Menningin og samfélagið
Rasismi, kynferðisofbeldi, ofbeldi gegn hinsegin fólki og margt annað er meðal þessa dulda ofbeldis. Það er meðal annars vegna þessa sem ofbeldi gagnvart sumum hópum hefur þrifist á öllum stigum samfélagsins. Orðið nauðgunarmenning (rape culture) er eitt þeirra hugtaka sem notað er til að skilja þetta. Nauðgunarmenning er gjarna sett upp í píramída til að skýra tengingu milli ómeðvitaðra viðhorfa og áreitni eða ofbeldi.
Fordómar og gildi sem oft eru ómeðvituð sett fram eru grunnurinn að píramídanum: það sem viðheldur nauðgunarmenningunni í samfélagi. Þetta geta verið fordómar í garð útlendinga, litaðra eða kvenfyrirlitning. Í miðjunni er tal sem gerir lítið úr alvarleika ofbeldis og áreitni. Dæmi um það geta verið brandarar sem snúast um nauðgun. Allt sem lætur okkur upplifa að ofbeldi, áreitni eða einelti sé eðlilegur hluti af menningunni okkar. Efst í píramídanum er svo áreitnin og ofbeldið sem þrífst í þessari menningu.
Forvarnir sem breyta menningunni
Í gegnum árin hefur kynferðisofbeldi verið eitt af því sem þaggað er niður og í þögninni hefur það fengið að þrífast. Ein þeirra leiða sem við höfum í forvörnum er samstillt átak samfélagsins til að bregðast við þegar við verðum vitni að kynferðisofbeldi eða áreitni – að þegja ekki lengur.
Píramídinn hjálpar okkur við að ákveða hvar við viljum bregðast við. Flest fólk er sennilega á þeirri skoðun að það myndi bregðast við er það yrði vitni að kynferðisofbeldi (efsti hluti píramídans). Að sjálfsögðu ætti allt fólk líka að bregðast við því, að stoppa það. Það verður þó aldrei meira en skaðaminnkun, þar sem ofbeldið er þegar að eiga sér stað á þeim tímapunkti. Til að geta sagt að við séum raunverulega að vinna að forvörnum gegn kynbundu ofbeldi er mikilvægt að skoða leiðirnar til að koma í veg fyrir ofbeldi áður en það gerist.
Hugmyndin að hægt sé að koma í veg fyrir ofbeldi löngu áður en það á sér stað flækist oft fyrir okkur. Það er snúið að grípa inní þegar vinir eða fjölskylda, ókunnugir eða samstarfsfólk okkar sýna fordóma eða viðhorf sem okkur þykja ekki í lagi. Okkur finnst við ekki bera ábyrgð á gjörðum annarra og látum óátalið eða jafnvel tökum þátt í gríni sem við vitum að lýsir kvenfyrirlitningu.
Það er rétt við berum ekki ábyrgð á því sem aðrir gera. Það er hinsvegar staðreynd að fólk sem beitir kynferðisofbeldi notar þessi viðhorf sem átyllu fyrir sínum gjörðum. Með því að bregðast við „litlu" hlutunum líka getur þú tekið þátt í að minnka það svigrúm sem gerendur ofbeldis hafa. Tekið af þeim afsökunina. Breytt menningunni til hins betra svo öll geti skemmt sér vel.