Þegar einstaklingur er sakaður um hatursorðræðu þá fer umræðan oft yfir í að fjalla um tjáningarfrelsi og rétt einstaklings til að segja það sem hann vill frekar en um hatursorðræðuna sjálfa.

Samkvæmt 73. grein stjórnarskrár Íslands þá eru lög gegn hatursorðræðu fullkomlega réttmæt þar sem einstaklingar þurfa að geta ábyrgst tjáningu sína fyrir dómi.

Stjórnarskrá Íslands, 73. grein

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Lögin gegn hatursorðræðu

Almenn hegningarlög, 233. gr. a.

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Skilgreining Evrópuráðs

Öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri/óvæginni þjóðræknisstefnu/þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.