Málið er sent aftur til rannsóknar
Þegar ákærandi fær málið til meðferðar gengur hann úr skugga um að rannsókn sé lokið. Ef hann telur að rannsaka þurfi málið betur getur hann sent það aftur í frekari rannsókn.
Þegar ákærandi telur málið fullrannsakað metur hann hvort nægileg gögn séu til staðar og hvort líklegt sé að gerandinn verði sakfelldur. Sé það raunin, gefur hann út ákæru.
Málið fellt niður
Ef sakfelling er ólíkleg er málið fellt niður. Þegar ákveðið er hvort ákæra verði gefin út er haft í huga að það sé ekki þér í hag að halda áfram með málið ef ólíklegt er að sanna sök gerandans. Ákærandi tilkynnir þér ef þetta gerist og þú getur óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.
Þetta þýðir ekki að ofbeldið hafi ekki átt sér stað – alls ekki. Hlutverk réttarkerfisins (lögreglu, ákæruvalds og dómstóla) er að meta þau gögn sem liggja fyrir og hvort hægt sé að sanna þau fyrir dómi. Þessar stofnanir mega einfaldlega ekki túlka atvik máls út frá neinu öðru.
Kæra niðurfellingu máls
Ef ákæruvaldið vísar kæru frá, hættir rannsókn eða fellur niður mál geturðu kært ákvörðunina til ríkissaksóknara.
Ríkissaksóknari fer þá aftur yfir gögn málsins innan þriggja mánaða frá því að kæran berst embættinu. Hann getur annað hvort fellt ákvörðunina úr gildi eða staðfest hana.