Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir þolendur kynferðisbrota sem eru 14 ára og yngri .

Um Barnahús

Ef það er grunur um að brotið hafi verið kynferðislega á þér er tekið viðtal við þig í Barnahúsi. 15 ára og eldri fara í skýrslutöku á lögreglustöð. Barnavernd eða lögreglan óska eftir að það sé tekið viðtal við þig, ekki aðstandendur þínir.

Barnahús er í Reykjavík og á Akureyri.

Viðtalið

Að fara í Barnahús er ekkert líkt því að mæta á lögreglustöð. Barnahús lítur bara út eins og venjulegt hús. Hægt er að fara í viðtöl í Reykjavík og á Akureyri.

Hvaða spurningar eru?

Spurningarnar í viðtalinu eru ekki flóknar. Það er passað upp á að spurningarnar fái þig ekki til að hugsa um eitthvað sem gerðist ekki. Þú getur treyst þeim sem spyr því sú manneskja spyr bara spurninga sem er búið að sanna að séu bestar í svona viðtöl.

Það eru tekin svipuð viðtöl við öll börn, en alltaf í samræmi við aldur. Til dæmis eru stundum notaðar teikningar fyrir yngri börn. Ef þú ert með einhverja greiningu lætur barnavernd Barnahús vita. Það er til að þér líði betur í viðtalinu.

Sá sem spyr

Í viðtalinu eru bara þú og spyrillinn frá Barnahúsi. Spyrillinn hefur fengið sérstaka þjálfun í að taka svona viðtöl. Þau mega ekki gera neitt annað í viðtalinu en það sem þau eiga að gera. Það er búið að setja strangar reglur um það. Þau sem tala við þig vilja bara komast að því sem gerðist.

Viðtalið er tekið upp

Þú þarft ekki að mæta í dómsal og bera vitni þar. Það er vegna þess að viðtalið við þig er tekið upp og spilað í dómsalnum.

Foreldrar þínir

Foreldrar þínir eða forsjáraðilar eru í öðru herbergi á meðan þú ert í viðtalinu. Þau horfa ekki á það né hlusta.

Fólk frá lögreglunni og dómstólum

Af því að viðtalið er tekið upp og notað sem vitnisburður þinn um brotið þurfa ákveðnir aðilar að vera á staðnum líka. Þetta fólk er í öðru herbergi á meðan þú ert í viðtalinu og fylgist með.

Dómari

Dómari þarf að vera á staðnum. Hann getur talað við manneskjuna sem er að spyrja þig í gegnum heyrnartól. Hann gerir það bara ef það er eitthvað meira sem hann vill vita um brotið.

Aðrir

Svo eru aðrir líka í sama herbergi og dómarinn en þau horfa bara á viðtalið.

  • Réttargæslumaðurinn þinn. Réttargæslumaður er lögfræðingurinn þinn sem ríkið útvegar þér og fjölskyldu þinni.
  • Rannsakandi frá lögreglunni.
  • Fulltrúi frá Barnavernd.
  • Verjandi gerandans.

Eftir viðtalið

Þegar viðtalið er búið máttu fara í meðferðarviðtöl. Það eru annars konar viðtöl en eru líka í Barnahúsi. Þá byrjar þú að fá það sem er kallað áfallamiðuð meðferð. Það er til að hjálpa þér að líða betur. Fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi verður oft fyrir áfalli og líður illa.

Ef þú ert ekki með einkenni áfalls getur þú farið til sálfræðings sem þú og foreldrar þínir veljið sjálf. Foreldrar þínir og forsjáraðilar fylgja þér í gegnum meðferðina og skipta miklu máli svo þér geti liðið betur.

Tímalengd

Það er mjög mismunandi hversu lengi börn eru í viðtali. Það getur tekið 10 mínútur eða 2 klukkustundir. Stundum þarf 2 viðtöl.

Læknisskoðun

Það er hægt að fá lækni til að skoða sig í Barnahúsi. Stundum finnst börnum sem hafa orðið fyrir einhverju slæmu gott að fá að vita hjá lækninum að það sé allt í lagi með þau. Þá eru það barnalæknar, hjúkrunarfræðingar eða kvensjúkdómalæknar sem skoða þig.

Læknisskoðunin er ekki réttarmeinafræðileg. Það þýðir að það er ekki leitað að sönnunargögnum til að nota fyrir dómi. Læknarnir hafa samt stundum sagt frá ákveðnum niðurstöðum úr skoðuninni fyrir dómi þegar það hefur þótt mikilvægt.

Þegar ég verð 15 ára

Stundum á brot sér stað þegar þolandi er 14 ára og svo líða 2 ár þangað til málið fer fyrir dómi. Þá hefurðu náð 15 ára aldri og þá þarftu að mæta í dómsalinn. Ef það gerist er fólk með þér til að hjálpa þér, eins og einhver sem þú þekkir frá barnavernd og réttargæslumaðurinn þinn.