Bætur til þolenda afbrota

Hið opinbera greiðir skaðabætur til þolenda afbrota.

Þessar bætur eru svokallaðar miskabætur. Krafan um bæturnar er hluti af málinu þínu. Svo sendir réttargæslumaðurinn þinn kröfuna til ríkisins, til sjóðs sem oft er nefndur bótasjóður ríkisins. Þar er beðið um að sjóðurinn ábyrgist greiðslu bótanna. Ríkið innheimtir þá bæturnar hjá geranda. Þannig er hið opinbera milliliður svo að þú þurfir ekki að innheimta bæturnar.

Skilyrði

Þú þarft að hafa kært brotið innan tveggja ára frá því það átti sér stað. Réttargæslumaðurinn þinn getur sagt þér frá fleiri skilyrðum sem eru sett.

Ekki er nauðsynlegt að

  • brotið hafi farið fyrir dóm eða endað með sakfellingu, þú getur átt rétt á bótum þó málið sé látið niður falla
  • gerandi sé kunnur, þú getur átt rétt á bótum þó gerandi sé látinn eða dvalarstaður hans óþekktur
  • gerandi sé sakhæfur, þú getur átt rétt á bótum þó gerandi sé ósakhæfur sökum ungs aldurs eða af öðrum ástæðum

Hafir þú orðið fyrir tjóni vegna ofbeldis erlendis þarft þú að snúa þér til yfirvalda í því landi, en mörg ríki greiða bætur til þolenda afbrota.

Lesa meira:

Bætur til þolenda afbrota á Ísland.is.