Góð skemmtun er örugg og ofbeldislaus
Er þín skólaskemmtun góð skemmtun?
Leyfisskyldir viðburðir
Tryggið ykkur nauðsynleg leyfi tímanlega í samræmi við ákvæði laga nr. 85/2007. Gott samstarf við sýslumann, lögreglu og aðra viðbragðsaðila er lykilatriði til að allt gangi vel.
Öryggisáætlun
- Tryggið nægilega öryggisgæslu á skólaskemmtunum, með einn fullorðinn á hverja 20-30 nemendur.
- Þátttaka foreldra í gæslu hefur gefist vel.
- Gæslan ætti að vera vel sýnileg og staðsett við innganga, útganga og salerni, auk þess að fara reglulega um staðinn.
- Gerið öryggisáætlun sem inniheldur meðal annars neyðarútganga, athvörf og viðbrögð við neyðartilvikum.
- Allt starfsfólk skal þekkja öryggisáætlunina og vita hvernig á að bregðast við neyðartilvikum.
Upplýsingar fyrir nemendur og foreldra
- Látið nemendur og foreldra fá skýrar upplýsingar um öryggisatriði og reglur á skólaskemmtunum. Þetta má gera með skilaboðum, skiltum, bæklingum, vefsíðum eða á samfélagsmiðlum skólans og nemendafélagsins.
- Skólaskemmtunum skal ljúka á miðnætti.
- Hvetjið nemendur og foreldra til að skipuleggja örugga leið til og frá skemmtuninni.
Áfengi og önnur vímuefni
- Skýr skilaboð skulu send um að áfengi og önnur vímuefni séu bönnuð á skólaskemmtunum.
- Skólareglur taki fram viðurlög fyrir brot gagnvart öllum nemendum.
- Ef nemandi undir 18 ára mætir undir áhrifum skal hringt í foreldra til að ná í nemanda og málið tilkynnt barnaverndarþjónustu.
- Í framhaldinu skal vísa barni og foreldrum á tengilið farsældar í skólanum til aðstoðar.
Aðgerðir gegn kynferðisbrotum og öðru ofbeldi
- Starfsfólk skal vera þjálfað í að bregðast við kynferðisbrotum og öðru ofbeldi.
- Útbúið vel merkt athvarf þar sem nemendur geta leitað aðstoðar.
- Hvetjið nemendur til að láta vita ef þeir verða fyrir áreiti eða ofbeldi.
- Við eigum öll að vera vakandi gagnvart þeim sem virða ekki mörk.
Aðgengi og aðstaða
- Skemmtunin skal vera aðgengileg fyrir öll, þar á meðal nemendur með hreyfihömlun.
- Næg salernisaðstaða og drykkjarvatn skal vera til staðar.
- Salerni eiga að vera vel lýst og reglulega hreinsuð.
Brot á reglum
- Skýrar reglur skulu vera í gildi um hvernig bregðast skal við brotum á skólareglum.
- Ef nemandi undir 18 ára brýtur reglur skal haft samband við foreldra, barnaverndarþjónustu og lögreglu ef þörf krefur.
Ábyrg hegðun á samfélagsmiðlum.
Hvetjið til ábyrgðar við deilingu á samfélagsmiðlum til að fyrirbyggja neteinelti eða dreifingu á óviðeigandi efni.
Allir nemendur eiga að vera með 112 appið í símanum og nota netspjall 112 eða hringja í 112 í neyð.