Ofbeldi gegn börnum
Ofbeldi birtist á margan hátt. Það getur verið líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt. Það er líka ofbeldi gegn barni þegar lífi og heilsu ófædds barns er stefnt í hættu.
Afleiðingar ofbeldis geta verið alvarlegar og varað langt fram á fullorðinsár. Dæmi um afleiðingar eru lágt sjálfsmat, kvíði, þunglyndi, aukin hætta á langvinnum sjúkdómum, sjálfsvígshugsanir og áfengis- og vímuefnanotkun.
Barn sem er vitni að heimilisofbeldi hlýtur svipaðan skaða og það sem er beitt ofbeldi. Börn geta líka beitt önnur börn ofbeldi.
Tilkynna ofbeldi
Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að tilkynna það til barnaverndar með því að hringja í 112 eða gegnum netspjall 112.
Þú getur lesið meira um hvernig á að tilkynna og hvað gerist á síðu barnaverndar.