Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir 15-17 ára þolendur kynferðisbrota.

Hvað er skýrslutaka?

  • Skýrslutaka er þegar þú lýsir því sem gerðist fyrir lögreglumanni eða lögreglukonu.
  • Skýrslutakan fer fram í sérstöku herbergi á lögreglustöð. Stundum er viðtalið í Barnahúsi.

Undirbúningur

Réttargæslumaðurinn þinn undirbýr þig fyrir skýrslutökuna og á hverju þú mátt eiga von. Það er líka mælt með því að hafa réttargæslumanninn með í skýrslutökunni sjálfri. Ef þið eigið eftir að finna réttargæslumann er hægt að fá lista yfir lögmenn hjá lögreglunni.

Meira um skýrslutökuna:

  • Viðtalið er tekið upp, bæði hljóð og mynd.
  • Í herberginu eru þú, rannsakandi hjá lögreglunni og réttargæslumaðurinn þinn. Ef þú þarft túlk er hann líka viðstaddur.
  • Ef þú áttar þig seinna á að þú hefðir getað sagt frá fleiru í skýrslutökunni geturðu haft samband við rannsakanda eða réttargæslumanninn og beðið um að bæta við skýrsluna. Rannsakandi gæti þá kallað þig aftur inn í viðtal svo að viðbótarupplýsingarnar séu líka til á upptöku.
  • Skýrslutaka þarf ekki sjálfkrafa að þýða að brotið verði kært.

Hér geturðu séð hvað gerist í skýrslutöku

Skýrslutaka á höfuðborgar­svæðinu

Þegar kæra er lögð fram í kynferðisbrotamálum kallar lögreglan þolanda til skýrslutöku. Hér fjallað um skýrslutöku hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Skýrslutaka á Suðurlandi

Þegar kæra er lögð fram í kynferðisbrotamálum kallar lögreglan þolanda til skýrslutöku. Hér fjallað um skýrslutöku hjá Lögreglunni á Suðurlandi.

Þú mátt hafa með þér punkta, glósubók til skrifa í eða tilbúinn texta.

Fleiri góð ráð?

Skoða

Gott að vita

  • Áður en þú og réttargæslumaðurinn þinn farið í skýrslutöku fer réttargæslumaðurinn yfir með þér hvernig skýrslutakan gengur fyrir sig og hvað þarf að hafa með.
  • Það getur hjálpað að hafa sagt upphátt frá atburðinum áður en þú mætir í skýrslutökuna. Þetta getur hjálpað þér við segja skýrt frá og auðveldað ferlið. Þú getur gert þetta upp á þitt einsdæmi, með einhverjum sem þú treystir eða með réttargæslumanni.
  • Þú mátt hafa með þér punkta, glósubók til skrifa í eða tilbúinn texta.
  • Þú mátt biðja um annan rannsakanda til að taka skýrslu ef þú treystir sér ekki til að ræða málið við þann rannsakanda sem tekur á móti þér.
  • Ekki fela áfengisneyslu eða notkun vímuefna. Það hefur ekki áhrif á stöðu þína en getur aðstoðað við rannsókn málsins.
  • Eftir skýrslutöku máttu búast við að vera úrvinda svo það er ekki ráðlagt að fara aftur til vinnu eða að sinna erindum í beinu framhaldi.
  • Það er um gera að gefa sem besta lýsingu á brotinu og ekki hika við að nota rétt orð yfir hlutina, til dæmis yfir líkamshluta. Rannsakendur eru mjög vanir því að heyra allt sem viðkemur þessari tegund brota.

Óvænt atriði

Það er ýmislegt sem gæti komið þér á óvart í skýrslutökunni. Hér eru dæmi:

  • Skýrslutakan getur virkað kuldaleg. Ástæðan er að þau sem rannsaka málið verða að vera hlutlaus. Þeirra markmið er samt sem áður að fá sem mestar upplýsingar um hvað gerðist þannig að reyndu eftir fremsta megni að láta það ekki trufla þig of mikið.
  • Rannsakandinn þarf að spyrja margra óþægilegra spurninga. Til dæmis um mjög persónulega og viðkvæma reynslu, klæðaburð þinn og ástand þitt. Þetta er ekki fordæming heldur eru þessar upplýsingar nauðsynlegar fyrir rannsókn málsins. Til dæmis gætu upplýsingar um klæðaburð verið notaðar til að finna þig á upptökum öryggismyndavéla svo hægt sé að rekja ferðir þínar í kringum atburðinn.
  • Rannsakandinn sem tekur viðtalið er ekki í lögreglubúningi heldur í sínum eigin fötum.

Hvað tekur skýrslutakan langan tíma?

Skýrslutakan tekur yfirleitt um klukkutíma. Stundum tekur hún lengri tíma svo gott er að gera ráð fyrir því.

Hvað gerist næst? Málið rannsakað

Nú tekur við nokkurra mánaða bið á meðan lögregla rannsakar málið. Það er lítið sem þú getur gert annað en að huga vel að þinni uppbyggingu eftir áfallið.

Aftur í skýrslutöku

Á meðan á rannsókn stendur gæti lögregla kallað þig inn í aðra skýrslutöku til að varpa ljósi á eitthvað sem komið hefur upp í rannsókninni eða biðja þig um einhver gögn. Þá hefur lögreglan samband við þinn réttargæslumann sem aðstoðar þig að svara.

Lögreglan safnar gögnum. Svo er ákveðið hvort málið fari til héraðssaksóknara eða ekki.

Hendur halda á tveimur stórum pússluspilum og eru að setja þau saman.