Undirbúningur fyrir vitnisburð
Brotaþolar, rétt eins og önnur vitni, eru boðaðir á ákveðnum tíma. Réttargæslumaðurinn þinn lætur þig vita hvenær þú átt að mæta og er þér til stuðnings í ferlinu.
Að mæta í héraðsdóm
Sá sem ber vitni fyrir dómi má ekki hlusta á framburð þeirra sem gefa sinn vitnisburð á undan. Oftast berð þú vitni á eftir gerandanum. Þú bíður þess vegna fyrir utan dómsalinn þar til þér er vísað inn. Stundum getur vitnisburður dregist og þá gætir þú þurft að bíða lengur en þú hélst. Þú mátt svo fylgjast með réttarhöldunum eftir að þú hefur borið vitni, ef þú vilt.
Opin eða lokuð réttarhöld
Vanalega eru réttarhöld varðandi ofbeldi í nánu sambandi lokuð til að vernda hagsmuni þína og aðra sem málið varða.
- Ef réttarhöld eru lokuð fær enginn óviðkomandi málinu að vera viðstaddur.
- Ef þau eru opin mega almenningur og fjölmiðlar sitja réttarhöldin.
Ef þú vilt að réttarhöldin séu opin geturðu beðið um það og þá er vanalega farið eftir þínum vilja.
Í dómsalnum
Þar inni eru dómari, saksóknari, verjandi gerandans, réttargæslumaðurinn þinn og svo gæti gerandinn verið viðstaddur líka. Gerandi hefur rétt á því að vera inni í salnum en oft víkja þeir sér frá eða kjósa að vera ekki viðstaddir. Þegar komið er að þér sest þú í vitnastúku.
Yfirleitt eru dómsalir lítil herbergi og því er nálægð milli fólks stundum meiri en búast mætti við fyrir fram. Gerandinn gæti því setið nokkrum metrum frá þér.
Hverjir sitja hvar?
Vinstra megin í dómsalnum sitja saksóknari og réttargæslumaðurinn þinn. Hægra megin sitja gerandi og verjandi hans. Dómarinn er svo í miðjunni. Gott ráð er að horfa bara á dómarann og tala til hans, eða í þá átt sem héraðssaksóknari og réttargæslumaðurinn sitja til að fá styrk.
Beiðni um að sakborningur víki úr dómsal
Mögulegt er að óska eftir því að sakborningurinn verði ekki viðstaddur í dómsalnum á meðan þú berð vitni. Það er réttargæslumaðurinn þinn sem setur fram þá beiðni. Stundum samþykkir gerandi að víkja en ef ekki þarf dómarinn að úrskurða um hvort hann eigi að víkja eða ekki.
Dómari spyr og leiðbeinir
Fyrst biður dómari þig um að segja hvað þú heitir og útskýrir í stuttu máli hvernig þetta muni ganga fyrir sig. Dómari greinir þér frá því að það sé skylda að segja satt og rétt frá og að refsivert sé að segja rangt frá fyrir dómi. Þetta þýðir ekki að dómari búist við því að þú segir ósatt, heldur ber honum skylda til að leiðbeina brotaþola um þetta. Dómarinn segir það sama við öll vitnin.
Ef gerandinn er tengdur þér nánum fjölskylduböndum kynnir dómarinn þér að þér beri ekki skylda til að gefa skýrslu.
Hvað á ég að segja?
Yfirleitt er brotaþoli fyrst beðinn um að segja frá þeim atvikum sem eru til umfjöllunar og síðan spyr saksóknari út í einstök atriði. Eftir að sækjandi hefur spurt spurninga býðst verjanda að spyrja og stundum spyrja líka réttargæslumaður og dómari.
Í lagi að vera óviss
Markmiðið með því að hlusta á þína frásögn er að varpa ljósi á atvik málsins.
Þú ert að rifja upp þung atriði undir erfiðum kringumstæðum. Það er því allt í lagi, og reyndar mikilvægt, að láta vita ef þú manst ekki eða ert óviss um einhver málsatvik. Stundum rifja dómari, sækjandi eða verjandi upp hvað þú sagðir í skýrslutöku hjá lögreglu og spyrja hvort sú lýsing hafi verið rétt.
Eftir vitnisburðinn
Eftir að þú hefur borið vitni mátt þú vera áfram og fylgjast með framhaldi málsins, biðja um að fá að fylgjast með gegnum fjarfundarbúnað annars staðar í dómhúsinu eða yfirgefa dómsalinn.
Lesa meira:
Upplýsingar um málsmeðferð fyrir brotaþola