Það þarf alltaf samþykki til að deila kynferðislegu efni af öðrum
Hvað má?
Það er ekkert að því að taka og senda kynferðislega mynd af sér eða öðrum ef allir aðilar eru til í það. En því fylgir viss áhætta svo þá er mikilvægt að treysta öllum aðilum. Það er ólöglegt ef kynferðislegt efni af þér er tekið, dreift eða birt án leyfis. Það sama á við ef einhver hótar að gera þessa hluti eða þrýstir á þig. Það er líka brot ef einhver sendir þér kynferðislega mynd af sér án þíns leyfis.
Þetta kallast vanalega stafrænt kynferðisofbeldi því oftast er stafræn tækni notuð, eins og netið og símar. En það sama á við um framkallaðar ljósmyndir og annað efni sem er ekki stafrænt. Stundum er þetta líka kallað hrelliklám og hefndarklám, en lagalega hugtakið er brot gegn kynferðislegri friðhelgi.