Tilkynning til lögreglu
Oft er lögreglan kölluð á staðinn vegna heimilisofbeldis. Stundum hefur einhver á heimilinu hringt eða einhver annar hefur látið lögregluna vita. Þegar lögreglan sér að það sé heimilisofbeldi í gangi kallar hún á sérstaka rannsóknarlögreglu.
Í gegnum þetta ferli er mikilvægt að þú hafir einhvern fullorðinn með þér sem þú treystir, annan en gerandann (sá sem beitti ofbeldinu). Sú manneskja er í samskiptum við réttargæslumann og aðra í réttarkerfinu, það er aldrei talað við gerandann um þín mál. Til dæmis:
- hitt foreldri þitt
- forsjáraðili (eins og fósturforeldri eða annar sem er með forsjá yfir þér)
- manneskja frá barnavernd
Stuðningur á staðnum
- Þegar barn býr á heimilinu eða er tengt því lætur lögreglan barnavernd vita. Þá kemur starfsmaður frá barnavernd til að passa upp á þig og aðstoða fjölskylduna.
- Ef þú eða einhver á heimilinu eruð ekki góð í íslensku eða ensku kemur túlkur til að aðstoða. Fjölskyldumeðlimir mega ekki túlka fyrir hvorn annan.
- Ef einhver þarf að fara á spítala getur lögreglan keyrt manneskjuna þangað.
Öryggi
Oft er manneskjan sem beitti ofbeldinu fjarlægð af heimilinu í nokkra klukkutíma eða jafnvel sólarhring. Barnavernd getur beðið lögregluna um að vísa gerandanum af heimilinu í nokkrar vikur eða bannað honum að nálgast þig og aðra heimilinu til að vernda ykkur fyrir áreitni, hótunum og ofbeldi.
Skriflegt samkomulag
Fyrst gerir lögreglan oftast skriflegt samkomulag við gerandann um að halda sig frá heimilinu. Þetta er gert þegar gerandinn:
- hefur ekki beitt ofbeldi áður og talið er að hann muni hlýða fyrirmælum
- hefur ekki fengið áður á sig nálgunarbann eða brottvísun af heimili
Brottvísun af heimili
Manneskjunni er vísað af heimilinu og bannað að koma þangað aftur í ákveðinn tíma. Hámarkstími er 4 vikur.
Nálgunarbann
Manneskjunni er bannað að koma á tiltekin svæði, reyna að hafa samband við þig og veita þér eftirför. Hámarkstími er 1 ár en er þó oftast styttri.