Hlutverk, gildi og framtíðarsýn

Hlutverk Neyðarlínunnar er að veita fyrsta flokks neyðaröryggisþjónustu og stuðla þannig að því að mannslífum sé bjargað og umhverfi, eignir og mannvirki séu varin fyrir skakkaföllum. Þar með er dregið úr afleiðingum slysa og náttúruhamfara.

Framtíðarsýn Neyðarlínunnar er að vera leiðandi fyrirtæki á sviði neyðar- og öryggisþjónustu. Neyðarlínan leggur metnað sinn í að vera með hæft og vel þjálfað starfsfólk. Fyrirtækið notar og byggir upp besta tæknibúnað og innviði sem völ er á hverju sinni. Þannig getur Neyðarlínan skarað fram úr og verið viðmið annarra fyrirtækja á þessu sviði.

Gildi Neyðarlínunnar eru hjálpsemi, viðbragðsflýtir og fagmennska, sem endurspegla vel þá menningu og verklag sem tíðkast hjá Neyðarlínunni.

Hjálpsemi

  • Hjálpsemi felur í sér alla þá mögulegu aðstoð (þjónustu) sem hægt er að veita viðskiptavinum fyrirtækisins.
  • Í henni felst þolinmæði og frumkvæði.
  • Í hjálpsemi felst einnig samstarf og aðstoð við vinnufélaga og samstarfsaðila.

Viðbragðsflýtir

  • Viðbragðsflýtir felur í sér hröð og örugg viðbrögð gagnvart samstarfsaðilum, vinnufélögum og viðskiptavinum.

Fagmennska

  • Með fagmennsku er átt við fagleg vinnubrögð gagnvart viðskiptavinum, samstarfsaðilum og vinnufélögum.
  • Fagleg vinnubrögð byggja á að farið sé eftir starfsáætlunum og settum ferlum.
  • Í fagmennsku felast gæði sem öllu starfsfólki ber að halda í heiðri við vinnu sína.

Samstarfsaðilar

Neyðarlínan gegnir mikilvægu hlutverki sem tengiliður milli hinna ýmsu aðila í neyðar- og viðbragðsþjónustu. Reynsla og þekking Neyðarlínunnar á þessu sviði hefur skapað víðfemt tengslanet sem nær frá neyðarsveitum til öryggisgæslufyrirtækja til verktakafyrirtækja. Það traust sem Neyðarlínan hefur áunnið í gegnum tíðina hefur gert fyrirtækinu mögulegt að stækka og vaxa í samstarfi við sífellt fleiri fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök.

Verkefni Neyðarlínunnar

Svörun og boðun

  • 112 samræmd neyðarsvörun.
  • Aðkoma að leitar- og björgunaraðgerðum.
  • Boðun viðbragðsaðila vegna slysa, ofbeldis, mansals og misgjörða.
  • Vöktunarþjónusta.

Fjarskipti

  • Rekstur Tetra neyðar- og öryggisfjarskiptakerfa.
  • Rekstur Vaktstöðvar siglinga
  • Rekstur aðstöðu fyrir ýmis fjarskipti.
  • Rekstur löggæslumyndavéla.
  • Alþjónusta, fjarskipti utan markaðssvæða.

Markmið

  • Að veita viðskiptavinum öfluga fyrsta flokks þjónustu.
  • Að njóta trausts almennings.
  • Að hafa á að skipa vel þjálfuðu, menntuðu og ánægðu starfsfólki.
  • Að innra starf fyrirtækisins sé skilvirkt.
  • Að eiga góð samskipti við viðbragsaðila.

Meginstoðir

Fólkið er fyrsta meginstoð Neyðarlínunnar. Undir hana fellur starfsmannastefna Neyðarlínunnar, þar með talið allt sem lýtur að starfsfólki eða stjórn Neyðarlínunnar. Markmið Neyðarlínunnar er að vera traustur vinnustaður þar sem þjónustuvilji og skjót viðbrögð fara saman. Neyðarlínan leggur áherslu á að framúrskarandi starfsfólk starfi hjá fyrirtækinu og fái fyrir það samkeppnishæf laun. Áhersla er lögð á að starfsfólk nýti eigin hæfileika til að þroskast í starfi og geti þannig tekist á við nýjar áskoranir.

Hvað gerir góðan neyðarvörð?

Neyðarverðir tala við fólk sem er kannski að hringja mikilvægasta símtal á ævi sinni. Þetta starf er krefjandi og hentar ekki hverjum er. Maður þarf að hafa áhuga á fólki en samt ekki of mikinn. Segja má að það þurfi ákveðið kæruleysi, í neyð þarf að taka stöðuna ákveðið, tala yfirvegað við fólk og senda viðeigandi hjálp á sem stystum tíma.

Öryggi er önnur meginstoðin. Þar undir falla stefnur í gæða-, áhættu- og öryggismálum. Neyðarlínan leggur áherslu á að verja allar upplýsingar fyrir innri og ytri ógnum. Eins að tryggja að gæði þjónustu fyrirtækisins séu í samræmi við lögbundið hlutverk Neyðarlínunnar og að tryggja að félagið geti sinnt lögbundnum verkefnum þannig að öryggi starfsfólks, viðskiptavina og búnaðar fyrirtæksins sé tryggt.

Umhverfi er þriðja stoðin. Til hennar teljast stefnur í samfélags- umhverfis- og innkaupamálum. Neyðarlínan vinnur eftir umhverfistefnu og leggur áherslu á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi Neyðarlínunnar. Flokkun rusls er hluti af daglegum störfum og starfsmenn fá styrki frá fyrirtækinu þegar þeir ferðast á umhverfisvænan hátt til og frá vinnu.

Skipurit og stjórn

Eigandi Neyðarlínunnar er Ríkissjóður Íslands.

Stjórn Neyðarlínunnar

  • Guðmundur Axel Hansen, Fjármála- og efnahagsráðuneyti - formaður
  • Ingilín Kristmannsdóttir, Innviðaráðuneyti
  • Ragna Bjarnadóttir, Dómsmálaráðuneyti
  • Runólfur Birgir Leifsson, Heilbrigðisráðuneyti
  • Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Ríkislögreglustjóri
  • Kristinn Jónasson, Fjármála- og efnahagsráðuneyti - varamaður

Skipurit

Skipurit Neyðarlínunnar.

Saga Neyðarlínunnar

Neyðarlínan ohf. var stofnuð í október 1995 og hóf neyðarsímsvörun í síma 112 þann 1. janúar 1996. Rekstur neyðarnúmersins 112 og tengdrar þjónustu eru enn meginviðfangsefni fyrirtækisins. Neyðarlínan annaðist einnig rekstur stjórnstöðvar Securitas frá sama tíma og þar til í október 2008.

Haustið 2006 stofnaði Neyðarlínan (25%) ásamt ríkinu (75%) fjarskiptafyrirtækið Öryggisfjarskipti ehf. sem á og rekur Tetra fjarskiptakerfið.

Samkvæmt þjónustusamningi við Siglingastofnun Íslands sem undirritaður var 1. júní 2004 tók Neyðarlínan að sér rekstur Vakstöðvar siglinga sem áður var Tilkynningarskyldan og Fjarskiptastöðin í Gufunesi. Þar með er öll öryggisþjónusta við sjófarendur veitt á einum stað.