Afleiðingar á lífsstíl og sambönd
Þegar fólk veltir fyrir sér mögulegum afleiðingum hegðunar sinnar er það oft í sambandi við handtöku og afplánun í fangelsi en ekki eins mikið um áhrif á sambönd og á aðra þætti í lífinu.
Áhrif á sambönd
Hvernig mun maka þínum, börnum og foreldrum líða ef þau komast að því að þú hafir stundað ólöglega eða óviðeigandi kynferðislega hegðun á netinu? Hvernig sérðu fyrir þér að segja fjölskyldu þinni frá því sem þú hefur verið að gera? Hvað mun þeim finnast um það ef þú skyndilega flytur af heimilinu án skýringar?
Sumir einstaklingar í þinni stöðu eru heppnir þar sem fjölskyldumeðlimir og vinir styðja þá í gegnum ferlið. Aðrir eru því miður ekki svo heppnir. Enginn getur spáð fyrir um viðbrögð annarra. Ert þú til í að taka þá áhættu eða viltu leita þér aðstoðar núna?
Fjölmiðlaumfjöllun
Það gæti verið að fjallað verði um málið þitt í fjölmiðlum. Það er mikilvægt er að vita um þann möguleika og hvaða áhrif það getur haft á þig, börnin þín, maka og aðra í fjölskyldunni.
Fjármál
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hegðun þín hefur ekki eingöngu áhrif á þína atvinnu heldur getur það einnig haft áhrif á atvinnu annarra í fjölskyldunni.
Ef þú starfar með börnum
Ef vinnan þín felur í sér mikil samskipti við börn, til dæmis ef þú ert grunnskólakennari eða læknir, þá verður þú að hætta strax í þeirri vinnu. Í skýrslutöku hjá lögreglu er spurt um atvinnu þína og jafnvel óskað eftir að þú segir strax af þér. Einnig gætirðu þurft að upplýsa atvinnurekendur um hegðun þína.
Ef þú starfar ekki með börnum
Ef þú ert undir rannsókn lögreglu þarftu að skoða ráðningarsamninginn þinn. Í sumum ráðningarsamningum er gerð krafa um að starfsmenn upplýsi yfirmenn ef lögreglan hefur haft afskipti af þeim vegna afbrotahegðunar.
Að upplýsa yfirmenn eða atvinnurekendur um hegðun þína þýðir ekki endilega að þú missir vinnuna. Sumir atvinnurekendur gefa fólki tækifæri á því að halda áfram að starfa. Engu að síður er mikilvægt að undirbúa sig undir það að óskað verði eftir því að maður segi upp.
Atvinnuleit í framtíðinni
Ef þú ert sakfelldur fyrir hegðun þína getur það hamlað atvinnuleit þinni í framtíðinni. Einhver störf munt þú ekki geta sótt um, eins og að vinna með börnum eða öðrum viðkvæmum hópum. Þetta getur einnig haft áhrif ef þú hefur áhuga á að kenna fullorðnum.
Þegar þú sækir um ákveðin störf er óskað eftir sakavottorði. Hafðu í huga að það er ólöglegt að gefa rangar upplýsingar um sakaferil sinn.
Aðrar afleiðingar
Margir nefna einnig að neikvæð áhrif og afleiðingar hafi komið fram löngu fyrir afskipti lögreglunnar. Þar má nefna:
- Hegðunin á netinu er farin að hafa áhrif á samskiptin við maka. Kynferðislega eða tilfinningalega.
- Neikvæðar tilfinningar eða tilfinningadoði eftir netnotkun hefur neikvæð áhrif á samskipti, til dæmis pirringur eða stuttur þráður.
- Þú færð ekki næga hvíld vegna tímans sem þú eyðir á netinu á hverju kvöldi. Það hefur síðan áhrif á frammistöðuna í vinnunni.