Munur á börnum og fullorðnum

Heimilisofbeldi er rannsakað eins af lögreglu hvort sem það eru börn eða fullorðnir sem verða fyrir ofbeldinu en sumt í lögunum er öðruvísi fyrir börn og ungmenni.

Tvær leiðar manneskjur sitja hlið við hlið. Two sad young people sitting next to each other.

Öðruvísi hjá þér en fullorðnum

Fullorðið fólk verður að láta barnavernd eða lögregluna vita ef það heldur að einhver hafi beitt þig eða einhvern á heimili þínu ofbeldi. Þau ákveða ekki sjálf hvort þau láta vita af brotinu heldur verða þau að gera það samkvæmt lögum. Þetta er til að passa upp á öryggi barna.

Þetta gæti til dæmis verið skólahjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi, þjálfari, kennari, fólk í félagsmiðstöðinni eða annað fullorðið fólk, hvort sem þú þekkir það eða ekki.

Öðruvísi hjá 15-17 ára og yngri börnum

Þótt að öll yngri en 18 ára eru börn samkvæmt lögum eru sumar reglur öðruvísi fyrir þau sem eru orðin 15 ára.

Kynlíf

  • Það má ekki stunda kynlíf eða gera neitt kynferðislegt með börnum yngri en 15 ára.
  • 15 til 17 ára unglingar mega stunda kynlíf með manneskjum á svipuðum aldri og þroska ef þau vilja og samþykkja það. Lestu meira um hvað samþykki þýðir.

Börn yngri en 15 ára fara í skýrslutöku í Barnahúsi og mæta ekki í dómsal

  • Ef þú ert yngri en 15 ára ferð þú í skýrslutöku í Barnahús. Viðtalið er tekið upp svo dómari og lögregla geta séð og stundum er það spilað í dómsalnum.
  • Börn sem eru orðin 15 ára fara í skýrslutöku á lögreglustöð og þurfa að mæta aftur í dómsal til að bera vitni.

Skýrslutaka

14 ára og yngri

Skýrslutaka í Barnahúsi
Manneskja situr við skrifborð með tölvuskjá fyrir framan sig og slær inn á lyklaborð. Fyrir framan skrifborðið situr önnur manneskja á stól. Sú manneskja er með áhyggjusvip og heldur vinstri hendi að hjartastað.

15 til 17 ára

Skýrslutaka á lögreglustöð

Eins hjá börnum og fullorðnum

Það skiptir ekki máli hversu gamalt fólk er, það er alltaf betra að segja frá heimilisofbeldi til að fá aðstoð. Þú skalt reyna að segja sem fyrst frá því sem gerðist.

Þú þarft ekki að kæra ofbeldið

Það er bannað samkvæmt lögum að beita ofbeldi. Þess vegna þarf sá sem verður fyrir ofbeldinu ekki að kæra það, hvort sem hann er barn eða fullorðinn.

  • Ef lögreglan fær að vita af heimilisofbeldi rannsakar hún málið.
  • Ef það eru nógu miklar sannanir fyrir ofbeldinu fer málið fyrir dóm.
  • Þau sem verða fyrir ofbeldinu fá lögmann sem er kallaður réttargæslumaður. Hann er í samskiptum við fullorðnu manneskjuna sem er með þér í ferlinu um hvernig málið gengur.

Hjálp til að líða betur

Það líður öllum illa sem verða fyrir ofbeldi en það geta allir fengið hjálp til að líða betur. Þegar barnavernd veit af ofbeldinu skipuleggja þau meðferð fyrir þig og stundum líka fyrir foreldra þína. Stærsti hluti meðferðarinnar er viðtöl við sálfræðinga.

Ferlið tekur tíma

Frá því að heimilisofbeldi er rannsakað af lögreglu og þar til það er dæmt í málinu líður oftast 1 ár, stundum lengra.