Hvernig fer rannsóknin fram?
Málið er nú orðið að opinberu sakamáli sem lögreglan tekur upp á sína arma og rannsakar. Með rannsókninni er gögnum aflað svo að hægt sé að fara með málið fyrir héraðsdóm.
Staðsetning brots
Lögreglan á því svæði (líka kallað umdæmi) þar sem brotið átti sér stað rannsakar málið. Ef engin sérstök rannsóknardeild kynferðisbrota er í umdæminu fær lögreglan stuðning frá öðrum umdæmum.
Brotið flokkað
Fyrst er brotið fært undir viðeigandi lagaákvæði. Flokkar brota eru skilgreindir í lögum og réttargæslumaðurinn þinn getur frætt þig um þau ákvæði sem koma til greina. Dæmi um brotaflokka eru: nauðgun, áreitni og blygðunarsemisbrot.
Þín lýsing ræður brotaflokknum
Flokkunin byggir á lýsingunni þinni á brotinu í skýrslutökunni. Lögreglan reynir að láta lýsinguna passa við rétt ákvæði laganna. Það gæti komið á óvart hvernig brotið er flokkað. Það hvernig fólk talar um brot í daglegu tali og hvernig lögin skilgreina brot er oft ólíkt.
Söfnun gagna
Lögreglan hefur það hlutverk að leiða sannleikann í ljós og skrásetja sönnunargögn. Til þess er meðal annars:
- Gerandi kallaður til skýrslutöku.
- Vitni kölluð til skýrslutöku.
- Vitnisburður þinn borinn saman við framburð geranda og vitna.
Gögnum er safnað, til dæmis:
- Upptökum úr eftirlitsmyndavélum.
- Símagögn eða símar eru afritaðir, með þinni heimild.
- Samskiptum á samfélagsmiðlum, með þinni heimild.
- Vottorðum frá læknum, sálfræðingum og slíkum fagaðilum, með þinni heimild.
Aftur í skýrslutöku
Lögreglan gæti kallað þig inn í aðra skýrslutöku til að varpa ljósi á eitthvað sem komið hefur upp í rannsókninni eða beðið þig um frekari gögn. Þá hefur lögreglan samband við þinn réttargæslumann.
Mikilvæg gögn um gerandann
Ef þú getur sagt um leið hver gerandi er reynir lögreglan að ná honum strax eftir brotið. Þannig er möguleiki á að ná í mikilvæg gögn. Ef brotið er gamalt er metið í hverju tilviki hvaða gagna er hægt að afla, til dæmis af vettvangi brotsins eða heimili geranda. Þetta er metið í hverju tilviki fyrir sig.
Ef gerandi er búsettur erlendis
Það er ýmislegt hægt að gera í rannsókn kynferðisbrotamáls þó að gerandi sé einungis tímabundið á landinu, til dæmis ef hann er ferðamaður.
Þú ættir ekki að láta stutta dvöl geranda stöðva þig í að kæra. Eins og með öll önnur kynferðisbrotamál er best að fá lögregluna sem fyrst inn í málið svo að hægt sé að hafa uppi á gerandanum. Ef hann er farinn úr landi er oft samstarf á milli íslensku lögreglunnar og lögreglu í heimalandi hans um að hafa uppi á honum.