Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir 15-17 ára þolendur kynferðisbrota.
- Ég hef orðið fyrir kynferðisofbeldi
- Leitað til neyðarmóttöku
Leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis
Ef nýlega hefur verið brotið á þér er sérstök neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis rétti staðurinn að leita til.
Reyndu að koma sem fyrst
Þetta er oft fyrsta skrefið í áttina að bata. Neyðarmóttökur fyrir þolendur kynferðisofbeldis eru hér:
- Reykjavík (Landspítalinn í Fossvogi)
- Akureyri (Sjúkrahúsið)
- Þinni heilsugæslustöð ef þú ert ekki nálægt Reykjavík eða Akureyri.
Reyndu að koma sem fyrst. Það er best fyrir heilsu þína. Það skiptir líka miklu máli ef brotið gegn þér verður rannsakað af lögreglunni.
Þú getur komið með vini eða aðstandanda en eru ekki með þér í skoðuninni heldur bíða frammi.
Af hverju að mæta á neyðarmóttöku?
Stuðningur, skoðun og meðferð
Starfsfólkið metur með þér hvaða þjónustu þú þarft og hvaða þjónustu þú vilt. Hægt er að fá:
- Viðtal við hjúkrunarfræðing á neyðarmóttöku.
- Læknisskoðun og meðferð.
- Réttarlæknisfræðileg skoðun. Þá er safnað saman gögnum sem gætu orðið að sakargögnum. Sakargögn eru upplýsingar sem er hægt að nota í rannsókn og fyrir dómi.
Barnavernd
Ef þú ferð á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota verður starfsfólkið þar að láta barnavernd vita að þú hafir orðið fyrir kynferðisbroti.
Stundum kemur einstaklingur frá barnavernd á neyðarmóttökuna. Ef lögreglan kemur er líka alltaf einhver frá barnavernd.
Barnavernd sér um að útvega þér sálfræðimeðferð við þitt hæfi eins og meðferðarviðtöl í Barnahúsi.
Brotið kært
Starfsfólk neyðarmóttökunnar getur aðstoðað þig og kallað til lögreglu ef þú vilt að brotið sé kært.
Mikilvægt fyrir rannsókn
Fyrstu 72 klukkustundirnar eftir að brotið er framið eru mjög mikilvægar. Þetta er sá tími sem nýtist best fyrir lögregluna að ná í gögn. Gögnin eru svo notuð ef þú ákveður að kæra brotið. Til dæmis má nota þau fyrir dómi til að styðja málið þitt.
Gögnin eru til dæmis:
- Lífsýni. Með því er átt við efni úr fólki sem getur veitt líffræðilegar upplýsingar um það.
- Gögn af staðnum þar sem brotið var framið.
- Föt, verjur, dömubindi og annað sem tengist atburðinum. Þetta eru allt gögn sem geta nýst lögreglunni við rannsókn.
- Upplýsingar um vitni.
Ekki fara í bað áður en þú kemur á neyðarmóttöku eða heilsugæslu. Ekki fleygja fötum heldur vertu ennþá í þeim eða hafðu þau með.
Skoðunin
Hverjir sjá að ég hafi komið?
Nafnleynd gildir um alla sem koma á neyðarmóttökurnar. Það á við um alla meðferðina.
Hversu langan tíma tekur skoðunin?
Læknisskoðunin sjálf tekur oftast stuttan tíma. Heimsóknin í heild sinni getur tekið 2-4 tíma en það fer eftir ýmsu.
Það er mikilvægt að kæra brot til lögreglu við fyrsta tækifæri því oft reynist erfiðara að rannsaka brot ef langur tími er liðinn.
Fleiri góð ráð?
SkoðaAð takast á við áfall
Þín heilsa skiptir mestu máli. Afleiðingar af áföllum geta verið margs konar. Gott er að leita sér hjálpar sem fyrst til að skilja hvernig áhrifin gætu verið að birtast hjá þér en það er aldrei of seint.
Hvað gerist næst? Af hverju að kæra?
Að kæra er eina leiðin til að láta gerandann bera ábyrgð á því sem hann gerði.