Vísbendingar um einelti
Breytt hegðun og líðan barns geta verið vísbendingar um að það sé lagt í einelti. Upptalningin hér að neðan er ekki tæmandi.
Tilfinningalegar
- Breytingar á skapi.
- Endurtekinn grátur og viðkvæmni.
- Svefntruflanir eða martraðir.
- Breyttar matarvenjur, lystarleysi eða ofát.
- Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði.
- Depurð, þunglyndiseinkenni eða sjálfsvígshugsanir.
Líkamlegar
- Líkamlegar kvartanir, til dæmis höfuðverkur eða magaverkur.
- Kvíðaeinkenni, eins og að naga neglur, stama eða ýmis konar kækir.
- Skrámur eða marblettir sem barnið getur ekki útskýrt.
- Rifin föt eða skemmdar eigur.
Félagslegar
- Barnið virðist einangrað og einmana.
- Barnið fer ekki í og fær ekki heimsóknir.
- Barnið vill ekki taka þátt í félagsstarfi og á fáa eða enga vini.
Hegðun
- Óútskýranleg skapofsaköst eða grátköst.
- Barnið neitar að segja frá hvað amar að.
- Árásargirni og erfið hegðun.
Í skóla
- Barnið hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd eða fer aðra leið.
- Barnið leggur fyrr eða seinna af stað í skólann en venjulega.
- Barnið mætir oft seint eða byrjar að skrópa.
- Barnið forðast ákveðnar aðstæður í skólanum, til dæmis leikfimi og sund.
- Barnið hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, erfiðleikar með einbeitingu.
- Barnið einangrar sig frá skólafélögum.
- Barnið forðast að fara í frímínútur.
Ef grunur er um að einelti eigi sér stað
Ef þú tekur eftir einhverjum af þessum einkennum eða einhverju öðru sem bendir til að barni líði illa, er mikilvægt að kanna málið og láta viðeigandi aðila vita. Það geta verið foreldrar, kennarar, þjálfarar, stjórnendur skóla eða annað starfsfólk skólans. Ef þér finnst þú ekki fá næga aðstoð í skólanum geturðu haft samband við Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum á netfangið fagrad@mms.is. Ef einelti á sér stað innan íþrótta- og æskulýðsstarfs er hægt að leita til Samskiptaráðgjafa. Alvarlegt einelti á að tilkynna til barnaverndar gegnum 112.