Fer málið fyrir dóm?

Þegar rannsókn lögreglu er búin er ákveðið hvort það sé ákært í málinu og það fari fyrir dóm eða það fellt niður.

Kona er hugsi og spurningarmerki í ljósaperum eru í kring um hana.

Hjá saksóknara

Ef lögreglan sendir málið áfram til saksóknara er það skoðað aftur mjög vel. Saksóknari ákveður svo hvort sá sem er sakaður um ofbeldi (gerandinn) verði ákærður eða ekki.

Hvað gerist ef gerandinn er ákærður?

Gerandinn þarf að mæta fyrir dóm og segja hvort hann sé sekur eða saklaus. Þetta kallast „þingfesting“. Þá fær dómsmálið númer sem er hægt að nota til að fylgjast með málinu á vef héraðsdóms. Þú þarft ekki að mæta í þingfestinguna heldur mætir réttargæslumaðurinn þinn.

  • Ef hann segist vera sekur (viðurkennir að hafa beitt ofbeldi) ákveður dómarinn hvaða refsingu hann fær.
  • Ef hann segist vera saklaus þá fara fram réttarhöld þar sem málið er skoðað enn betur. Þetta er kallað „aðalmeðferð“ og fer fram í dómsal.

Hvað gerist eftir aðalmeðferð?

Þegar aðalmeðferðinni er lokið ákveður dómarinn hvort það sé sannað að gerandinn sé sekur eða ekki.

  • Ef það er sannað fær hann dóm og refsingu.
  • Ef það er ekki sannað er hann talinn saklaus.

Hvar er aðalmeðferðin?

Það eru 8 mismunandi staðir á landinu þar sem aðalmeðferð getur farið fram. Oftast er hún haldin þar sem er næst heimili gerandans.

Málið fellt niður

Ef það hefur ekki náðst að safna nægum gögnum um málið þitt ákveður saksóknari að gefa ekki út ákæru. Þá er málið fellt niður.

Þetta þýðir ekki að ofbeldið hafi ekki gerst. Réttarkerfið (lögregla, ákæruvald og dómstólar) má bara horfa á sönnunargögnin og getur ekki tekið neitt annað til greina þegar ákveðið er hvort málið haldi áfram.

Þegar mál er fellt niður er farið yfir ástæðurnar með foreldri þínu sem er ekki gerandi (eða forsjáraðilum) og réttargæslumanninum.

Niðurfelling kærð til ríkissaksóknara

Það er hægt að kæra það að málið hafi verið fellt niður. Þá ræða foreldrar þínir eða forsjáraðilar við réttargæslumanninn þinn um það.

Að fá upplýsingar

Saksóknari hefur samband við réttargæslumanninn sem kemur upplýsingunum um málið áfram til foreldra þinna eða forsjáraðila.

Tímalengd

  • Meðferð málsins hjá lögreglu og ákærusviði tekur venjulega um 2-3 mánuði.
  • Meðferð málsins hjá saksóknara tekur yfirleitt um hálft ár í viðbót.

Þess vegna líða oftast allavega 9 mánuðir frá því að lögreglan byrjar að rannsaka málið og þangað til það kemur í ljós hvort gerandinn verði ákærður eða ekki.