Eftir dóm

Þegar dómur hefur fallið geta alls konar tilfinningar komið upp.

Manneskja krýpur við glugga og vökvar plöntu. Úti er bjartur dagur.

Sýknudómur

Ef gerandi er sýknaður þýðir það að hann er ekki dæmdur sekur. Ástæðan fyrir því er ekki að dómarinn trúi þér ekki. Það þýðir bara að það var ekki hægt að sanna án nokkurs vafa að brotið hafi átt sér stað.

Sakfelling

Ef gerandi er dæmdur sekur er hann sakfelldur. Dómari ákveður hversu lengi einstaklingurinn á að afplána (vera í fangelsi). Lengd afplánunarinnar getur farið eftir ýmsu, meðal annars aldri, fyrri brotum og hversu líklegt sé að hann brjóti af sér aftur.

Afplánun

  • Afplánunartími fyrir heimilisofbeldi er misjafn en það fer eftir alvarleika brotsins.
  • Fæstir afplána dóm að fullu.
  • Dæmd manneskja getur verið frjáls þar til afplánun hefst ef hún hefur ekki verið úrskurðuð í gæsluvarðhald. Það getur tekið tíma þar til hún fær pláss í fangelsi.

Þrepaskipt afplánun

Þegar einhver er dæmdur í fangelsi þýðir það ekki alltaf að hann sé í innilokaður í fangelsi allan tímann. Ef fangi hegðar sér vel og tekur þátt í meðferðum getur hann fengið að afplána refsinguna með vægari öryggisreglum.

Þegar líður á afplánun gæti hann fengið dagsleyfi frá fangelsi, fengið að afplána í opnu fangelsi sem er ekki girt af, farið á áfangaheimili eða fengið ökklaband í rafrænu eftirliti.

Ef hann brýtur reglur á þeim stað sem hann er á, er hægt að senda hann aftur til baka í lokað fangelsi.

Af hverju þessi þrepaskipting?

Refsingin fyrir brot á að vera dómurinn sjálfur. Afplánunin á að endurhæfa fólk til að koma í veg fyrir að það brjóti af sér aftur. Þá þarf að hjálpa fólki að koma aftur út í samfélagið sem betri manneskjur. En það er mjög erfitt að hjálpa fólki að breytast í lokuðu fangelsi.

Hvar er gerandinn?

Foreldri þitt (eða forsjáraðilar) getur haft samband við Fangelsismálastofnun og fengið upplýsingar um afplánun þess sem var dæmdur.

Fyrir suma er gott að vita hvar gerandinn er staddur í afplánuninni og hvort það sé möguleiki á að rekast á hann úti í samfélaginu. Ef gerandinn hefur játað og vill breytast vill kannski fjölskyldan eða einhver úr fjölskyldunni heimsækja hann í fangelsi. Aðrir þolendur vilja ekkert vita um þetta og það er líka allt í lagi.

Öryggi

Ef gerandinn var dæmdur saklaus eða sekur og er kominn út úr fangelsi og er að áreita þig eða hóta ofbeldi er hægt að biðja lögregluna um að setja nálgunarbann á hann. Lesa meira um nálgunarbann.

Hvað tekur við núna?

Þó að máli þínu sé lokið í réttarkerfinu munt þú líklegast þurfa að eiga við afleiðingar þess í einhvern tíma. Barnavernd sér um að þú fáir viðeigandi áfallameðferð. Það skiptir ekki máli hvar þú býrð á landinu, allir fá sömu þjónustu.

Ráðgjöf fyrir unglinga

Bergið Headspace

Bergið headspace

Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk 12 til 25 ára. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Sjúkt spjall

Nafnlaust netspjall fyrir ungmenni til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.