Allir sýna einhver viðbrögð eftir erfið atvik og atburði eins og ofbeldi, slys, náttúruhamfarir og annað slíkt.

Börn geta átt erfitt með að vinna úr áföllum þar sem þau hafa ekki sömu getu, tækifæri og skilning og fullorðnir hafa. Börn finna oft fyrir miklu öryggisleysi og óvissu eftir áföll. Því er mikilvægt að þau hafi einhvern fullorðinn til að tala við sem getur svarað spurningum sem koma upp og tengt orð við tilfinningarnar sem þau eru að finna.

Fullorðnir í lífi barnsins þurfa einnig að hjálpast við að veita barninu nánd og leyfa því að finna fyrir öryggi.

Lesa um hvað fullorðnir geta gert til að hjálpa börnum eftir áföll

Hvað er áfall?

Áfall eru sterk streituviðbrögð við óvæntum atburði. Atburðurinn getur verið nánast hvað sem er: slys, náttúruhamfarir, ofbeldi, andlát, morð, skilnaður, framhjáhald, og svo framvegis.

Einstaklingur þarf ekki að hafa verið hluti af atburðinum til þess að verða fyrir áfalli út af honum.

Þegar erfitt atvik gerist þá getur verið nóg fyrir barn að uppgötva að það getur gerst til þess að það fái áfallsviðbrögð yfir því.

Eðlileg viðbrögð barna

Viðbrögð barna við áföllum og erfiðum atvikum geta verið mismunandi en samt sem áður fullkomlega eðlileg. Ekki er þörf að hafa áhyggjur af því að langtímavandamál verði í flestum tilvikum.

Hægt er að flokka viðbrögðin sem líkamleg, vitsmunaleg, tilfinningaleg og hegðunarleg.

Líkamleg viðbrögð:

  • Þreyta og lítil orka, þó barnið fái nægan svefn.
  • Erfiðleikar með að sofna eða að halda svefni.
  • Martraðir eða myrkfælni.
  • Höfuðverkur, magaverkur eða almenn flensueinkenni.
  • Lystarleysi.

Vitsmunaleg viðbrögð:

  • Vandamál með einbeitingu og ákvarðanatöku.
  • Vandamál með minni.
  • Finnast þau vera ringluð.
  • Stöðugar hugsanir um atvikið og afleiðingar þess.
  • Breyting á trúarlegum eða persónulegum skoðunum.

Tilfinningaleg viðbrögð:

  • Stöðugur ótti og áhyggjur.
  • Mikil sorg.
  • Skapsveiflur eins og reiði og pirringur, oft yfir litlu sem engu.
  • Miklar tilfinningar um öryggisleysi, hjálparleysi og valdleysi.
  • Sektarkennd.

Hegðunarleg viðbrögð:

  • Einangrun frá öðru fólki.
  • Aukið áhorf, tölvuleikjanotkun eða álíka til að dreifa huganum.
  • Einkenni ofvirkni, vandvirkni eða doða.
  • Forðun, eins og að forðast staði og hluti sem minna á atvikið.

Afturhvarf

  • Barnið fer aftur í þroska.
  • Byrjar aftur hegðun sem er kannski löngu hætt (eins og að sjúga þumal eða væta rúmið).
  • Börn sem voru alltaf úti með vinum eru farin að vera meira heima (þar sem þeim finnst þau örugg).
  • Mikilvægt er að muna að börnin eru ekki að reyna að haga sér barnalega heldur er kvíði að stjórna henni.

Hvenær þarf að fá faglega aðstoð?

Í flestum tilvikum lagast ástandið af sjálfu sér ef barnið fær góðan stuðning frá fjölskyldu og vinum. Stundum þarf barnið meiri aðstoð. Ef viðbrögðin eru farin að endast í margar vikur eða versna með tímanum þá getur verið tími til að ræða við sérfræðing.

Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um hvenær rétt er að hafa samband við fagaðila.

  • Langvarandi breyting á svefnvenjum og matarvenjum, sem er hugsanlega orðin að átröskun.
  • Langvarandi magaverkir eða höfuðverkir sem hafa ekki læknisfræðilega útskýringu.
  • Alvarleg breyting á námsárangri og mikið áhugaleysi um skólastarf og frístundir.
  • Tíðar og öfgafullar skapbreytingar.
  • Sterk tilfinningaleg viðbrögð miðað við aðstæður.
  • Langvarandi sorg, þunglyndi, kvíði og ótti.
  • Kvíðaköst.
  • Miklar hegðunarbreytingar.
  • Aukin árásargirni.
  • Mikil afturför í þroska.
  • Tal um sjálfsskaða, dauða eða vonleysi.
  • Áfengis- eða lyfjavandamál.
  • Áhættuhegðun (sem setur líf barnsins í hættu).

Það að tala við fagaðila þýðir ekki að barnið verði greint með geðröskun, að það muni eiga við langvarandi vandamál að stríða eða að forsjáraðilar hafi brugðist barninu. Við getum lagað ótal margt í lífi okkar sjálf en stundum þurfum við sérfræðing til að kíkja á tölvuna eða bílinn, það á líka við um okkur.

Það að tala við ótengdan aðila um erfið atvik eða tilfinningar sínar er hollt og getur hjálpað við að skilja hlutina betur og sjá þá frá öðru sjónarhorni.

Viðbrögð eftir aldri

Ungbarnaaldur 0-2 ára

  • Hafa ekki orðaforða eða getu til að tala um tilfinningar sínar.
  • Geta tengt hljóð, lykt, myndræna hluti eða annað við atburðinn.
  • Eðlileg viðbrögð eru að vera pirruð, grátur og vilji til að vera í fangi fullorðins.
  • Atvik geta endurspeglast í leik, hugsanlega nokkrum árum eftir atvikið.

Forskólaaldur 2-6 ára

  • Geta fundið fyrir miklum vanmætti, kvíða og hræðslu.
  • Skilja hugsanlega ekki að missir getur verið varanlegur og búast við að hlutir eða fólk komi aftur.
  • Atvik geta endurspeglast í leik, eins og að sviðsetja atburðinn aftur og aftur.

Skólaaldur 6-10 ára

  • Þau geta sett atburðinn í breiðara samhengi og því geta tilfinningar orðið flóknari.
  • Eðlilegar tilfinningar eru til dæmis reiði (yfir að þetta hafi gerst) og samviskubit (að hafa ekki getað komið í veg fyrir þetta).
  • Eru farin að skilja að missir getur verið varanlegur.
  • Verða oft mjög upptekin af hugsunum um atvikið sem truflar einbeitingu barnsins t.d. í skóla.

Unglingsaldur 11-18 ára

  • Þau geta haft blöndu af viðbrögðum fullorðinna og barna.
  • Ef ungmennið lifði af hættulegar aðstæður gæti það talið sig ódauðlegt og farið að taka áhættur með líf sitt.
  • Neysla á áfengi og vímuefnum getur byrjað eða aukist.
  • Óöryggi og kvíði getur líka valdið því að ungmennið vill vera sem mest heima.

Kynntu þér hvað þú getur gert

Leiðbeiningar og úrræði fyrir fullorðna sem vilja geta hjálpað börnum sem hafa orðið fyrir áföllum og erfiðum atvikum.