Af hverju að mæta á neyðarmóttöku?
Stuðningur, skoðun og meðferð
Starfsfólkið metur með þér hvaða þjónustu þú þarft og hvaða þjónustu þú vilt. Hægt er að fá:
- Viðtal við hjúkrunarfræðing á neyðarmóttöku.
- Læknisskoðun og meðferð.
- Réttarlæknisfræðileg skoðun. Þá er safnað saman gögnum sem gætu orðið að sakargögnum. Sakargögn eru upplýsingar sem er hægt að nota í rannsókn og fyrir dómi.
Barnavernd
Ef þú ferð á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota verður starfsfólkið þar að láta barnavernd vita að þú hafir orðið fyrir kynferðisbroti.
Stundum kemur einstaklingur frá barnavernd á neyðarmóttökuna. Ef lögreglan kemur er líka alltaf einhver frá barnavernd.
Barnavernd sér um að útvega þér sálfræðimeðferð við þitt hæfi eins og meðferðarviðtöl í Barnahúsi.
Brotið kært
Starfsfólk neyðarmóttökunnar getur aðstoðað þig og kallað til lögreglu ef þú vilt að brotið sé kært.
Mikilvægt fyrir rannsókn
Fyrstu 72 klukkustundirnar eftir að brotið er framið eru mjög mikilvægar. Þetta er sá tími sem nýtist best fyrir lögregluna að ná í gögn. Gögnin eru svo notuð ef þú ákveður að kæra brotið. Til dæmis má nota þau fyrir dómi til að styðja málið þitt.
Gögnin eru til dæmis:
- Lífsýni. Með því er átt við efni úr fólki sem getur veitt líffræðilegar upplýsingar um það.
- Gögn af staðnum þar sem brotið var framið.
- Föt, verjur, dömubindi og annað sem tengist atburðinum. Þetta eru allt gögn sem geta nýst lögreglunni við rannsókn.
- Upplýsingar um vitni.