Hvenær þarf að fá faglega aðstoð?
Í flestum tilvikum lagast ástandið af sjálfu sér ef barnið fær góðan stuðning frá fjölskyldu og vinum. Stundum þarf barnið meiri aðstoð. Ef viðbrögðin eru farin að endast í margar vikur eða versna með tímanum þá getur verið tími til að ræða við sérfræðing.
Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um hvenær rétt er að hafa samband við fagaðila.
- Langvarandi breyting á svefnvenjum og matarvenjum, sem er hugsanlega orðin að átröskun.
- Langvarandi magaverkir eða höfuðverkir sem hafa ekki læknisfræðilega útskýringu.
- Alvarleg breyting á námsárangri og mikið áhugaleysi um skólastarf og frístundir.
- Tíðar og öfgafullar skapbreytingar.
- Sterk tilfinningaleg viðbrögð miðað við aðstæður.
- Langvarandi sorg, þunglyndi, kvíði og ótti.
- Kvíðaköst.
- Miklar hegðunarbreytingar.
- Aukin árásargirni.
- Mikil afturför í þroska.
- Tal um sjálfsskaða, dauða eða vonleysi.
- Áfengis- eða lyfjavandamál.
- Áhættuhegðun (sem setur líf barnsins í hættu).
Það að tala við fagaðila þýðir ekki að barnið verði greint með geðröskun, að það muni eiga við langvarandi vandamál að stríða eða að forsjáraðilar hafi brugðist barninu. Við getum lagað ótal margt í lífi okkar sjálf en stundum þurfum við sérfræðing til að kíkja á tölvuna eða bílinn, það á líka við um okkur.
Það að tala við ótengdan aðila um erfið atvik eða tilfinningar sínar er hollt og getur hjálpað við að skilja hlutina betur og sjá þá frá öðru sjónarhorni.