Mundu að til þess að þú getir verið til staðar fyrir aðra, þá þarftu fyrst að vera til staðar fyrir þig. Hlúðu að þér og leyfðu þér að upplifa þær tilfinningar sem þú hefur.

Grunnurinn

  • Kynntu þér eðlileg viðbrögð barna við áföllum og erfiðum atvikum.
  • Barn þarf góða hvíld, næringu og hreyfingu til þess að takast á við álag.
  • Hlúðu að barninu og leyfðu því að finna að það sé öruggt heima hjá sér.
  • Tryggðu líkamlega og andlega nánd við barnið, bæði þegar kemur að fjölskyldu og vinum.
  • Það besta sem þú getur gert er að ræða við barnið á heiðarlegan og skýran máta.

Leyfðu barninu að tjá sig á sinn hátt

  • Leyfðu barninu að tjá sig á marga vegu, t.d. með leikjum eða listsköpun.
  • Það er fullkomlega eðlilegt ef barnið sviðsetur atburðinn í leik eða teiknar hann. Þannig vinnur barnið úr honum.
  • Byrjaðu á að ræða atvikið við barnið. Ef það vill ekki ræða það, virtu það.
  • Spurðu barnið um hvað það veit um atvikið og hvort það hafi einhverjar sérstakar spurningar til þín.
  • Vertu virkur hlustandi.
  • Láttu spurningar þeirra leiða samtalið. Ekki halda ræður eða þykjast vita allt.
  • Settu orð á þær tilfinningar sem barnið lýsir (kvíði, ótti, áhyggjur, óróleiki, depurð, vanmáttur…)
  • Staðfestu að þær tilfinningar sem barnið finnur séu eðlilegar.
  • Notaðu skýr orð sem hafa ekki margar merkingar. Sem dæmi, ekki nota orðið „sofna“ til að lýsa dauða. Það skapar óvissu og getur valdið því að barnið óttist að sofna eða að aðrir sofni.
  • Vertu viss um að barnið hafi skilið þá hluti sem þú sagðir því.
  • Barnið gæti spurt þig sömu spurninganna aftur og aftur og það er fullkomlega eðlilegt.

Byggðu upp öryggiskennd barnsins

  • Reyndu að viðhalda ró og stöðugleika á heimilinu.
  • Vertu vakandi fyrir því ef barnið hefur spurningar eða vill tjá sig.
  • Vertu til staðar og ekki pirrast ef barnið þarf á meiri nánd eða snertingu en vanalega.
  • Haltu daglegum rútínum. Það að geta gengið að því hvenær matartími er og hvað er ætlast til af barninu heima hjálpar því að finna fyrir öryggi.
  • Leyfðu barninu að taka vissar ákvarðanir sjálft. Ef það til dæmis vill ekki fara í veislu, leyfðu því þá að vera heima.
  • Skipuleggðu tíma fyrir þig og barnið, og aðra, til að leika, spila og vera saman.
  • Bentu barninu á að það geti alltaf komið til þín með áhyggjur sínar.

Verndaðu barnið frá áreiti

  • Mikilvægt er að bregðast við atburðum af yfirvegun.
  • Reyndu eftir bestu getu að halda ró, þó að þínar tilfinningar séu jafn eðlilegar og þeirra. Sterk viðbrögð geta ýtt undir öryggisleysi, ótta og vanmátt barnsins.
  • Muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Samtöl fullorðinna um fréttir og atburði verða oft fljótt ýkt og fólk á það til að mála skrattann á vegginn. Börn græða ekkert á að heyra svoleiðis tal.
  • Stoppum umræður sem ala á ótta og fordómum. Ef fullorðnir tala um að einhver hópur sé hættulegur þá er varla hægt að vera hissa á að ungmenni óttist hann. Ungmenni mega vita af hættum en þær þurfa að vera byggðar á raunveruleika, ekki fordómum.
  • Börn mega að vera upplýst um gang mála en þurfa ekki að heyra endalaust tal um málin. Samtal um stríð erlendis er sjálfsagður hlutur en barn þarf ekki að heyra umræður um það aftur og aftur.

Fáðu aðstoð

Ekki óttast það að fá aðstoð, við þurfum hana öll á einhverjum tímapunkti.

Að fá aðstoð frá sálfræðingi eða geðlækni þýðir ekki að um geðröskun eða andleg veikindi sé að ræða.

Að fá aðstoð frá Barnavernd segir að þú sért forsjármanneskja sem vill hjálpa barninu þínu, ekki að þú hafir brugðist því.

Hægt er að ræða um hlutina 1717 spjallið opið allan sólarhringinn.

Ef barnið er á skólaaldri, þá eru flestir grunnskólar og framhaldsskólar með sálfræðing sem hægt er að ræða við. Einnig er hægt að ræða við kennara, námsráðgjafa og aðra í skólum sem geta veitt stuðning eða beint þér áfram.

Heilsugæslur bjóða einnig upp á ráðgjöf og sálfræðiþjónustu fyrir börn.

Félagsþjónusta sveitarfélagana og barnaverndarnefndir aðstoða og styðja við fjölskyldur.

Rauði Krossinn hefur bæklinga með góðum upplýsingum.

Hér fyrir neðan eru meiri upplýsingar um úrræði sem hægt er að leita til.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Heilsugæslan

Á heilsugæslunni starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og sálfræðingar sem geta hjálpað þér.

Manneskja leiðir aðra manneskju í gegnum stóra gátt inn í bjartan himinn.

Félagsþjónusta sveitar­félaganna

Félags- og velferðarþjónustur sveitarfélaganna veita fjölbreyttan stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Þar er hægt að fá stuðning vegna ofbeldis.

Foreldrahús

Foreldrahús veitir börnum, unglingum og foreldrum ráðgjöf, meðal annars vegna áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga, áhættuhegðunar og hegðunarvanda. Foreldrasíminn 581 1799 er opinn allan sólarhringinn.

Kynntu þér eðlileg viðbrögð barna við áföllum og erfiðum atvikum