ef...
Foreldrar mínir vilja ekki kæra? Þá kærir barnavernd fyrir þína hönd.
Gerandinn er foreldri mitt? Ef sá sem beitti þig ofbeldi er annað hvort foreldri eða forráðamaður og hitt foreldrið þitt styður þig ekki, ber barnavernd ábyrgð á að tryggja öryggi þitt. Þú gætir til dæmis búið tímabundið á öðru heimili.
Foreldrar mínir reyna að hafa áhrif á hvað ég segi? Þá þarf barnavernd sennilega að útvega þér annan stað til að búa á í einhvern tíma.
Ákvörðun
Já, ég vil að gerandinn sé kærður, hvað geri ég?
Þú talar við lögregluna beint eða þú getur náð í hana í 112, í síma eða í netspjalli. Þú getur líka beðið einhvern um að hafa samband fyrir þig.
Nei, ég vil ekki að gerandinn sé kærður, hvað geri ég?
Það er eðlilegt að finna fyrir hræðslu í þessum aðstæðum. En unglingar fara ekki einir í gegnum svona ferli, þér er útveguð margs konar aðstoð.
Segðu frá
Ef þú vilt ekki að brotið sé kært skaltu samt tala við einhvern um það. Það er fullt af fólki sem er tilbúið að hlusta á þig og hjálpa.
- Sjúkt spjall er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni (yngri en 20 ára) til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.
- Hjálparsími og netspjall 1717 er opið allan sólarhringinn. Þar er hægt að tala í trúnaði um hvað sem er.
- Sími og netspjall 112. Þá er fenginn ráðgjafi frá barnavernd eða félagsþjónustu sem veitir þér og fjölskyldunni þinni stuðning. Það þarf að gefa upp nafn en þú getur beðið um að enginn annar fái að vita það.
- Bergið headspace er ókeypis stuðnings- og ráðgjafasetur sem aðstoðar ungt fólk. Þar geturðu bókað tíma hjá ráðgjafa sem fer yfir vandann, veitir stuðning og ráðgjöf.
- Hinsegin félagsmiðstöð er fyrir öll ungmenni á aldrinum 13-17 ára sem vilja spjalla í félagsmiðstöð þar sem öll eru velkomin.
- Heilsugæslustöðvar eru flestar með sérstaka móttöku fyrir ungt fólk á aldrinum 13-20 ára til að ræða um heilsu og líðan.
Hvað gerist næst? Hver er munurinn á mér og fullorðnum?
Ferlið í svona málum er það sama hjá þér og hjá fullorðnum. Samt eru ýmis atriði öðruvísi hjá þér en hjá einstaklingum sem eru orðnir 18 ára.