Skýrslutakan
Að fara í Barnahús er ekki eins og að fara á lögreglustöð. Barnahús lítur bara út eins og venjulegt hús. Þú getur farið í skýrslutöku í Reykjavík og á Akureyri, eftir því hvort er nær heimili þínu.
Hvaða spurningar eru?
Spurningarnar í viðtalinu eru einfaldar og skýrar. Það er passað upp á að þær fái þig ekki til að hugsa um eitthvað sem gerðist ekki. Þú getur treyst manneskjunni sem spyr því hún er sérþjálfuð í að spyrja spurninga sem er búið að sanna að séu bestar í svona viðtölum.
Það er talað svipað við öll börn, en alltaf miðað við aldur. Til dæmis eru stundum notaðar teikningar fyrir yngri börn. Ef þú ert með einhverja greiningu lætur barnavernd Barnahús vita. Það er til að þér líði sem best í viðtalinu.
Sá sem spyr
Í viðtalinu ert bara þú og manneskja frá Barnahúsi sem er sérfræðingur í að taka svona viðtöl. Sérfræðingurinn má ekki gera neitt annað í viðtalinu en það sem hann á að gera. Það eru strangar reglur um það. Sá sem talar við þig vill bara komast að því sem gerðist.
Viðtalið er tekið upp
Þú þarft ekki að mæta í dómsal og segja frá þar. Í staðinn er viðtalið við þig tekið upp og síðan spilað í dómsalnum.
Foreldrar þínir
Foreldrar þínir eða forsjáraðilar eru í öðru herbergi á meðan þú ert í viðtalinu. Þau horfa ekki á það né hlusta.