Ákært eða fellt niður?

Þegar málið berst ákæruvaldi er tekin ákvörðun um hvort skuli ákært í málinu eða það fellt niður.

Hendur halda á opinni bók

Ákvörðun um ákæru

Að lokinni rannsókn er mál sent ákæranda sem metur hvort ákæra verði gefin út og málið fari fyrir dómstóla.

Ákærandi

Ákærandi er sá sem höfðar mál á hendur aðila vegna lögbrots. Ákæruvaldið er í höndum ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra.

Það fer eftir eðli málsins hver fer með ákæruvaldið í þínu máli.

Málið er sent aftur til rannsóknar

Þegar ákærandi fær málið til meðferðar gengur hann úr skugga um að rannsókn sé lokið. Ef hann telur að rannsaka þurfi málið betur getur hann sent það aftur í frekari rannsókn.

Þegar ákærandi telur málið fullrannsakað metur hann hvort nægileg gögn séu til staðar og hvort líklegt sé að gerandinn verði sakfelldur. Sé það raunin, gefur hann út ákæru.

Málið fellt niður

Ef sakfelling er ólíkleg er málið fellt niður. Þegar ákveðið er hvort ákæra verði gefin út er haft í huga að það sé ekki þér í hag að halda áfram með málið ef ólíklegt er að sanna sök gerandans. Ákærandi tilkynnir þér ef þetta gerist og þú getur óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.

Þetta þýðir ekki að ofbeldið hafi ekki átt sér stað – alls ekki. Hlutverk réttarkerfisins (lögreglu, ákæruvalds og dómstóla) er að meta þau gögn sem liggja fyrir og hvort hægt sé að sanna þau fyrir dómi. Þessar stofnanir mega einfaldlega ekki túlka atvik máls út frá neinu öðru.

Kæra niðurfellingu máls

Ef ákæruvaldið vísar kæru frá, hættir rannsókn eða fellur niður mál geturðu kært ákvörðunina til ríkissaksóknara.

Ríkissaksóknari fer þá aftur yfir gögn málsins innan þriggja mánaða frá því að kæran berst embættinu. Hann getur annað hvort fellt ákvörðunina úr gildi eða staðfest hana.

Ákæra gefin út

Hvað er ákært fyrir?

Það getur komið þér á óvart hvað ákveðið er að ákæra gerandann fyrir. Það fer eftir lagaákvæðum og hvað ákæruvaldið telur hægt að sanna fyrir dómi.

Sakborningur verður ákærði

Gerandi er kallaður „sakborningur“ frá upphafi rannsóknar en kallast „ákærði“ ef málið fer fyrir dóm.

Upplýsingagjöf

Upplýsingar berast til þín með mismunandi hætti eftir því hvort málið er hjá lögreglunni eða hjá héraðssaksóknara.

Upplýsingar frá ákærusviði lögreglu

Tilkynningar frá ákærusviði lögreglunnar um hvort málið hafi verið sent áfram, sent aftur til rannsóknar eða rannsókn felld niður berast þér og réttargæslumanninum þínum á Mínum síðum á Ísland.is.

Upplýsingar frá héraðssaksóknara

Héraðssaksóknari hefur samband við réttargæslumanninn þinn en ekki þig persónulega. Ef ákæra er gefin út berst tilkynning til réttargæslumannsins sem kemur upplýsingunum áfram til þín.

Ef málið þitt er fellt niður er farið yfir ástæðurnar þar að baki með þér og réttargæslumanninum þínum.

Bataferli eftir ofbeldi í nánu sambandi tekur langan tíma og leiðin í gegnum réttarkerfið getur tekið 1–2 ár. Þolendamiðstöðvar geta bent á ýmsar leiðir til að auðvelda bataferlið.

Tímalengd

Meðferð málsins hjá lögreglu, á rannsóknarsviði og ákærusviði, tekur venjulega um 2–3 mánuði. Meðferð málsins hjá héraðssaksóknara tekur svo yfirleitt um hálft ár í viðbót. Það er því algengt að það hafi liðið um 9 mánuðir síðan brotið var framið og þar til ákveðið er hvort ákært verður eða ekki.