Forvarnir gegn ofbeldi

Við berum saman ábyrgð á að koma í veg fyrir ofbeldi. Íþrótta- og æskulýðsfélög eiga að bregðast við öllum atvikum sem koma upp á þeirra vegum, hvort sem þau eru stór eða smá.

Til þess að gera það sem best þarf að huga að mörgu áður en atvik kemur upp. Þannig eru mestar líkur á því að við munum eiga ánægjulegar samkomur, örugga viðburði og traust mannamót.

Viðbragðsáætlun í félagsstarfi

Starfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga getur verið misjöfn en mikilvægt er að öllum þar líði vel við leik og störf. Fólk á að vera öruggt og fá að vera óáreitt.

Atvik eins og einelti, ofbeldi og áreitni geta komið upp. Þá er mikilvægt að félög bregðist við á samræmdan og góðan hátt.

Mikilvægt að hafa í huga þegar atvik koma upp

  • Taka allar tilkynningar alvarlega.
  • Koma málum í ferli eins hratt og mögulegt er.
  • Sýna viðeigandi framkomu, halda ró og hlusta vel á frásögn barnsins án þess að trufla.
  • Ekki beita barn þrýstingi ef það vill ekki tjá sig meira.
  • Taka við upplýsingunum sem barnið gefur þér án þess að spyrja leiðandi spurninga.
  • Taka ákvarðanir í málum sem varða fullorðna í samráði við viðkomandi.
  • Hvetja til þess að viðkomandi leiti til lögreglu ef málið varðar brot á lögum.
  • Félagið á að standa vörð um þolanda og auðvelda viðkomandi að halda áfram virkni í félagsstarfi sínu.

Siðareglur

Mikilvægt er að félög upplýsi sitt fólk um hvers er ætlast til af því hvað varðar hegðun og framkomu. Til þess þarf að vera með siðareglur og að þar komi fram hvað gerist ef þær séu brotnar. Einnig er mikilvægt að ræða reglurnar og hvernig eigi að koma fram, sama hvort um starfsfólk, sjálfboðaliða eða þátttakendur sé að ræða.

Netnámskeið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða

Sérfræðingar Barnahúss hafa unnið gagnvirkt námskeið með fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreiti. Námskeiðið fjallar um einkenni barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og hvernig bregðast skuli við ef barn greinir frá ofbeldi.

Æskulýðsvettvangurinn og Ofbeldisforvarnaskólinn bjóða einnig upp á námskeið í barnavernd, siðareglum, inngildingu, einelti, samskiptum og fleira.

Nýráðning starfsfólks og sjálfboðaliða

Í íþrótta- og æskulýðslögum segir að ekki sé heimilt að ráða til starfa eða fá sem sjálfboðaliða einhvern sem hefur hlotið dóm fyrir kynferðisbrot einhvern tíma á lífsleiðinni eða fyrir fíkniefnabrot síðustu 5 ár. Sömu lög gefa félögum heimild til þess að fletta aðilum upp í sakaskrá til að kanna þessi tvö atriði.

Við nýráðningu starfsfólks og sjálfboðaliða er mjög mikilvægt að félög sannreyni þessi atriði:

  • Sannreyna meðmæli
  • Kanna hvort viðkomandi eigi sér afbrotaferil
  • Kynna siðareglur fyrir nýju starfsfólki
  • Kynna viðbragðsáætlun fyrir nýju starfsfólki
  • Staðfesta að nýtt starfsfólk hafi lokið rafrænum skyldunámskeiðum um kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi

Úrræði

Samskiptaráðgjafi

Samskiptaráðgjafi er hér til að hlusta, styðja þig og aðstoða með öll mál sem snerta óeðlileg samskipti eða áreiti við íþróttaiðkun eða æskulýðsstörf.

Lögreglan

Lögreglan hjálpar fólki sem verður fyrir ofbeldi. Ofbeldi í nánum samböndum er litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni.

Barnavernd

Markmið barnaverndar er að styðja foreldra til að hugsa vel um börnin sín. Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita.

Fyrir fullorðna - ofbeldi gegn börnum

Öll börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Það er alltaf mikilvægt að stöðva ofbeldið eins fljótt og hægt er og koma börnum til hjálpar.

Manneskja situr í hjólastól. Hún snýr frá okkur og horfir upp í vindinn. Mikið og liðað hár sveiflast í vindinum.