Ofbeldið tilkynnt til lögreglu

Þegar lögreglan fær að vita af heimilisofbeldi rannsakar hún málið.

Tvær hendur að fara að setja saman púsl. Two hands about to put together a puzzle pieces.

Tilkynning til lögreglu

Oft er lögreglan kölluð á staðinn vegna heimilisofbeldis. Stundum hefur einhver á heimilinu hringt eða einhver annar hefur látið lögregluna vita. Þegar lögreglan sér að það sé heimilisofbeldi í gangi kallar hún á sérstaka rannsóknarlögreglu.

Í gegnum þetta ferli er mikilvægt að þú hafir einhvern fullorðinn með þér sem þú treystir, annan en gerandann (sá sem beitti ofbeldinu). Sú manneskja er í samskiptum við réttargæslumann og aðra í réttarkerfinu, það er aldrei talað við gerandann um þín mál. Til dæmis:

  • hitt foreldri þitt
  • forsjáraðili (eins og fósturforeldri eða annar sem er með forsjá yfir þér)
  • manneskja frá barnavernd

Stuðningur á staðnum

  • Þegar barn býr á heimilinu eða er tengt því lætur lögreglan barnavernd vita. Þá kemur starfsmaður frá barnavernd til að passa upp á þig og aðstoða fjölskylduna.
  • Ef þú eða einhver á heimilinu eruð ekki góð í íslensku eða ensku kemur túlkur til að aðstoða. Fjölskyldumeðlimir mega ekki túlka fyrir hvorn annan.
  • Ef einhver þarf að fara á spítala getur lögreglan keyrt manneskjuna þangað.

Öryggi

Oft er manneskjan sem beitti ofbeldinu fjarlægð af heimilinu í nokkra klukkutíma eða jafnvel sólarhring. Barnavernd getur beðið lögregluna um að vísa gerandanum af heimilinu í nokkrar vikur eða bannað honum að nálgast þig og aðra heimilinu til að vernda ykkur fyrir áreitni, hótunum og ofbeldi.

Skriflegt samkomulag

Fyrst gerir lögreglan oftast skriflegt samkomulag við gerandann um að halda sig frá heimilinu. Þetta er gert þegar gerandinn:

  • hefur ekki beitt ofbeldi áður og talið er að hann muni hlýða fyrirmælum
  • hefur ekki fengið áður á sig nálgunarbann eða brottvísun af heimili

Brottvísun af heimili

Manneskjunni er vísað af heimilinu og bannað að koma þangað aftur í ákveðinn tíma. Hámarkstími er 4 vikur.

Nálgunarbann

Manneskjunni er bannað að koma á tiltekin svæði, reyna að hafa samband við þig og veita þér eftirför. Hámarkstími er 1 ár en er þó oftast styttri.

Hvernig er rannsakað?

Lögreglan safnar saman alls konar upplýsingum um það sem hefur gerst. Það er nauðsynlegt til að hægt sé að fara með málið fyrir dóm og sanna það.

Til þess er meðal annars:

  • Tekið viðtal við foreldra þína af lögreglu sem heitir skýrslutaka.
  • Talað við annað fólk (vitni) til að komast að því hvað hefur gerst.
  • Ljósmyndir teknar af staðnum og meiðslum á fólki.
  • Notast við upptökur af búkmyndavélum lögreglu sem koma á staðinn.

Talað við þig um hvað gerðist, það kallast skýrslutaka.

  • 15 til 18 ára börn þurfa að fara á lögreglustöð til að tala við lögregluna. Þá er best að hafa með þér réttargæslumann (lögmann) og einhvern fullorðinn sem þú treystir.
  • Börn yngri en 15 ára fara í Barnahús í skýrslutöku. Þar talar sérfræðingur sem er vanur að vinna með börnum við þig.

Gott að vita

  • Þú þarft ekkert að skammast þín fyrir að segja lögreglunni eða barnavernd frá því hvað gerðist.
  • Það sem kom fyrir þig hefur líka komið fyrir önnur börn og ungmenni.
  • Þau verða ekki hissa þegar þau heyra af því sem gerðist hjá þér.
  • Þau vilja passa að enginn sé að meiða þig eða láta þér líða illa.

Lesa meira um skýrslutökuna

14 ára og yngri

Skýrslutaka í Barnahúsi
Manneskja situr við skrifborð með tölvuskjá fyrir framan sig og slær inn á lyklaborð. Fyrir framan skrifborðið situr önnur manneskja á stól. Sú manneskja er með áhyggjusvip og heldur vinstri hendi að hjartastað.

15-17 ára

Skýrslutaka á lögreglustöð

Réttargæslumaður

Réttargæslumaður er lögmaður sem hjálpar þeim sem verða fyrir ofbeldi í gegnum réttarkerfið. Hann passar upp á réttindi þín og vinnur með barnavernd. Það þarf ekki að borga honum neitt, heldur gerir ríkið það.

Það má velja hvaða lögmann sem er til að vera réttargæslumaður. Lögreglan er með lista af fólki sem er vant að starfa sem réttargæslumenn í svona málum.

Aðgangur að gögnum

Á meðan málið er í rannsókn geta foreldrar þínir (eða forsjáraðilar) sem eru ekki gerendur fengið upplýsingar um málið og aðgang að gögnum. Réttargæslumaður biður um þessi gögn fyrir ykkur. Gerandi má gera það sama en verjandi hans óskar eftir gögnum fyrir hann. Það má samt ekki gefa aðgang að gögnum ef það gæti skemmt rannsókn málsins.

  • Það má ekki skoða gögn sem geyma viðkvæmar upplýsingar um aðra, nema með ákveðnum skilyrðum.
  • Lögreglan og fólk sem vinnur í dómskerfinu geta skoðað gögnin til að nota í starfi sínu á meðan málið er í rannsókn.
  • Ef rannsókn málsins er hætt átt þú rétt á öllum gögnum þess.

Tilkynningar um stöðu máls

Foreldrar þínir (eða forsjáraðilar) og réttargæslumaðurinn þinn fá tilkynningar frá ákærusviði lögreglunnar á Ísland.is.

Þessar tilkynningar segja til um hvort:

  • Málið hafi verið sent áfram til saksóknara.
  • Það hafi farið aftur í rannsókn.
  • Rannsókninni hafi verið hætt.

Tímalengd

Það getur tekið 2–4 mánuði fyrir lögregluna að klára rannsóknina og ákveða hvort málið verði sent áfram til saksóknara.

Sum mál taka lengri tíma en önnur. Það þýðir samt ekki að lögreglan sé ekki að vinna vinnuna sína heldur fer það eftir því hversu flókið málið er.