Ofbeldi með stafrænni tækni
Það er stafrænt ofbeldi þegar ofbeldi er beitt gegnum síma, tölvu eða samfélagsmiðla (eins og TikTok, Facebook, Twitter, Instagram eða Snapchat). Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum, tölvupósti eða gegnum samfélagsmiðil. Það er líka stafrænt ofbeldi ef einhver er að fylgjast með hvað þú gerir í símanum þínum og hvað þú gerir á netinu. Þú átt rétt á þínu einkalífi!
Stafrænt ofbeldi getur verið lúmskt. Það eru ýmis hættumerki sem benda til þess að það gæti verið að beita þig stafrænu ofbeldi:
- Maki þinn (eða fyrrverandi) er sífellt að hafa samband og athuga hvar þú ert.
- Viðkomandi heimtar að fá að skoða símann þinn, vita lykilorð þín eða að þú deilir staðsetningu þinni með sér.
- Viðkomandi er alltaf að birtast óvænt á stöðum þar sem þú ert.
- Skilaboðin þín eða myndir hverfa.
- Vinafólk þitt fær skilaboð frá þér sem þú sendir ekki.
- Þú færð tilkynningu um AirTag sé virkt nálægt þér.
Fólk sem verður fyrir stafrænu ofbeldi upplifir oft ótta, reiði, kvíða, þunglyndi og að vera ekki við stjórn á eigin lífi. Fólki finnst það ekki eiga neitt einkalíf, er líklegt til að einangra sig og upplifir hjálparleysi.
Það er stafrænt ofbeldi ef viðkomandi:
- Merkir þig á móðgandi eða niðurlægjandi myndum.
- Hótar að tala illa um þig eða bera út sögur á netinu.
- Stelur eða heimtar að fá lykilorðin þín að tölvupósti, bankareikningi eða samfélagsmiðlum.
- Stjórnar hver má vera vinur þinn á samfélagsmiðlum og við hverja þú mátt tala við þar.
- Skráir sig inn á samfélagsmiðla í þínu nafni.
- Hótar að sýna öðrum nektar- eða kynlífsmyndir af þér.
- Sendir þér nektarmyndir af sér þótt þú vildir það ekki.
- Notar einhverja tækni, eins og GPS, AirTags eða vefmyndavélar, til þess að fylgjast með þér.
Fáðu hjálp
Það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður. Þú getur haft samband við miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis sem sérhæfa sig í stuðningi við ofbeldi (18 ára og eldri). Ráðgjöfin er ókeypis og engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.
Börn og fullorðnir geta líka alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall. Ef þú ert barn eða unglingur og hefur lent í áreiti á netinu, lestu um ráð til að bregðast við.